Hjólað í vinnuna á Norðurlandi eystra
Átakið Hjólað í vinnuna hefst á morgun, þann 3ja maí og stendur yfir til 23ja maí. Átakið er fyrir löngu búið að festa sig í sessi í vitund landsmanna, en markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu og vekja í leiðinni athygli á virkum ferðamátum. Hjólað í vinnuna er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og í ár er verkefnið unnið í samstarfi við UNICEF, þar sem vinnustöðum býðst að styðja við Loftslagssjóð UNICEF samhliða þátttöku sinni.
Þrátt fyrir nafn átaksins eru öll þau sem notast við virka ferðamáta á leið til og frá vinnu gjaldgengir þátttakendur. Undir virka ferðamáta falla vissulega hjólreiðar, en einnig ganga, hlaup, notkun almenningssamgangna og hlaupahjóla. Sem sagt; allar ferðir í tengslum við vinnu sem annars hefðu verið farnar á einkabíl en notast er við virka ferðamáta í staðinn má skrá í keppninni. Skráning fyrir vinnustaði fer fram á www.hjoladivinnuna.is og þar má finna allar upplýsingar fyrir þátttakendur.
Núna er rétti tíminn
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra starfa samkvæmt Sóknaráætlun svæðisins, sem hefur m.a. að markmiði að draga úr kolefnisspori landshlutans. Stærsti einstaki þáttur þeirrar losunar sem Ísland ber ábyrgð á er vegna vegasamgangna og ljóst að mikil tækifæri eru til að draga úr þeirri losun, bæði á landsvísu en einnig hér á Norðurlandinu.
Nú þegar vor er í lofti, götur og stígar eru auðir er tilvalið að koma notkun virkra ferðamáta í daglegar venjur með þátttöku í Hjólað í vinnuna. Aðstæður á vinnustað og viðhorf vinnuveitenda til virkra ferðamáta getur riðið baggamuninn þegar kemur að ferðavenjum starfsfólks til og frá vinnu. Ef horft er til hefðbundinnar skrifstofustarfsemi eru ferðir starfsmanna til og frá vinnu oftast langstærsti losunarþátturinn sem tengist starfseminni. Því er tilvalið fyrir vinnustaði sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð og draga úr losun vegna sinnar starfsemi að hvetja starfsfólk sitt til dáða og styðja við virka ferðamáta.
Hvað er gott fyrir vinnuveitendur að hafa í huga?
Er góð aðstaða til að geyma hjól á vinnustaðnum?
Það skiptir máli að hafa góða aðstöðu til að geyma hjólin yfir daginn, á öruggum stað. Æ fleiri fjárfesta nú í vönduðum hjólum eða rafmagnshjólum sem þeim er annt um og það er letjandi að hafa áhyggjur af því að þau skemmist eða hverfi á meðan vinnudegi stendur. Best er ef hægt er að koma hjólunum fyrir í læstri geymslu, næstbest að geta læst þeim við sterka hjólaboga en ekki er sérstaklega mælt með svokölluðum gjarðarbönum. Gjarðarbanar er annað orð yfir litlu hjólagrindurnar sem sjást mjög víða, en þær styðja ekki við þyngri hjól og njóta lítilla vinsælda hjólaeigenda.
Er svigrúm í boði?
Ef að starfsemi vinnustaðarins býður upp á sveigjanleika í vinnutíma er það stór kostur fyrir þau sem nota virka ferðamáta. Strætó getur seinkað og ferðalög á tveimur jafnfljótum eða hjóli geta tekið aðeins lengri tíma en á bílnum. Nokkra mínútna svigrúm getur hjálpað starfsmanni sem þarf að skila af sér börnum í leikskóla og hjóla svo áfram í vinnuna. Sami starfsmaður gæti svo þurft að fara aðeins fyrr en ella til að ná í barnið á réttum tíma og auðvitað mikilvægt að því sé sýndur skilningur.
Er sturta/aðstaða til fataskipta á vinnustaðnum?
Fyrir þau sem hjóla lengra að til vinnu er gott að vita til þess að hægt sé að skipta úr spandex-gallanum, skola snöggt af sér og geyma föt og hjálm í læstum skáp. Þannig aukast einnig líkurnar á að starfsmenn samtvinni daglega hreyfingu og ferðalög til og frá vinnu, sem er mikill kostur hvernig sem á það er litið.
Bjóðum við upp á samgöngusamninga fyrir starfsfólkið okkar?
Samgöngusamningar er eitt besta tækið sem vinnuveitendur hafa til að hvetja til vistvænna samgangna. Samgöngusamningur er samkomulag milli starfsmanns og vinnuveitenda og hafa skal í huga að slíkir samningar geta litið allskonar út. Til dæmis er hægt að mæta mismunandi aðstæðum starfsfólks með því að bjóða upp á sérstakan samning frá vori og fram á haust þegar flestum þykir auðveldara að hjóla eða ganga, eða bjóða upp á skrefaskiptan samning þar sem byrjað er á færri dögum en fleiri. Frekari ráðleggingar um gerð samgöngusamninga má finna hér.
Gætum við haft hjól til láns á vinnustaðnum?
Margir vinnustaðir eru með hjól, rafmagnshjól eða rafmagnshlaupahjól á vinnustaðnum sem hægt er að fá lánað þegar skroppið er á vinnufundi eða erindi á vinnutíma. Þetta getur verið hvetjandi fyrir þau sem nota strætó eða koma gangandi til vinnu, þá eru þau ekki háð eigin bíl á vinnutíma, og þetta getur verið frábær leið til að leyfa fólki að prófa sig áfram með til dæmis rafhjól, án fjárhagslegra skuldbindinga. Það eru allnokkur dæmi þess að fólk sem kynnist rafhjólamennsku á vinnutíma hafi endað á að kaupa sitt eigið rafhjól í kjölfarið.
Ættum við að sækja um hjólavottun?
Metnaðarfullir vinnustaðir geta bæst í hóp fjölda stofnana og fyrirtækja sem hafa farið í gegnum hjólavottunarferli og tryggja þannig góða aðstöðu fyrir hjólandi starfsfólk og viðskiptavini. Frekari upplýsingar um hjólavottun má finna hér.
Erum við hvetjandi og getum við nýtt tilefnið til hópeflis á vinnustað?
Tilvalið er að nota átak eins og hjólað í vinnuna til hópeflis, ekki bara til að kynda undir keppnisskapi þeirra sem það hafa heldur halda saman upp á góða þátttöku í lokin!
Allt eða ekkert?
Öll búum við við misjafnar aðstæður, misjafna færni og þurfum að ferðast mismiklar vegalengdir til daglegra starfa. Það er ekki raunhæft að við lifum öll bíllausum lífsstíl alltaf og markmiðið er ekki að öll losi sig endanlega við einkabílinn. Markmiðið er mun viðráðanlegra; að draga úr notkun einkabílsins eins og hægt er, með tilheyrandi umhverfisávinningi og heilsufarsávinningi. Hver ferð telur og tilvalið að draga fram hjólin, rafhjólin, hlaupahjólin, góða skó og strætóáætlanir og prófa sig áfram með virka ferðamáta í vor með dyggum stuðningi vinnuveitanda.
Frekari upplýsingar má finna á eftirtöldum vefsíðum:
Kristín Helga Schiöth er verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE).