Fara í efni
Umræðan

Ferðaþjónustan þarf að gæta hófs

Ferðaþjónustan hefur vissulega „rifið“ Íslenskt efnahagslíf upp úr öldudal Covid-19. Stefnir í að fjöldi ferðamanna nái nýjum hæðum - - og slagi nú kannski upp í 3 milljónir yfir árið.

Svipuð þróun varð frá Bankahruninu stóra 2008 og eftir gengisfellingu og Eyjafjallajökulsgosið varð Ísland áhugaverður kostur og árið 2018 hafði fjöldi ferðmanna komist í 2,5 milljónir.

Engin víðtæk stefnumótun hefur samt sem áður farið fram á vettvangi stjórnmálanna þrátt fyrir þennan langa tíma og ofur-vöxt fyrir og eftir Covid.

Ferðaþjónustan er enn að mestu rammalaus og vaxandi fjöldi landsmanna hefur ótvírætt þá tilfinningu að umsvifamenn í greinininni ryðjist um af talsverðri frekju. Greinin skilur staðbundið alltof lítið eða ekkert eftir hjá almenningi og endurtekið ber á því að greinin meðhöndli starfsfólkið sitt ekki af nægilegri virðingu og ábyrgð. Almenn laun í ferðaþjónustunni eru lág, alltof fáir eru með langtímaráðningarsamband og einhver fjöldi er ráðinn frá starfsmannaleigum og því tímabundið á landinu - án launasambandsins og án þess að greiða skatta eða njóta hér ítrustu réttinda.

Frekustu hagsmunaaðilarnir og háværir talsmenn greinarinnar sýna ótrúlega mikið ábyrgðarleysi og tilætlunarsemi - heimta ma. áframhaldandi ívilnanir með lægri virðisaukaskatti, bílaleigur kassera styrkjum á sama tíma og þeir greiða ríflegan arð og neita öllum hugmyndum um afnotagjald til almennings í formi áningargjalda við náttúruperlur eða marktækra gistigjalda sem renni í sjóði sveitarfélaga. Búið er fyrir löngu að kasta veltutengdu aðstöðugjaldi sem skilaði sér í sveitarsjóði þannig að fyrirtæki í fjarlægri eða erlendri eigu skila ennþá minna til nærsamfélaga þess rekstrar sem gerir út á landslag og fegurð svæða.

OECD og IMF hafa ítrekað varað við því að stjórnvöld haldi áfram styrkjum og ívilninum til ferðaþjónustufyrirtækjanna með þessu ofsalega hraða vexti - og í framhaldi af býsna rausnarlegum styrkjum til nokkurra fyrirtækja í gegn um Covid- þar sem engin skilyrði virðast hafa verið sett um hófsemi eða bann við arðgreiðslum.

Ruðningsáhrif ferðaþjónstunnar í efnahagslífinu eru orðin býsna kostnaðarsöm fyrir aðrar greinar og þann almenning sem ekki nýtur beins ávinnings af vextinum - og einkum þó vegna þess rosalega íbúðaskorts sem stjórnvöld og fákeppnisveldi bankanna hafa í sameiningu handstýrt - og leiðir sennilega til þess að íbúðaverð verður í lengri tíma langt upp fyrir það sem láglaunafólkið getur ráðið við. Ungt fjölskyldufólk lendir í heilu helvíti á leigumarkaði eða við margfalda yfirverðlagningu séreigna - ef menn búa ekki svo vel að eiga ríka fjölskyldu sem leggur byrjendum til nægan höfuðstól til að komast inn á eignamarkað með viðunandi kjörum.

Frekja talsmanna ferðaþjónustunnar, skilningsleysi ráðamanna og yfirgangur fjármálaaflanna sem nýta sér ruðningsþenslu með innflutningi vinnuaflsins - hefur leitt til þess að fleiri og fleiri láta í ljósi ákveðið óþol gagnavert ferðaþjónustunni og fjölda túrista - og hið ömurlega og taktlausa „kurteisisátak“ ferðamálaráðherrans varð aðhlátursefni á liðnu sumri.

