Fara í efni
Umræðan

Maðurinn og náttúran

Ég hef alið manninn og stofnað til fjölskyldu síðastliðin ár á Seyðisfirði, en þangað fluttum við eftir að hafa verið þar eitt stórskemmtilegt sumar. Það er eitthvað töfrandi við Seyðisfjörð sem laðar að - oft eins og þar sé að verki einhver x-factor, sem er blanda skynjunar og svo auðvitað þeirrar uppbyggingar og krafts sem ríkir þar í samfélaginu. Hvað skynjunina varðar þá hefur bæjarfjallið Bjólfurinn ef til vill sitt að segja. Mig langar að vitna til dulsýnar Ingibjargar á Ísafirði úr bókinni Íslensk fjöll séð með augum andans. Þar segir meðal annars um Bjólfinn:

Yfir fjallinu Bjólfi við Seyðisfjörð hvílir austræn fegurð, sem líkja má við hliðstæð fjöll í Nepal og Tíbet. Yfir fjallinu er mikil dulúð og helgi. Bjólfurinn er tákn andans tignar. Hver sem beinir augum sínum til hans fyllist lotningu og þrá eftir því sem æðra er. Það kemur til af því að andi fjallsins er yfirskyggður af sól almættisins. Úr kröftum fjallsins er ofinn sá guðvefur sem breiðist yfir Austfirði og landið allt. Hann er það dýrmæti í andlegum skilningi, sem byggir upp og göfgar íslenska þjóðarsál.

Falleg eru þessi orð og ég trúi því að náttúran öll og orka hennar hafi gríðarleg áhrif á manneskjuna eins og auðvitað lífríkið allt. Allt tengist. Einmitt þess vegna ber okkur skylda til að umgangast hana af auðmýkt, virðingu og vernda fyrir öflum sem eru drifin áfram af fjárhagslegum ávinningi.

En vetrartíminn getur reynt á þar sem fjöllin há koma í veg fyrir að sólin nái að skína á byggðina þá mánuði þegar sólargangur er hvað stystur og Fjarðarheiðin getur verið mikill farartálmi og einangrandi. Fyrir skömmu snjóaði þar meira en í áraraðir og mikil snjóflóðahætta í byggðinni undir Bjólfinum og um leið var Fjarðarheiðin lokuð um tíma vegna ófærðar. Hugurinn var þá sannarlega heima á Seyðisfirði.

Við fjölskyldan erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að byggja upp líf okkar á Seyðisfirði og taka þátt í samfélaginu. Starf mitt krefst þess að ég dvelji á Seyðisfirði yfir sumarið en ég get sinnt starfi mínu hvar sem er yfir veturinn. Því ákváðum við fjölskyldan að breyta til og hrista aðeins upp í vetrarlífinu og leyfa eldri stráknum okkar að hefja skólagönguna á Akureyri. Ég var í námi við Háskólann á Akureyri á árunum frá 2004 til 2008 og á góðar minningar frá þeim tíma. Ég geng því inn í breiðan faðm vina og kunningja hérna í bænum. Fyrir mér er Akureyri alveg dásamlegur staður þar sem náttúran er allt um kring, umferðin og mengunin gerir mann ekki brjálaðan og um leið mikil gróska í menningu og listum, mikið framboð af afþreyingu og auðvitað Hlíðarfjallið. Við Eyjafjörð er líka annað merkilegt fjall, Kaldbakur, sem Erla Stefánsdóttir sagði að væri ein af sjö orkustöðvum landsins.

Þegar við komum í haust vildi ég finna mér stað þar sem ég gæti haft vinnuaðstöðu og verið líka í góðum félagsskap. Ég ákvað því að hafa samband við AkureyrarAkademíuna og ekki stóð á svörum þaðan um að fá vinnupláss, sem er á mjög hagstæðum kjörum, og að taka þátt í þverfaglegu samfélagi fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Við hittumst á kaffistofunni til að spjalla og snæðum mánaðarlega saman í hádeginu þar sem fólk segir frá verkefnum sínum, og gerum okkur líka annað slagið glaðan dag, alveg eins og á öðrum vinnustöðum. Við leggjum áherslu á að miðla þekkingu og skapandi hugmyndum til samfélagsins og að stuðla að umræðum með því að bjóða upp á fjölbreytta viðburði sem hafa það markmið að tengja saman mismunandi hópa og að virkja almenning til þátttöku. AkureyrarAkademían hefur lengi átt farsælt samstarf við Háskólann á Akureyri og ReykjavíkurAkademíuna og í samvinnu við Akureyrarbæ er einstaklingum boðið upp á endurgjaldslausa aðstöðu til að vinna að þróun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna. Það er ómetanlegt að tengjast öðru fólki í samfélaginu í Akademíunni, ræða málefni líðandi stundar og læra hvert af öðru.

Það væri óskandi að sveitarfélög hefðu meira frumkvæði að því að koma á fót fræða- og þekkingarsamfélögum á borð við AkureyrarAkademíuna en samhliða þarf líka að huga að uppbyggingu innviða, eins og samgöngum og húsnæði. Í þessu liggja mikil tækifæri fyrir landsbyggðina til að styrkja búsetu og samfélög nú þegar hægt er nánast svo að segja að vinna hvaðan sem er.

Við á Seyðisfirði höfum lengi barist fyrir verndun fjarðarins gegn sjókvíaeldi og hafa 75% íbúa lýst sig andvíga áformum um það en sveitarfélagið Múlaþing virðist ekki ætla að virða skoðanir íbúanna. Ríkið og innviðaráðherra færði Seyðisfjörð nær þessum áformum með því að samþykkja skipulag um haf og strandsvæði þar sem komið var til móts við hagsmuni fiskeldisfyrirtækisins en hundsað að líta til samráðs við íbúa eins og lofað var við gerð skipulagsins.

Maðurinn hefur nú gengið á 70% vistkerfis síns, það verður ekki aftur snúið og við verðum að bregðast við og að bjarga því sem bjargað verður. Jörðin þarfnast heilunar og maðurinn líka. Við virðumst vera orðin alveg tengslalaus við náttúruna.

En allt tengist - og nú er kominn tími til að tengjast.

Ég vil enda þennan pistil á orðum Erlu Stefánsdóttur sem sá meira en við hin meðan hún lifði.

Finnum einingu með öllu lifandi - finnum að jörðin, himininn, þú, ég, við öll, erum eitt. Finnum hljóm sköpunarinnar gagntaka okkur - finnum að sá er skapaði allt þetta er nálægur. Gætum að jafnvægi manns og jarðar.

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir er framkvæmdastýra og hjúkrunarfræðingur.

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00