Fara í efni
Umræðan

Essin stóru í uppstigningardagsviku

 • Þessi síðasta vika var sannarlega gjafmild fyrir mig og svo fjölmarga aðra hér í bæ.
 • Sólskins-teiknin í vorsólinni, sögðu mér að sumarið væri komið.
 • Kaffi úti á vesturpalli með vaxandi kaffilit í andliti og öðrum stöðum sem geislarnir lenda á staðfestir það.
 • Þessi vika var mér einkar gjöful í tónum.
 • Sunnudaginn 14. maí mætti ég tón- og ljóðskáldinu, og sellóleikaranum, Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur á tónleikum hennar og fimm annara úrvals tónlistarmanna í Hömrum, besta stofutónlistarsalarins í Hofi.
 • Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fól Steinunni það hlutverk að velja efnisskrá sem endurspeglaði hennar prófíl sem skálds í orði og tónum og ekki síst fallegan og hrífandi strengjaleik. Þessi skilyrði voru svo sannarlega uppfyllt. Þarna flutti góðtenórinn Eyjólfur Eyjólfsson gullfalleg og áhugaverð þrjú lög eftir Steinunni og strengjakvartettinn Flowen eftir Véronique Vöku á Stokkseyri.
 • Eftir hlé var hinn undurfagri kvintett efir Franz Schubert fluttur, þar sem dýptin og fegurðin magnast með því að bæta sellói við strengjakvartett. Þessir tónleikar voru frábærir og innileg hrifning áheyrenda var svo tjáð með einlægu og löngu klappi.
 • Þessi tími er mikill uppskerutími fjölmargra tónlistaraðila sem halda sína vortónleika.
 • Það gildir um kóra, tónlistarskóla o. fl.. Mér þætti eðlilegt að allir slíkir viðburðir fengju fjölmiðlaumfjöllun eða að þeirra yrði a.m.k. getið. Því er svo farið að ég fæ engu þar um ráðið.
 • Hinsvegar er pistill minn núna eingöngu bundin við heitin með upphafsstafnum S. Þar með er talin sólin, Steinunn, SN og svo SOS sinfónían, sem ég kem að hér á eftir.
 • Nú er tæplega ár síðan ég fékk að fagna með fjölda áheyrenda frumflutningi sinfóníu minnar með heitinu SOS sinfónían í frumflutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, þess mikilhæfa og góða hljómsveitarstjóra.
 • Þetta verk á ég því fyrst og fremst að þakka að hér á Akureyri býr Arngrímur Jóhannsson, hinn annálaði flugkappi og loftskeytamaður. Færni hans að leika á morsetæki og senda út með hraðskrift heilu pistlana heillaði mig og hvatti, að semja stórt hljómsveitarverk þar sem þessi ævintýrlega snjalli „morsari“ yrði einleikari. Ég byrjaði pistil minn á að þakka gjafir sólarinnar. En verkið mitt byrjar á því gagnstæða, myrkri og neyð. En með morsköllum Arngríms þá flyst verkið smátt og smátt inn á svið ljóssins og endar á tilvitnun í íslenska þjóðlagið sem vísar til langa ljóssins sem logar á fífustöngum og berst eftir löngum bæjargöngunum. Að verkið skuli hafa verið flutt á ég þó fyrst og fremst að þakka forráðamönnum SN og engan skugga bar á það afrek. Núna á uppstigningadag bar svo meira við, þar sem upptöku SOS sinfóníunnar í dagskrárumsjá Melkorku Ólafsdóttur var útvarpað á RÚV. Ég væri ekki að segja satt, nema að viðurkenna að mér, flytjendum, stjórnanda og tónlistarstarfsemi hér á Akureyri var mikill heiður sýndur með þessari útsendingu, sem mun vera frumflutningur í útvarpi á fyrstu sinfóníu saminnar á Akureyri.
 • Svo vel vildi að við vinur minn hinn snjalli Arngrímur Jóhannsson fengum okkur sæti hér heima í stofu að loknu vöfflukaffi og sátum saman eins og „fans“ á fótboltaleik sem þyrftu að hvetja áfram sína menn. Arngrímur hafði mestar áhyggjur af að setningarnar sem hann morsaði sæust ekki á skjá, eins og á tónleikunum. Ég sagði á móti að morstáknin væru músík, sem maður ætti að upplifa. jafnvel þótt ekki skildust setningarnar.
 • Arngrímur tiplaði með fingrunum í lófa sinn til að sannfæra sig um að orðin í morsinu væru rétt. Svo reyndist vera. Sólin skein inn um vesturglugga í stofunni og tók undir bjartar þakkir fyrir að hafa mátt upplifa þessa stund.

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld á Akureyri

Fráleitar hugmyndir við Austursíðu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
29. september 2023 | kl. 09:00

Rætur Verkmenntaskólans á Akureyri

Bernharð Haraldsson skrifar
24. september 2023 | kl. 22:00

Vanþekking

Eymundur Eymundsson skrifar
22. september 2023 | kl. 09:30

Stofnun kjarahóps eldri borgara á Akureyri

Björn Snæbjörnsson skrifar
21. september 2023 | kl. 13:00

Sveltur til sameiningar?

Hálfdán Örnólfsson skrifar
21. september 2023 | kl. 12:45

Skóli og Samfélag – Stormasamir dagar í danska bænum

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
19. september 2023 | kl. 15:55