Fara í efni
Umræðan

Göngugatan – af hverju er þetta svona erfitt?

Göngugatan svokallaða er enn ekki nein göngugata. Þetta er samansafn ökutækja á ferð, öll bílastæði full og innan um bílana í mengun og áhættu eru íbúar og gestir að reyna að forðast að lenda fyrir bíl og passa börnin sín. Gamla orðið sem varð til þegar til stóð að göngugatan stæði undir nafni er enn notað þó það sé í sjálfu sér algjört öfugmæli.

En hvað um það bæjaryfirvöld síðustu 20 ára hafa ekki þorað að stíga nein skref að gagni á þessu svæði nema þó að loka einstaka sinnum um helgar um hásumarið. Þá verður strax annar bragur á og göngugatan verður sú gata sem alltaf stóð til að væri þarna.

Þessi hluti Hafnarstræti frá nr. 91 til 108 er kannski 200 metra bútur þar sem í dag eru mest krár, veitingastaðir, heilsugæsla sem er að fara, gistiheimili og fáeinar verslanir. Af hverju þarf endilega að hafa þennan stubb opinn fyrir bílaumferð er í sjálfu sé illskiljanlegt. Bílastæði eru örfá og varla eru þeir sem þarna vilja endilega aka um að skoða í búðaglugga sem engir eru og er einstök heppni að finna autt bílastæði. Fyrir suma er þetta bara RÚNTURINN og erindið að skoða mannlífið.

Veitingastaðir og krár eru einkenni erlendra göngugatna og mörgum sögum fer að því að þannig starfsemi blómstri í slíku umhverfi. Þar ber nokkuð á sérverslunum. (Hugsið ykkur Strikið í Kaupmannahöfn sem sama fyrirkomulagið og hér)

En á Akureyri er það svolítið gamla sagan þegar kemur að því að breyta einhverju í Miðbænum, það verður allt svakalega erfitt og þarf að rannskaka málin enn betur þó fyrir liggi niðurstöður fjölda skoðana á málefnum Miðbæjarins. Nú hefur núverandi bæjarstjórn hafnað að hafa götuna opna og skilgreina hana sem alvöru göngugötu og rannskaka málin einu sinni enn í samráði við hagsmunaaðila hverjir sem það nú eru. Enn skortir þor og áræði að stíga alvöru skref til framtíðar, gamalkunnur bútasaumur og reddingar. Tillaga bæjarfulltrúa Hildu Jönu var felld af meirihlutanum með vísan inn í óráðna framtíð (einu sinni enn). Þó er gott að sjá að hugsanlega eigi að vísa málinu til bæjarbúa sem auðvitað eru HAGSMUNAAÐILARNIR, burtséð frá þeim sem meirihlutinn hefur í huga þegar þeir nefna hagsmunaaðila.

Ef af þessum breytingum gæti orðið þá verður staðan allt önnur. Fólk getur notið útivistar með börnin sín í öruggu skjóli, gestir á útisvæðum veitingahúsa þurfa ekki að sitja í mengun og umferðarhávaða , foreldrar sem vilja nota nýlega gert leiksvæði fyrir börnin þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að missa börnin niður í umferðina og mengunin af útblæstri bifreiða hverfur. Gera þetta með sumarið í huga til að byrja með.

Þó svo meirihlutinn hafi fundið sér enn eina afsökunina til að gera ekki neitt í málefnum göngugötunnar á Akureyri vona ég að það sé að kvikna ljós. Götuna þarf að endurhanna sem göngugötu á nútímalegan hátt og auðvitað verður Ráðhústorgið að fylgja með, þá loksins er von til að áratugagamlar hugmyndir um mannvænan og fallegan Miðbæ rætist.

Jón Ingi Cæsarsson er fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15