Fara í efni
Umræðan

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson flutti erindi í messu í Akureyrarkirkju á uppstigningardag; degi eldri borgara. Hann gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta erindið.
_ _ _

Eflaust er hægt að velta fyrir sér stöðu kristni og trúar í nútíma samfélagi á margan hátt. Það má til að mynda gera það undir formerkjum frægrar setningar Akureyrings úr íþróttasögunni þar sem fjallað var um eitt stærsta atvik í handboltasögu íslenska landsliðsins; þar sem Adolf Ingi Erlingsson var að lýsa afdrifaríkum varnarleik Alexanders Petersson. Hvaðan kom hann, hvert er hann að fara, hvað er hann – að vísu með að breyta kyni á fornafninu. Það er jú hún kirkjan.

Það má líka spyrja hvað er trú og erum við trúuð: Ég hef oft spurt sjálfan mig þessarar spurningar en hef ekkert einhlýtt svar. Ég átt mig að vísu á að til þess að festa einhverjar rætur í tilverunni verðum við að trúa á eitthvað. Ég ólst upp við að móðir mín lét okkur bræðurna, fædda sinn á hvoru árinu og alda upp nánast sem tvíbura, fara með Faðirvorið og eitthvert fallegt vers á hverju kvöldi og er þess fullviss að það var okkur mikilvægt veganesti til frambúðar.

Ég ólst einnig upp við reglulega kirkjusókn og náði í skottið á þeim tíma þegar kirkjusókn var enn nokkuð almenn og var enn mikilvægur hluti af félagslífinu sem hafði verið í nokkuð föstum skorðum svo öldum skipti. Hér má nefna að við í gamla Laugalandsprestakalli höfum búið við mikla festu hvað varðar setu presta: Þeir hafa gjarnan setið í svona 20 til 40 ár og átt það sammerkt að vera mildir og umburðalindir í trúmálum og þar hefur engin breyting orðið á með þeim ágætu konum sem þjóna okkur núna í nýju prestakalli.

Ég ætla að slá botninn í þennan inngang með nokkrum orðum um trúarþörfina sem vissulega er til staðar. Við erum flókið apparat – mannfólkið – og þurfum öflugt akkeri til þess að rekast ekki undan vindinum eins og hann blæs sterkastur á hverjum tíma: Við verðum að trúa á eitthvað stærra en við sjálf til að standast áreitið og halda okkar striki: Þar hefur kirkjan gengt stóru hlutverki og á alla möguleika á að gera það áfram; þörfin er vissulega til staðar og hefur ef til vill aldrei verið meiri.

Trúin getur vissulega tekið á sig ýmsar myndir og stundum finnst mér að hér á Akureyri og nágrenni sé nokkuð stór hópur karlmanna á öllum aldri sem hefur tekið Liverpooltrú; og hver veit nema það hafi á stundum fleytt þeim í gegnum erfiða tíma. Ég veit hins vegar ekki hvað það var í kvöldbænastundum móður okkar á sínum tíma varð þess valdandi að annar okkar bræðra snéri sér að Liverpool en hinn að Manchester United.

En hver er kirkjan samanber tilvitnunina í íþróttasöguna hér að framan. Kirkjan er stofnun og hún er íhaldssöm stofnun. Hún verður að vera það upp að vissu marki en við megum ekki rugla saman eðlilegri íhaldssemi og stöðnun. Í hraða nútíma samfélags hverfur sá sem staðnar ógnarfljótt í þoku liðins tíma. Þversögnin er hins vegar sú að ef til vill höfum við aldrei fyrr haft meiri þörf fyrir eðlilega íhaldssemi en einmitt í dag þar sem yfir vofir stöðug sú hætta, bæði einstaklingum og samfélögum, að tapa áttum í krafti hraðari tækniþróunar en nokkru sinni fyrr í sögunni. Peter Drucker, einn mest hugsuður síðustu aldar, orðaði þetta á eftirfarandi hátt. Á fyrri öldum tóku byltingarnar í tækni og atvinnuháttum margar kynslóðir; nú lifir hver kynslóð margar byltingar. Þetta einstigi milli íhaldssemi aldagamallar stofnunar og þörfinni fyrir að fylgja straumi breytinga verður kirkjan að feta: Mér finnst á stundum að hún sé svolítið ráðvillt á þeirri vegferð.

Hér erum við komin að því hvert kirkjan sé að fara eins og spurt var um Alexander á sínum tíma. Samanber það sem ég sagði hér á undan tel ég að hún sé ekki búin að gera það upp við sig. Hún þarf að fjarlægjast það liðna um leið og hún byggir nýjar hefðir til að mæta hraða nútímans. Væntanlega horfðu margir hér á krýningu Karls konungs nú fyrir skemmstu. Þær sérímóníur bresku biskupakirkjunnar sem báru þá athöfn uppi eru ef til vill skírasta dæmið sem hægt er að taka um hefðir sem eiga afar litla tengingu við nútíma líf; ef þá nokkra. Ég skal fúslega viðurkenna að ég horfði á athöfnina að stórum hluta enda um að ræða frábæra tónleika og alveg hægt að njóta athafnarinnar sem slíkrar.

Hvert getur þá verið leiðarstef kirkjunnar til framtíðar? Hvert er hún að fara eða frekar hvert á hún að fara? Þarf hún ekki að svara kalli tímans og hvert er það kall? Við sjáum allt í kringum okkur leit að festu og friði í sálum manna. Við sjáum hvernig því er mætt með hvers kyns kyrrðarstundum og hugleiðslu. Það er hægt að sækja jógastundir á fjölmörgum stöðum á Akureyri og nágrenni. Þar er kyrrð og sefun hugans í öndvegi og oft með róandi og taktfastri tónlist. Ég er ekki að gera lítið úr eða fordæma þessa starfsemi; hún mætir þörf sem vissulega er til staðar og er í sjálfu sér alveg í takt við að sækja messu á góðum sunnudegi: Sitja í kyrrð og ró í tæpan klukkutíma og hugleiða undir fallegri tónlist og hugleiðingum prestsins. Gallinn er bara sá að það mætir enginn í messurnar. Við þessu þarf kirkjan að bregðast. Þörfin er til staðar; það þarf bara að sníða stakkinn betur að vaxandi þörf fyrir griðarstundir í hraða nútímans. Helgistund eins og þessi hér í dag sem brýtur upp hefðirnar er vissulega spor í þessa átt og mætingin sýnir að þetta er rétt skref.

Hér er þó vert að nefna að vissulega er kirkjan í dag enn skjól frá amstri dagsins í stórum stundum í lífi okkar. Skírnir, fermingar, giftingar og útfarir eru athafnir þar sem mikil meirihluti fólks kýs að nýta sér þjónustu kirkjunnar og er til vill skírasta dæmið um jákvæð tengsl almennings og kirkju. Þá má ekki vanmeta það mikla starf sem kirkjan sinnir í sálusorgun og almennu félagsstarfi innan sinna vébanda en það vantar meiri tengingu við búksorgir og andlegt streð hins daglega lífs.

Ég nefndi tónlistina. Hún hefur fylgt kirkjunni gegnum aldirnar. Ég hef hvergi komist nær guði mínum en í gegnum fallega tónlist. Falleg tónlist snertir strengi sálarinnar á einhvern óútskýrðan hátt: Strengi sem kirkjuna vantar sárlega að ná til. Þátttaka í kristilegum söng, kirkjukórunum, var nánast þegnskylda til sveita og bæja fyrir ekki svo löngu. Kór eldri borgara syngur hér í dag og vil ég fyrir hönd okkar kirkjugesta þakka fyrir frábæran söng. Það styttist í að minn kór, Kirkjukór Grundarsóknar geti gengið beint inn í þann kór: Það vantar sárlega endurnýjun í hinn almenna söng við kirkjulegar athafnir.

Við erum að fá í hendurnar nýja sálmabók sem búið er að leggja í mikinn metnað og vinnu. Endurspeglar hún að Bragi Valdimar og Bubbi Morthens eru smám saman að taka við af Hallgrími Péturssyni sem höfuðskáldin við útfarir hér á landi sem, vel að merkja, að mínu mati er merki um að kirkjan er að vissu marki að koma til móts við nýja tíma og tengjast grasrótinni betur. Ég fann einn sálm eftir Bubba en ekkert eftir Braga í bókinni.

En þakka skal það sem vel er gert. Við erum hér í Akureyrarkirkju sem frá upphafi hefur haft tónlistina í öndvegi og notið krafta frábærs tónlistarfólks og það ber að meta. Kirkjan var auk þess áratugum saman eina boðlega hljómleikahúsið við Eyjafjörð. Ef við lokum þessari umræðu um kirkju trú og tónlist með því að víkja aftur að krýningu Karls þá hefði sú athöfn verið hreinn skrípaleikur ef ekki hefði verið fyrir guðdómlega tónlist sem þar var framin.