Örtröð og almannaréttur – eða stýring og gjaldtaka

Tvennt er sérlega umræðuvert í samhengi við ferðaþjónustuna; annars vegar er það stýring eða skipulagning á fjölda sem heimsækir tiltekna staði eða svæði á tilteknum tíma og hins vegar hvernig greinin stendur skil á sköttum og afgjöldum af notkun á innviðum og náttúruperlum.

Að því fyrra - stýring eða allsherjar skortur á stýringu og skipulagi; Hugtakið um almannarétt til ferða er að mati undirritaðs misnotað af aðilum sem selja ferðir inn á viðkvæm svæði og hafa hertekið margar helstu náttúrperlur með því að hella hundruðum og þúsundum ferðamanna inn á sama tíma dags og áningarstaði. Á Akureyri hrósar hafnarstjórinn sér sérstaklega af því að hafa margfaldað fjölda heimsókna skemmtiferðaskipa og fullyrðir aftur og aftur að gríðarlegar tekjur fylgi. Þegar rýnt er í rekstrartölur Hafnarsamlagsins hins vegar lítur beinlínis útfyrir að fjárfestingar Akureyrarhafnar beinist nær eingöngu að því að taka á móti skemmtiferðaskipum og markaðssetja höfnina - tilsvarandi hækkun á rekstrarkostnaði hangi í því sama. Þegar skoðað er hvert þessir skipa-ferðamenn fara og hvar þeir staldra við kemur í ljós að móttökupakkinn er býsna einhæfur; mörgum er smalað upp í rútur og brunað í Þingeyjarsveit og Goðafoss er áningarstaður þeirra sem fara í Mývatnssveit og líka hinna sem fara styttri ferðina og heimsækja Minjasafnið í Laufási. Báðir hópar taka svo rúnt í bæinn. Ekkert opinbert skipulag frá hálfu Þingeyjarsveitar eða Grýtubakkahrepps liggur til grundvallar heimsóknum þessarra gesta - og ekkert samstarf er við íbúa í Innbænum um rútuakstur um þann bæjarhluta - og það þótt heimsóknin virðist gera út á íbúana og lífshætti þeirra í leiðinni.

Átök á bílastæði MA

Rútufyrirtæki selur ferðir með áningu á bílastæði við Heimavist Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri og selur um leið aðgang að Lystigarðinum á Akureyri án þess að greiða nein bein gjöld fyrir slíkar heimsóknir - og án þess að sýna þá lágmarkskurteisi að leggja að mörkum til þjónustu og rekstrar salerna í garðinum – þannig að þar verði unnt að gera eins vel og starfsfólk garðsins vissulega vildi sjá. Nemendum framhaldsskólanna var nýlega ofboðið og gripu til táknrænna aðgerða - en hlutu í staðinn hálfgildings útúrsnúning með því að rútuforstjórinn skammaði einn af bílstjórunum opinberlega fyrir asnaskap - en í engu baðst stjórinn forláts á þeim átroðningi sem fyrirtæki hans tekur peninga fyrir.

Við Goðafoss staldrar mestur fjöldinn við; þar er svæðið í umsjón Umhverfisstofnunar enda fossinn friðlýstur, þar er uppbygging og aðgengi á kostnað almennings en þjónusturekstur á vegbrúninni í einkarekstri. Ekki er greitt áningargjald við þessa náttúruperlu en rekstraraðilar fyrir sunnan (Icewear) svo sorglega metnaðarlausir að þeir misbjóða starfsfólki sínu og gestum ítrekað með skeytingarleysi og virðingarleysi og því að hafa varla opið til loka álagstíma dagsins. Snyrtingar eru í búðinni á Fosshóli og þótt þar sé talsvert vel í lagt þá er langt frá því að þær anni þeim 15-25 rútum sem stefnt er á sama tíma inn á svæðið. Ekkert skipulag og engin stýring á fjölda eða álagi - þannig að hver ryðst yfir annan á mestu álagstímunum.

