Hugleiðingar um skólamál á Akureyri og spurningar til Sjálfstæðisflokksins

Ég þakka oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Heimi Erni Árnasyni, fyrir grein hans sem birtist nýverið hér á vefnum undir heitinu „Sterkt skólasamfélag á Akureyri, sameiginleg ábyrgð og framtíðarsýn“. Það er ánægjulegt að sjá málefnalega umræðu um skólamál bæjarins og ég fagna þeirri áherslu sem flokkurinn leggur á þennan mikilvæga málaflokk. Í greininni kemur fram margt jákvætt sem við getum verið stolt af en sem fagmaður í skólasamfélaginu vakna nokkrar spurningar eftir lestur greinarinnar. Því vil ég spyrja Heimi Örn nánar út í nokkur atriði og koma á framfæri hugleiðingum sem gætu styrkt skólastarfið enn frekar.
Sérúrræði og aðgengi
Hlíðarskóli er frábært úrræði sem hefur skilað góðum árangri eins og fram kemur í grein þinni. Þó vakna spurningar um aðgengi að þessari þjónustu, þar sem almennt er vitað að pláss eru fá miðað við þörf og bið eftir þjónustu getur verið löng. Þetta vekur áhyggjur meðal fagfólks og foreldra þeirra barna sem þurfa oft á snemmtækri og markvissri aðstoð að halda.
Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar hefur ítrekað verið staðfest í rannsóknum og þetta endurspeglast vel í skýrslunni „Menntun fyrir alla og þörf fyrir sérúrræði í grunnskólum Akureyrarbæjar“ sem Miðstöð skólaþróunar vann fyrir fræðsluráð Akureyrarbæjar frá árinu 2021. Þar er meðal annars lagt til að sértæk úrræði séu fjármögnuð með sérstakri viðbótarfjárveitingu eftir þörfum hvers skóla og að Hlíðarskóli verði áfram rekinn sem sérskóli ásamt því að efla tímabundin úrræði innan almennra skóla.
Sama skýrsla bendir á að kennarar upplifa aukið álag vegna breytts og útvíkkaðs hlutverks grunnskóla, þar sem þeir þurfa nú að sinna heildarlíðan nemenda samhliða áskorunum tengdum hegðunar- og námserfiðleikum. Rannsóknir Snæfríðar Drafnar Björgvinsdóttur og Önnu Lindar Pétursdóttur á hegðun nemenda og áhrif á líðan kennara frá 2015, sýna að „stór hluti grunnskólakennara þurfi að fást við hegðunarerfiðleika í daglegu starfi og telji þá hafa neikvæð áhrif á sig og nemendur sína“. Vandinn er ekki stefnan um menntun fyrir alla, heldur skortur á viðeigandi stuðningi og úrræðum sem stefnan kallar eftir.
Spurning: Hyggst Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir aukinni fjárveitingu og fleiri úrræðum til að bæta þessa þjónustu, sérstaklega með tilliti til snemmtækrar íhlutunar?
Gæðastarf og raunveruleikinn í kennslustofunni
Þú nefnir mikilvægi gæðastarfs og gæðaráða í skólastarfi, sem ég tek heilshugar undir. Áskorunin er þó að tengja þessa mikilvægu gæðaumræðu við daglegar áskoranir kennara, þar sem agavandamál og fjölbreyttar þarfir nemenda taka mikinn tíma og orku. Brýnt er að gæðastarf nái alla leið inn í kennslustofuna og létti raunverulega undir með kennurum.
Spurning: Hvernig hyggst flokkurinn þinn styðja kennara í þessum verkefnum og brúa bilið milli fræðilegrar umræðu um gæði og veruleikans í skólastofunni?
Skóli án aðgreiningar – framkvæmdin
Stefnan um skóla án aðgreiningar er göfug, eins og fram kemur í grein þinni, og góðu heilli er hún samofin öllu skólastarfi á Akureyri. Í framkvæmd vantar þó oft bjargir til að gera hana að veruleika á þann hátt sem henni er ætlað. Árangursrík framkvæmd kallar á markvissa þjálfun kennara, aukið samstarf við sérfræðinga og vel skipulagða stoðþjónustu.
Spurning: Hyggst Sjálfstæðisflokkurinn setja aukið fjármagn í þennan hluta skólastarfsins, ráða fleiri fagmenntaða starfsmenn og skýra frekar verkferla við að styrkja framkvæmd skóla án aðgreiningar?
Varðandi endurmenntun kennara
Varðandi endurmenntun kennara er athyglisvert að Akureyrarbær hefur valið leið þar sem kennarar þurfa að vera án launa þegar þeir sækja námskeiðslotur í háskóla. Þetta virðist í andstöðu við kjarasamning KÍ sem kveður á um að kennurum beri skylda til 102 klst. endurmenntunar árlega og að fagleg þróun sé lykilatriði í gæðastarfi.
Í kjarasamningi er meira að segja sérstaklega tekið fram að „í þeim tilfellum sem kennari sækir nám á háskólastigi sem nýtist í starfi er æskilegt að skólastjóri heimili kennara að nota hluta þeirra 102 klst. sem ætlaðar eru til starfsþróunar/undirbúnings kennara til námsins."
Þetta vekur spurningar um forgangsröðun, sérstaklega í ljósi þess að Akureyri hefur lengi kallað sig „skólabæinn Akureyri“ og státað af metnaði í menntamálum. Í skólabænum Akureyri ætti fagleg þróun kennara að vera í algerum forgangi en núverandi fyrirkomulag getur hamlað framþróun í skólastarfi.
Spurning: Hyggst Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri beita sér fyrir breytingum á þessu fyrirkomulagi til að auðvelda kennurum að sækja sér menntun sem styrkir faglegt starf þeirra og gera þannig nafnbótinni „skólabærinn Akureyri“ hátt undir höfði?
Tillögur til framfara
Þú nefnir að nú standi yfir endurskoðun á menntastefnu Akureyrarbæjar. Slík endurskoðun er kjörið tækifæri til að tryggja að reynsla og þekking kennara og starfsfólks skóla nýtist sem best.
Spurning: Í endurskoðun á menntastefnu Akureyrarbæjar, mun flokkurinn þinn beita sér fyrir því að skólafólk „á gólfinu“ fái aukið vægi í stefnumótun? Hvernig hyggst þú sem oddviti Sjálfstæðisflokksins tryggja að rödd kennara heyrist í ákvarðanatöku um skólamál?
Skólamál í kosningaáherslum
Nú eru átta mánuðir fram að sveitarstjórnarkosningum og því gefst góður tími til að móta metnaðarfulla stefnu í menntamálum. Hvaða áherslu mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja á skólamál í komandi kosningum? Hvar í forgangsröðun stefnumála flokksins eru umbætur í menntamálum og hvaða breytingar mun flokkurinn helst beita sér fyrir?
Ég set þessar hugleiðingar fram í þeirri von að þær hvetji til gagnlegrar umræðu um skólamál á Akureyri. Mikilvægt er að öll sjónarmið komi fram í opinni og málefnalegri umræðu um framtíðarsýn í menntamálum bæjarins.
Með vinsemd og virðingu,
Inga Huld Sigurðardóttir er grunnskólakennari á Akureyri


Hin gáttin

Samgöngufélagið Þjóðbraut

Stöndum með Háskólanum á Akureyri

Sterkt skólasamfélag á Akureyri, sameiginleg ábyrgð og framtíðarsýn
