Fara í efni
Umræðan

Heilagt vopn misnotað við pólitískar hreinsanir í Flokki fólksins

Hinn 13. september sl. setti varaformaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, fram þá ásökun á fésbókarsíðu sinni að „kvenleiðtogar flokksins sættu kynferðislegri áreitni á Akureyri af hálfu ákveðinna trúnaðarmanna flokksins“. Síðar sama dag birtu þrjár konur, sem vinna að bæjarstjórnarmálum fyrir Flokk fólksins á Akureyri, yfirlýsingu í blöðum, þar sem segir m.a.: „Í kjölfar yfirlýsingar varaformanns Flokks fólksins í morgun... höfum við sem erum þolendur alls þessa ofbeldis sem um er rætt ... ákveðið að útskýra... ömurlega reynslu af samskiptum við þessa ónefndu karlaforystu og aðstoðarmenn þeirra... Sumar okkar máttu sæta kynferðislegri áreitni...“

Allt er þetta afar óljóst en ásökunin um kynferðislega áreitni tryggði mikla fjölmiðlaumfjöllun. Fjölmiðlar voru ekki í neinum vandræðum með að skilgreina hver „karlaforystan“ var, það hlutu auðvitað að vera karlar í efstu sætum lista Flokks fólksins á Akureyri, þ.e. Brynjólfur Ingvarsson (í 1. sæti listans) og Jón Hjaltason (í 3. sæti listans). Í sex daga var fjallað um málið og þessir tveir engdust við að reyna að verja sig gegn alvarlegum ásökunum en svo óljósum að erfitt var að henda reiður á málinu og bera hönd fyrir höfuð sér. Þá loks 19. september héldu konurnar fréttamannafund og sögðu að Brynjólfur og Jón hefðu ekki beitt þær kynferðislegri áreitni, þeir væru saklausir af því. Þetta sögðu þær án þess að sýna nokkurn vott af iðrun yfir því að hafa valdið því, að allir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar landsins fjölluðu um þessar ásakanir á hendur þeim Jóni og Brynjólfi. Hvað þá að þær orðuðu afsökun eða segðu að þeim þætti þetta leitt. Á fundinum voru þær ekki krafðar skýringa á því hvers vegna þær höfðu búið til þessar röngu sakargiftir, og ef þetta var allt saman misskilningur, hvers vegna höfðu þær þá ekki strax stigið fram og leiðrétt misskilninginn, frekar en að horfa upp á saklausa menn sitja undir slíkum ásökunum dögum saman? Svo furðulegt sem það nú er, þá hefur ekkert verið fundið að þessari framkomu þeirra. Þær sjálfar sjá enga ástæðu til að biðjast afsökunar og varaformaður flokksins sagði: „Ég mun ekki biðjast afsökunar á einu né neinu. Ef þeir vilja segja sig úr flokknum er það þeirra mál.“ Varaformaður og formaður Flokks fólksins sjá ekkert athugavert við þessa hegðun, þeir eru blindir á góða siði, þ.e. virðast siðblindir. Slíkt smitast yfirleitt niður til undirsátanna eins og þekkt er, því ella fá þeir ekki að vera með. Ég held hins vegar að flestir aðrir sjái, að þessi framkoma er alls ekki við hæfi.

Lengi urðu margir að þola mikinn órétt í hljóði því ekki var hlustað ef reynt var að kvarta yfir kynferðislegri áreitni og árásum. Það breyttist með #metoo. Nú er hlustað og það vita gerendur og margir halda sér í skefjum af hræðslu við þetta vopn, sem þolendur kynferðisbrota hafa fengið í hendur. Vopnið er heilagt og ber að koma fram við það af virðingu. Það er grafalvarlegt mál þegar það er vanhelgað og slævt, og spellvirki unnin á því, með að misnota það eins og gert var í þessu máli, þegar það var notað af valdagræðgi og yfirgangi við pólitískar hreinsanir í Flokki fólksins. Þetta framferði ber að fordæma harðlega. Formaður og varaformaður Flokks fólksins og fleiri mega skammast sín niður í lægstu lægðir.

Ég læt Páli J. Árdal (1857-1930) eftir síðustu orðin en hann orti:

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann.
Þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann.
En láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir að hann hafi unnið til saka.

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

Höfundur er lögmaður á Akureyri og bróðir Jóns Hjaltasonar.

Meirihluti Akureyringa án heimilislæknis

Björn Valur Gíslason skrifar
29. febrúar 2024 | kl. 17:30

Háskólinn á Akureyri

Jón Bjarnason skrifar
20. febrúar 2024 | kl. 20:00

Ákall til bæjarstjórnar Akureyrarbæjar

Olga Ásrún Stefánsdóttir skrifar
16. febrúar 2024 | kl. 12:50

Aukið ofbeldi á Norðurlandi eystra

Kristín Snorradóttir skrifar
15. febrúar 2024 | kl. 12:12

Sum börn fá að lifa. Önnur ekki

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
10. febrúar 2024 | kl. 16:50

Af hverju eru deilur um skipulagsmál á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
10. febrúar 2024 | kl. 10:30