Mývatn túr

Mývatn-tour er síðan annar kapítuli, oftast einhver áning á veitingastað með kaffiveitingum sem lýsa má sem frekar ódæmigerðum fyrir svæðið (sodakaka og samlokubrauð með skinku) nú eða hádegisverðurinn steikt bleikjuflak (ekki úr Mývatni) og foreldaðar kartöfflur og steikt grænmeti.
Gestastofan í Gíg er að þróast sem nýr og afar jákvæður áningarstaður sem léttir stórlega á leiðsögufólkinu; - en þar er jarðfræði og náttúra svæðisins útskýrð á myndrænan hátt.

Troðningur á bílastæðum og á Skútustaðagígum og í Dimmuborgum er orðinn býsna marga daga um hásumarið. Aðilar sem reka gistiþjónustu hafa til að mynda beinlínis ráðlagt sínum nætur gestum að ferðast útfyrir svæðið tiltekna „brjáluðu daga“ - þegar virkilega flóir yfir og erillinn spillir upplifun.

Og svo er farið í Námaskarð. Þar sem áður hét Hverarönd kraumar enn í leirhverum og gömul borhola blæs úr vörðu. Hverasvæðið breytir sér sífellt - og er alltaf varasamt og lengi vel frá áttunda áratugnum settu landverðir ríkisins/sveitarfélagsins upp leiðbeinandi kaðalgirðingar og byggðu minnháttar brýr á stígum. Seinna var byggður stærri útsýnispallur og bílastæðið lagað fyrir opinbert fjármagn. Nú hins vegar hafa frændur mínir meintir landeigendur í Reykjahlíð komist upp með að innheimta áningargjald - á bílastæði sem þeir vissulega hafa stækkað - en þar er ekki boðið upp á neitt annað en innheimtu á ríflegu gjaldi fyrir sólarhringinn. Óskammfeilnin er svo yfirgengileg að fullyrt er að metnaðarfulla þjónustu og öruggt aðgengi þurfi auðvitað að greiða fyrir - á sama tíma og ekki er einu sinni hirt um að bjóða upp á sorpílát eða kalt vatn til neyðarviðbragða við óhöppum - og ekki er einu sinni reistir við fallnir staurar eða hresst upp á laskaðar brýr - hvað þá að þarna sé salerni og þjónusta með móttöku, leiðsögn og öryggisgæslu á opnunartíma.

Salerni í Mývatnssveit eru aðgengileg á þeim veitingastöðum sem heimsóttir eru. Gestastofan í Gíg átti auðvitað aldrei að verða aðallega „klósettstopp“ - - og það verða útgerðaraðilarnir að virða. Salerni við Dimmuborgir eru ekki að anna álagi - og þjónustuð í lágmarki. Salerni fyrir almenning við verslun/bensínstöð í Reykjahlíð – er ekki neitt fyrir heila rútu en getur þjónustað lausatraffík.

Hvað er svo greitt fyrir heimsóknina?

Hvað skilur svo rútufyrirtækið sem ferðir selur frá Akureyri eða Húsavík eftir í Þingeyjarsveit. Ekki er líklegt að framlegð af kaffistoppi þessarra ferðamanna geri mikið meira en að standa undir beina kostnaðinum og hádegismaturinn er örugglega á lágmarksverði, - en bleikjueldið er kannski það sem gerir sig helst af hádegisverðinum (en það er utansveitar). Verst er auðvitað að alltof stór hluti af veitingastöðunum er gerður upp fyrir sunnan og sama með sjoppuna við Goðafoss. Fjöldi starfsfólks í ferðaþjónustunni er ráðið tímabundið og greiðir engin gjöld til sveitarfélagsins - og eflaust einhverjir sem eru leigðir frá starfsmannaleigum án þess að njóta kjara og réttinda.

Hvað er greitt fyrir álagið og áningu í Þingeyjarsveit? Jú, það virðist vera að SBA Norðurleið og Fjallasýn sem eru umsvifamestu rútufyrirtækin á NA-landi greiði kr 7000 fyrir hverja áningu við Námaskarð - - þar sem ekkert er nema „áning við alfaraleið“. Já, áning við alfaraleið, sem fram undir þetta hefur ekki þótt eðlileg né lögmæt gjaldtaka - eða síðan vegarán lögðust af að mestu. Ekkert greiða útgerðaraðilarnir fyrir áningu við Goðafoss - - þar sem aðgengi og umgjörð er kostuð af almannafé. Ekkert greiða þessir aðilar fyrir áningu í Gíg og leiðsögn Gestatofunnar í máli og myndum eða aðgengi að snyrtingum - enda kostað af almannafé. Ekkert er greitt fyrir áninguna í Dimmuborgum en gestir fá miða frá söluaðila til að greiða fyrir klósettferðina.

