Fara í efni
Umræðan

Nokkur orð um skipulagsmál

Ég og fleiri raunar höfum sett mikið út á skipulagsmál hér í okkar yndislega bæ Akureyri og það ekki að ástæðulausu.

Skemmst er að minnast ætlaðs niðurifs BSO hússins, þar sem ég kom við sögu og hin ötula baráttukona Theódóra Torfadóttir safnaði 462 undirskriftum til verndar húsinu, sem hefur staðið þar sem það er nú í um 70 ár, byggt af þáverandi bílstjórum og að sögn Runólfs Ólafssonar hjá FÍB eina leigubílastöðin á landinu sem enn er starfrækt á sama stað í eigin húsnæði.

Næst er það gamli Lundur þar stendur til að brjóta niður og eyðileggja nær 100 ára gamalt hús eða 99 ára og byggja þar einn skýjakljúfinn enn. Ekkert er tekið tillit til sögu þessa merka húss sem á sínum tíma var eitt stærsta kúabú í Eyjafirðri og sá öllum Akureyringum og jafnvel fleirum fyrir mjólk. Heilt hverfi heitir Lundahverfi eftir þessu fræga býli og fjölmargar götur heita eftir þessu merka húsi t.d. Furulundur, Tjarnarlundur, Hrísalundur og margar fleiri. Engu er eirt.

Þá kem ég að gamla Alþýðuhúsinu, sem búið er að rífa en ekki fékk ég upplýsingar um hvaða háhýsi á að koma á þeirri lóð. Þetta hús hýsti á sínum tíma verkalýðsfélögin, fundi þess ágæta félagsskapar og aðrar athafnir en var síðan selt til Félags eldri borgara, sem svo seldi það aftur úr sinni eign. Alþýðuhúsið var líklega um 80 ára gamalt.

Ólíkt hafast þeir að

Að þessu sögðu vil ég geta þess að t.d. á Selfossi brann fyrir stuttu um 70 ára gamalt hús, Hafnartúnshúsið svipað gamalt og BSO húsið og ekki kemur þar til greina annað en endurbyggja það enda bjuggu þar til tuga ára kaupfélagsstjórar á Selfossi.

Annað dæmi vil ég hér nefna að á Húsavík eru uppi háværar raddir um að friða hvorki meira né minna en gamlan beituskúr og þegar hafa safnast á þriðja hundrað undirskriftir til verndar skúrsins.

Þá vil ég nefna að í því fallega þéttbýli í Hörgársveit hér rétt utan við Lónsbrúna er mér sagt að ekki séu til háreistari hús en 2 hæðir. Er nema von að ég segi í upphafi „ólíkt hafast þeir að“?

Ein saga að lokum úr Alþýðuhúsinu í gamla daga þegar einnig voru haldin þar böll og ég á aldrinum innan við 20 ára og mínir félagar og fleiri dönsuðum þar við hljómsveit Árna Ingimundar og Mikki feiti söng lagið „Dæna“ með miklum búklegum tilþrifum, að þá var fjör og öllu heilbrigðara lífið á yndislegu Akureyri.

Hjörleifur Hallgríms er eldri borgari á Akureyri

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30