Fara í efni
Umræðan

Jólasveinar 1 og 8

Þau tíðindi að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi ákveðið að fækka sýslumönnum á Íslandi úr 9 í 1 hafa að vonum vakið mikla athygli. Greinilegt að Jón ætlar að láta hendur standa fram úr ermum þann stutta tíma sem hann fær í embættinu. Jón er umdeildur bæði innan eigin flokks sem annarra, en með glott á vör og töskuna hangandi á öxlinni ræðst hann óhræddur á hið helga og forna vé sem sýslumannsembættin eru.

Sýslumenn til forna voru æðstu menn landsins og höfðu líf og afkomu almennings í höndum sér. Þeir voru lögregla þeirra tíma og hátt yfir gagnrýni hafnir. Dæmdu menn miskunarlaust fyrir yfirsjónir og framfylgdu dauðadómum hvort sem þeir voru á höggstokknum eða í drekkingarhylnum.

En nú er öldin önnur. Verkefnum hefur stöðugt fækkað og þau ýmist færð öðrum eða lögð niður. Ekki er lengur riðið með póst milli landshluta og allt gerist með ógnarhraða á þessari gerfihnattaöld sem öllu hefur umturnað frá því sem áður var. Því hefur þessum embættum fækkað jafnt og þétt í gegnum árin. Nú er svo komið að með tölvum og annarri tækni sem sífellt taka breytingum gætu fæstir sýslumenn tæpast leyst venjulegan skrifstofumann af störfum svo vel sé. Eflaust hafa margir af þessum fornu sýslumönnum snúið sér við í gröfinni þegar í ljós kom að jafnvel konur gætu sinnt embættinu skammlaust og það í sama búningi og þeir en ekki í pilsi, stuttu eða síðu eftir smekk.

En af hverju að skilja einn eftir, væri ekki betra að kveðja þá alla og losna við þann leðjuslag sem í vændum er? Jón er nú þekktur fyrir að taka slaginn, en hugsanlega lætur hann þá alla fjúka og ræður nýjan, svona sýnishorn af sýslumanni sem má rúlla út við ákveðin tilefni. Hann gæti verið til heimilis að Árbæjarsafni þar sem sagan er í hávegum höfð.

Er ekki annars Brynjar Níelsson enn á lausu? Sýslumaður Íslands, hann færi létt með það.

Sjálfur hef ég smávegis reynslu af störfum á sýslumannsskrifstofunni á Akureyri. Ráðinn þangað af öðlingsmanninum Birni Jósef Arnviðarsyni sem ég tel síðasta sýslumann Akureyrar, þrátt fyrir þá tvo sem á eftir komu.

Þorleifur Leó Ananíasson er fyrrverandi starfsmaður Sýslumannsins á Akureyri.

Samstaða, kjarkur og þor

Björn Snæbjörnsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 15:00

Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Þór Karls skrifar
30. apríl 2025 | kl. 06:00

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 16:00

Bjánarnir úti á landi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 12:53

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Ásthildur Sturludóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 17:00

Hörmungarástand við Lundargötu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
11. apríl 2025 | kl. 10:45