Fyrir liggur að SBA Norðurleið sem er langumsvifamest í þessum farþegaflutningi á svæðinu greiðir helst ekki kr 4.500 fyrir rútuna í gegn um Vaðlaheiðargönginn en þjösnast þess í stað yfir Víkurskarð með margföldu sótspori og óþarfa álagi – helst allar ferðir að því er virðist. Afar erfitt kann að reynast að rökstyðja slíkan akstur með rekstrarlegum rökum - og ómögulegt þegar horft er til umhverfissjónarmiða, umferðaráhættu og álags á innviðina.

Tími skemmtiferðaskipanna ætti eiginlega ekki að vera núna

Skemmtiferðaskipin sem ferðamáti er virkilega umdeilanlegur - einkum mtt. mengunar og hliðaráhrifa. Um það má ræða langt mál, en hérlendis þarf einnig að huga sérstaklega að mengunavörnum og áhættu- og björgunarmálum. Hér það Akureyrar og Húsavíkurhafnir sem ráða ferðinni - - og ákveða verðskrá og skipuleggja móttöku skipanna; - ekki er byggt á markmiðssetningu ferðaþjónustu og áningarstaða í Þingeyjarsveit við skipulagninu eða tímasetningu á heimsóknum. Ekki liggur fyrir opinbert áhættumat eða sérstök uppbygging á björgunarsveitum og landhelgisgæslu til að bregðast við slysum á skipum með þúsundir farþega og áhöfn.

Ekki er haft samráð við íbúa í Innbænum á Akureyri og ekki er auðvelt að halda því fram að viðunandi greiðsla eða samráð um áningu á Bílastæði við MA-VMA eða troðningur í Lystigarðinn sé innan hófsemdar marka.

Við sem erum hagsmunaaðilar; rekstrarðilar á Akureyri og í Þingeyjarsveit og Húsavík og borgarar á Akureyri og landeigendur og íbúar í Þingeyjarsveit og Húsavík við verðum að leita einhvers betra jafnvægis.

Kannski er slíkt jafnvægi mögulegt unnt að finna með því að rekstraraðilar og borgarar mætist og leggi línur á grundvelli heiðarlegs samtals - - og Hafnarstjórinn á Akureyri átti sig á að það eru til önnur og mikilvæg sjónarmið sem ekki felast öll í auknum fjölda og umsetningu hafnarsjóðsins.

Mér er þó nær að halda að samtal heimafólksins á svæðisgrunni dugi ekki til - eða sé nær ómögulegt – vegna valdamismunar að óbreyttum lögum og reglum.

Það þarf skýra lagasetningu til að formfesta heimildir til gjaldtöku – og umferðartakmarkana á viðkvæmum og vinsælum ánningarstöðum. Það verður að greina á milli; annars vegar þarf að verða til sanngjarn farvegur til að innheimta áningargjald á ferðamannstöðum – eða gjald sem skilar sér annars vegar til rekstrar-aðila/þjónustuaðila svæðis og hins vegar til sveitarfélaga sem um ræðir - kannski í hlutföllum 50:50. Hins vegar þarf að forma umgjörð sem gerir rekstraraðilum sem gera út á sölu ferða til að bóka fyrirfram og staðfesta greiðsluskyldu sína - - og með því verður til forsenda til að stýra álagi og já; sorrý ákveða þolmörk fyrir svæðið per klukkustund þannig að upplifun sé ekki spillt - já; og þar með að svæði verða uppseld á tilteknum tímum og á tilteknum dögum. Aldrei ætti samt að heimila útgerðum að upptaka alla aðgöngumiða fyrir Goðafoss eða Dimmuborgir fyrir þessa fyrirferðarmiklu heimsóknir.

