Fara í efni
Umræðan

Húsin þrjú á Eyrinni

Seinni árin hefur umræða aukist um verndum gamalla húsa og hverfa. Á Eyrinni er fjöldi húsa sem falla undir húsavernd samkvæmt lögum og mikilvægt að huga vel að því hvernig skal staðið að málum varðandi viðhald og verndun þessara húsa. Á Eyrinni hafa orðið slys sem vafalaust yrðu ekki í dag en því miður urðu þessi slys á þeim tíma sem umræðan og skynsemin voru á öðrum stað en nú.

Á syðri hluta Oddeyrar er í gildi deiliskipulag frá 1997 sem þarf að endurskoða enda barn síns tíma.

Í þessum pistli ætla ég að fara nokkum orðum um þrjú hús sem eru því miður illa farin vegna viðhaldsleysis í áratugi. Tvö þessara húsa eru við Strandgötu sem er ein dýrmætasta götumynd á Akureyri og eitt er síðan í Lundargötu sem er ein elsta gata í bænum. Gata sem því miður hefur látið mikið á sjá og mörg upprunalegu húsanna hafa verið rifin eða brunnið.

Strandgata 17

Fyrsta húsið sem um ræðir er Strandgata 17 sem stendur á horni Glerárgötu og Strandgötu. Það hús er í eigu Akureyrarbæjar og búið að vinna teikningar að endurbyggingu. Því miður hefur Akureyrarbær í hyggju að selja húsið með þeim kvöðum sem á því hvíla en ætlar ekki að axla ábyrgð á þeirri endurbyggingu sem vafalaust verður dýr. Það er leitt að bærinn taki ekki þennan bolta og láti endurbyggja þetta hús sem er óneitanlega á einum mest áberandi stað á Akureyri við þjóðveg 1. Hugmyndir bæjaryfirvalda munu líklega valda því að núverandi ástand muni standa lengi enn öllum til vansa. Hér þarf að stíga skref af skynsemi.

Strandgata 27

Strandgata 27 er á horni Norðurgötu og hefur staðið autt í slæmu ástandi mjög lengi. Nú eru í vinnslu tillögur um að rífa það hús og byggja nýtt, heldur stærra og fellur vel að umhverfinu við fyrstu sýn. Málinu var vísað til Minjastofnunar til skoðunar. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðu þaðan. Húsið er mjög gamalt og sannarlega friðað sem slíkt.

Lundargata 13

Lundargata 13 er þriðja húsið og hefur staðið autt árum saman og er í reynd að hruni komið. Búið er að teikna nýtt hús á lóðina sem er í anda Lundargötunnar og vel gert. Gamla húsinu er ekki viðbjargandi að mati sérfræðinga. Nýtt hús var auglýst um tíma, líklega án árangurs því ekkert hefur sjáanlega gerst. Lundargatan þarf sannarlega á því að halda að fyllt verði í skörð horfinna húsa og sum hver sem eftir eru þurfa á viðhaldi að halda. Sem betur fer hefur verið hreyfing við götuna til bóta en betur má ef duga skal.

Við spyrjum okkur, við sem unnum Akureyri og viljum varðveita gamla byggð og hús, hvenær og hvernig á að standa að endurbótum og uppbyggingu. Hvenær á að rífa gamalt hús og hvenær skal endurbyggt? Erfiðar spurningar sem þarf þó að svara.

Því miður eru bæjaryfirvöld þung í taumi þegar þarf að taka ákvarðanir og frumkvæðið lítið sem ekkert. Það er ekki boðlegt að sjá götur og hús grotna niður í umhirðuleysi, sérstaklega þegar bærinn á viðkomandi eignir.

Á Selfossi er verið að byggja nýjan miðbæ með eftirmyndum gamalla húsa sem auðvitað er umdeilt. Á að endurbyggja minjar sem hafa horfið? Ekki ætla ég að hafa skoðun á því en sannarlega horfir maður á kraftinn og frumkvæðið á Selfossi í þessum málum, sannarlega eitthvað sem vantar hér fyrir norðan.

Ásýnd hverfa og húsa eru menningarverðmæti. Ég vildi sannarlega sjá meiri metnað hjá mínu ágæta bæjarfélagi þegar kemur að því að taka alvöru ákvarðanir svo ekki sé talað um að framkvæma og hvetja. Það er sannarlega af skornum skammti.

Dæmin þrjú við Strandgötu og Lundargötu sem ég nefni eru sannarlega tækifæri fyrir Akureyrarbæ að hvetja og stuðla að varðveislu menningarminja á þann skynsamlegast verður við komið.

Þeir sem hafa það frumkvæði að vilja taka við boltum varðandi uppbyggingu og varðveislu eiga sannarlega stuðning skilinn.

Jón Ingi Cæsarsson er Eyrarpúki.

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00