Fara í efni
Umræðan

Hendum krökkunum fyrir klámkóngana

Hvað varð um ungmennin okkar? Unga fólkið sem var lífsglatt, áhyggjulaust, leitandi, skapandi, sjálfstætt og í uppreisn – vissulega pirrandi á köflum – og stútfullt af krafti. Umfram allt var hægt að kýta, tala, rökræða, grínast, leika, tuskast, skreppa í fótbolta, tefla, spila og eiga samskipti. Í bestu tilfellum að styðja, leiðbeina, hugga og hvetja og vera einhvers konar fyrirmyndir, misgóðar þó. Skyndilega stóðu foreldrar, kennarar og aðrir uppalendur uppi með tvær hendur tómar og ekkert fyrir framan sig nema símann eða tölvuskjáinn og krakka sem störðu út í bláinn.

Alhæfingar eru rugl en samt sem áður þá höfum við kennarar og foreldrar fengið kalda vatnsgusu framan í okkur, sérstaklega síðasta rúma áratuginn eða jafnvel tvo. Við misstum tökin, glötuðum sambandinu, stóðum eftir sem ráðalausar risaeðlur. Jú, jú, það kom hrun, rótleysi, stytting framhaldsskólans, heimsfaraldur, stríð í Úkraínu og verðbólga. Samt…

Ég vil ekki leita að sökudólgum og brenna þá á báli. Í ljósi reynslu minnar sem manneskja, kennari og foreldri, finnst mér þó einsýnt að geigvænlegasta byltingin sé sú að við féllum flöt fyrir netguðunum sem boðuðu allsherjar endurlausn, vísdóm og hamingju. Við fyrirgerðum rétti barna okkar til uppeldis, samveru, mannlegrar fræðslu, leiks og leiðbeiningar. Við afhentum klámkóngum í Sílíkondalnum og amerískum vefsíðum og samskiptamiðlum það sem okkur var kærast. Börnin okkar. Gjörið svo vel, búið til úr þeim neytendur sem munu í hanga í snöru algrímis og stjórnast af lækum og öðrum músarsmellum til eilífðarnóns og okkur til dýrðar. Skítt með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og annað prjál.

Rosalega gerðist þetta hratt og einhvern veginn á svo lymskufullan hátt undir merkjum upplýsingatækni, framfara og þróunar. Hvernig er að vera foreldri og ná aldrei sambandi við barnið sitt sem er stöðugt í tölvu eða síma og tilvera þess undirlögð lækum? Hvernig er að vera kennari og reyna að hafa uppbyggileg samskipti við nemendur sem stara á símann sinn eða tölvuskjái, leita að lækum, tefla, kaupa skó, sprengja blöðrur, horfa á endalaus myndbönd af förðun og fegrunaraðgerðum?

Þetta er ekki krökkunum að kenna heldur agaleysi, aðgerðarleysi, aðhaldsleysi, afskiptaleysi og algjöru dómgreindarleysi okkar sem eigum að heita fullorðin og fyrirmyndir. Við erum sjálf á kafi í skítnum og getum því ekki bjargað börnunum okkar úr kóngulóarvef tæknirisanna og þess vegna er komið þetta rof sem verður ekki lagað nema með þjóðarátaki og gagngerri hugarfarsbreytingu.

Eigum við bara að skrúfa fyrir? Varla. Við fengum netið og núna gervigreindina til að auðvelda okkur lífið (og fækka störfum) og munum að sjálfsögðu hagnýta okkur allt það sem til framfara horfir. Ég lít á það sem framfarir þegar læknar og lögfræðingar þurfa ekki lengur að læra öll fyrri dæmi og tilfelli utan að heldur er hægt að fletta þeim upp á netinu. Það eru líka framfarir fyrir okkur kennara að þurfa ekki að vera gangandi alfræðiorðabækur og alvitringar heldur getum við nú hvatt nemendur til að leita sér þekkingar á netinu, finna svör við spurningum sínum og skoða þau á gagnrýninn hátt, sem svo er hægt að ræða.

Þetta blessaða net er bara eins og æskan hérna áður fyrr, eitthvað sem þarf að hafa stjórn á og leiðbeina blessuðum börnunum, kenna þeim, setja mörk. Þar liggur hundurinn grafinn. Við setjum engin mörk. Agaleysið er algjört. Krakkar geta verið á netinu í 16 tíma sólarhring eða lengur. Svefn, andleg viðvera, samskipti, samvera, allt hið mannlega í algjöru lágmarki. Eins og upp úr þurru verða svo allir hissa á því að börnin er greind með athyglisbrest, kvíða, þunglyndi, mótþróaþrjóskuröskun, áhættuhegðun og fíkn eða á einhverju rófi.

Þegar allt er komið í fokk er kallað eftir aðgerðum (þá meina ég ekki svokallaðar „faglegar“ aðgerðir eins og styttingu framhaldsskólans eða umræðuna í dag um sameiningu; allt hefur þetta aðallega með sparnað að gera, annað er blekking). Nei, við þurfum að byrja á réttum enda, forvörnum og uppbyggilegum aðgerðum, ekki bara fjölga sálfræðingum og meðferðarúrræðum á hinum endanum.

Því miður erum við foreldar ekki færir um að sinna hlutverki okkar lengur því við erum ofurseld því sama og börnin okkar líða fyrir; gylliboðum netsins, gerviheimi og gjörsamlega sturlaðri og truflaðri fjölmiðlun sem lætur okkur lesa og smella á allt sem heitir frægt, ríkt, stjörnur, brjóst, rass, skilin, byrjuð saman, glæsihýsi, draumaprinsinn, sjáðu hitt og sjáðu þetta!

Æ, var ekki lífið pínu notalegra þegar maður heyrði í útvarpinu: „Grímsey. Logn. Gráð. Þokuloft í grennd. Hiti 4 stig. Lofþrýstingur 997 millbör og fallandi. Veðurskipið Lima…“

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er manneskja, faðir, afi, kennari og einhvers konar skáld

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50

Með fjöreggið í höndunum

Hlín Bolladóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 16:15

Kostnaður ofbeldis

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 14:45