Fara í efni
Umræðan

Hvert hverfi er þorp

Hvert hverfi er þorp – samfélag innan samfélagsins. Vel heppnað skipulag getur af sér byggð þar sem gott er að búa, starfa, fara um og njóta umhverfisins. Slíkt skipulag horfir til félagslegra þátta ekki síður en umhverfislegra eða fagurfræðilegra. Gott skipulag er grunnurinn en samfélag verður auðvitað ekki til á teikniborðinu, og ekki á einni nóttu, heldur með hversdagslegum athöfnum yfir lengri tíma. Það verður ekki til af sjálfu sér og allra síst í tómarúmi. Til þess að hverfi ali af sér samfélagslegan anda verða að vera til staðar rými fyrir íbúa til að koma saman, deila upplýsingum, stofna til og rækta félagstengsl, slaka á, hafa gaman. Í hverju skólahverfi eru skólarnir og leikskólarnir dæmi um slíka staði, fyrir hluta íbúanna í það minnsta. Fyrir yngstu meðlimina, að sjálfsögðu, en líka fyrir foreldrana sem hittast þar á vettvangi foreldrasamstarfs og einnig í gegnum tómstundir barna sinna. Sá hópur sem má hins vegar ekki gleymast eru eldri íbúar bæjarins, þau okkar sem eru hætt að vinna en vilja hafa eitthvað fyrir stafni og eyða hversdeginum í góðu nærumhverfi.

Í Aðalskipulagi Akureyrar 1998 – 2018 voru settar fram hugmyndir um endurnýjun bæjarrýmisins, þar sem blöndun íbúðar- og þjónustuhúsnæðis og grunneiningarnar, götur og torg, áttu að móta umgjörð mannlífs. Nýtt hverfi var að byggjast upp sem átti að anna þörf á húsnæði næstu tvo áratugina. Lífæð þessa nýja hverfis, nefnt eftir bænum Naust, var (og er) samkvæmt skipulagi ‘bæjargatan’ sem þræðir sig í gegnum byggðina frá norðri til suðurs og bindur hana þannig saman. Hjörtu þessa hverfis og Hagahverfisins, sem enn er í uppbyggingu, áttu hins vegar að slá við þrjú torg, þaðan og þangað sem göngustígar kvísluðust milli húsa. Í skipulaginu afmörkuðust torgin af verslunar- og íbúðarhúsum, skólastofnunum og öðrum miðstöðvum sem gera áttu torgin lífleg allan daginn. Þannig var í upphafi gert ráð fyrir hverfisþjónustu innan um íbúðarhúsnæði, svo þjónustan mætti byggjast jafnt og þétt upp, samhliða vaxandi íbúðarbyggð.

Nausta- og Hagahverfi … hvernig hámörkum við lífsgæði íbúa í sátt við náttúruna?

Nausta- og Hagahverfi eru um margt vel heppnuð hverfi þar sem stutt er í fallega náttúru og vinsæl útivistarsvæði, bæði um sumar og vetur. Skólalóðin við Naustaskóla er án efa ein sú líflegasta í gervöllum bænum og sjaldgæft að hún standi auð. Sú framtíðarsýn sem dregin var upp í skipulaginu frá árinu 2018 hefur hins vegar ekki orðið að veruleika og enn í dag er engin þjónusta í hverfunum ef frá eru taldar matvöruverslanir nyrst og vestast í Naustahverfi. Engar aðrar verslanir, bakarí eða hárgreiðslustofur. Engar skrifstofur eða önnur fyrirtæki. Engin heilsugæslustöð og engir kjarnar þar sem boðið er upp á margvíslega þjónustu við eldri íbúa. Fyrir vikið eru þessi tvö nýjustu hverfi bæjarins að flestu leyti úthverfi, með takmarkað aðgengi að þjónustu og fáa staði þar sem íbúar geta komið saman á.

Það er ekki of seint að snúa þessari þróun við. Hverfin tvö, tekin sem heild, eru enn í mótun og jafnvel gróin hverfi þróast og þroskast löngu eftir að síðasti byggingarkraninn hverfur á brott. Til þess að byggðin í Nausta- og Hagahverfi dafni og verði að lifandi og sjálfstæðu samfélagi þar sem er gott að búa, teljum við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri mikilvægt að:

  • Stuðla að því að verslun og þjónusta færist inn í nýbyggt Hagahverfi. Í núgildandi deiliskipulagi er t.d. gert ráð fyrir verslun og þjónustu á mótum Kjarnagötu og Naustagötu. Þar teljum við að breytinga sé þörf á skipulagi svo verktakar sjái sér hag í að byggja upp á viðkomandi lóð.
  • Horfa sérstaklega til þarfa eldri íbúa og hefja samráð og samtal við Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi hverfin að aldursvænni byggð með tilliti til þjónustu og samkomustaða.
  • Klára sem fyrst frágang á leik- og útivistarsvæðum í Hagahverfi.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15