Þurfum að gera betur

Já; okkur er virkilega vandi á höndum - en svona getur þetta ekki gengið áfram. Það er ekki eftirsóknarvert að taka við öllum þeim fjölda skemmtiferðarskipa sem heimsótti Akureyri og Þingeyjarsveit á þessu sumri 2023 - í óbreyttri umgjörð. Það þarf að setja skýra og harðari skilmála um mengun, brennslu og meðferð á skolpi sem unnt er að hafa eftirlit með.

Það þar að skipuleggja álagið og dreifa því miklu betur - - og það þarf að sýna meiri fagmennsku og heilbrigða skynsemi þegar kemur að því að ákveða ferðatíma og dreifingu álags á áningarstaði.

Það þarf að tryggja miklu meira samstarf um skipulagningu og uppbyggingu áningarstaða og bæta við þjónustu - ekki bara í snyrtingum á áningarstöðum - heldur líka í móttöku, leiðbeiningu og öryggigæslu og það þarf að fjárfesta í staðbundinni menningarmiðlun bæði í mat og hefðum - - til viðbótar við náttúrufarið.

Umfram allt annað þarf að tryggja að það verði til sanngjarnir farvegir til gjaldtöku - bæði fyrir þjónustu og aðgengi - - en ekki síður að gistináttaskattur og áningargjöld á ferðamannastöðum skili tekjum til sveitarfélaga - - kannski eins og áður er sagt í hlutföllum þjónustuaðili og sveitarfélaga 50:50

Á sama tíma þarf að taka af öll tvímæli um að meintum landeigendum verði varanlega og alltaf óheimilt að taka gjald af áningu ferðamanna við alfaraleiðir - jafnvel þótt prjónað sé við þau bílastæði og vegarspotta sem lagðir hafa verið fyrir almannafé.

Öll gjaldtaka einkaaðila af ferðamönnum verður að einskorðast við að viðkomandi hafi þá þegar fjárfest á eigin kostnað og eigin áhættu og reiði fram þjónustu og öryggisvörslu sem stendur raunverulega undir nafni. Allir styrkir og fjármögnun úr almannasjóðum sem notaðir eru í uppbyggingu á ferðamannstöðum ætti að skilyrða við það að almenningi sé í staðinn opið aðgengi - - þótt ekki sé ásættanlegt að óskyldir útgerðar-aðilar selji ferðir inn á slík svæði í einkaeign án þess að skila afgjaldi.

Kannski ráðum við alveg við 3 milljónir ferðamanna á ári

Það má vel vera að Ísland ráði við núverandi eða jafnvel umtalsvert fleiri ferðamenn - en til þess að slíkt megi verða þarf mjög vel grundaða stefnumótun og skipulagningu - það þarf mjög verulega fjárfestingu í innviðum, móttöku og leiðbeiningu og land- og öryggisvörslu - en umfram allt þarf sanngjarna gjaldtöku sem skilar sér til fólksins í landinu og greiðir fyrir þau verðmæti sem menn sækjast eftir aðgengi að.

Um leið reiknum við með því að sjá stjórnvöld á Alþingi og í sveitarstjórnum eflast að metnaði og forystumenn ferðaþjónustunnar sem atvinngreinar munu þá vonandi koma fram af meiri ábyrgð og með þeirri hógværð sem greininni sem burðargrein í efnahagslífinu getur sæmt. Þá munum við glöð geta tekið á móti „gestum“ um land allt - með þeirri reisn og af því örlæti sem við getum rakið allt aftur til árdaga í Mývatnssveit þegar gestum var virkilega fagnað.

Til þess þarf ferðaþjónustan að sýna miklu meiri samráðsvilja og sýna hógværð og metnað í samskiptum við íbúa landsvæða - um leið og umgjörðin verður styrkt og sanngjörn gjaldtaka til almannasjóða innleidd. Jafnhliða þarf að sýna aukinn metnað inn á við og efla fagmennsku og menntun og tryggja að vinnuaðstæður og launakjör í greininni verði boðleg fyrir alla þá sem verkin vinna.

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri með hagsmuni í Þingeyjarsveit og á Íslandi öllu

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00