Nú er bara fyrsta tilvitnunin í Adolf Inga eftir en ég hef tekið þær hér í öfugri röð. Hvaðan kom kristin kirkja eins og hún er í dag? Hún á sér rætur í boðskap Krists sem ef grannt er skoðað var svar við kalli tímans í samfélagi sem einkenndist af óbilgirni og grimmd: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Kenningar Krists hafa mótað samfélög og lagt grunninn að því siðferði og félagslegu umgjörð sem við búum við í dag. Það hefur ekki allt gengið upp og margt er ógert en þetta er nú samt grunnurinn sem við byggjum á. Við getum til að mynda velt því fyrir okkur hvort stofnanavæðing kirkjunnar í gegnum aldirnar sé alveg í anda Jesú Krists? Horfum aftur í þessu samhengi til krýningarinnar sem nefnd var hér að framan. Var hún í anda frelsarans?

En hugsjónir lifa: Fjallaði ekki meginstefið á fundi þjóðarleiðtoga Evrópulanda sem nú er nýlega lokið hér á landi þrátt fyrir allt um að halda á lofti gildum mannréttinda og trú á hið góða í manninum sem svar við illsku og hatri; ættuðu úr myrkustu innviðum fornaldar: Þeim sömu og Kristur brást við á sínum tíma.

Nú er ég að verða allt of hátíðlegur. Það er því ekki úr vegi að enda þetta á aðeins léttari nótum en þó í samhengi við daginn: Dag heldri borgara. Manni verður þá ósjálfrátt hugsað til þeirra sem eru gengnir og þá ekki síst foreldra sinna. Ég hef áður nefnt móðir mína sem fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði var Guðný Magnúsdóttir, fædd í Litla Dal en alin upp á Ytra Laugalandi og síðar húsmóðir á Öngulsstöðum.

Hún notaði oft málshætti og tilvitnanir í vísur og ljóð við uppeldi barna sinna. Ég man til að mynda eftir að oft greip hún til málsháttarins; Margar hendur vinna létt verk. Mér var alveg ómögulegt að skilja til hvers það þurfti margar hendur til að vinna eitthvað smávegis viðvik sem ætti að vera hægt að hrista fram úr erminni með annarri hendinni. Ég hef komist að því að ég var ekki einn um að hafa ekki meiri málskilning en þetta í bernsku sinni.

Þá vitnaði hún oft í vísu eftir Stephan G. Stephansson sem hefst svona: Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur prestur, og var ætlunin að innprenta okkur að vera sem mest sjálfum okkur næg. Ekki man ég hvort hún fór ekki með vísuna alla eða athygli mín var bara á fyrri tveim línunum en þær ollu mér miklum heilabrotum. Hvernig stóð á því að á þessum tíma; þar sem háskólamenntun var fágætur munaður, hafi einhver lagt á sig að læra bæði til lögfræðings og prests? Það eitt út af fyrir sig var nógu skrítið en hvers vegna í ósköpunum var viðkomandi að fá tíma hjá lækninum sínum til þess að tjá honum þessi vandræði sín en ég skildi þetta svona: Löngum var ég, læknir minn, lögfræðingur og prestur. Viðkomandi var að ávarpa lækninn sinn. En hvað veit ég; þetta var löngu fyrir tíma áfallhjálpar og annarri þjónustu sem er til staðar í dag fyrir fólk sem lendir í svona vandræðum.

Nú kemur að tengingu við kirkjuna: Faðir minn, Sigurgeir Halldórsson bóndi á Öngulsstöðum ásamt móður minni voru máttarstólpar í starfi Munkárþverárkirkju. Einhvern tímann á efri árum þeirra voru þau að sinna kirkjugarðinum þegar pabbi fékk hjartaóreglu sem hrjáði hann nokkuð á þeim tíma og fór niður á sjúkrahús til að fá bót meina sinna. Hjúkrunarkona og læknir sem tóku á móti honum spurðu meðal annars hvað hann hafi verið að gera þegar þetta bar að. Hann sagði eins og satt var að hann hafi verið við slátt í kirkjugarðinum. Segir nú ekki meira af þessu nema að hann fékk þar bót meina sinna að talið var. Það fór þó svo að nokkrum dögum seinna fékk hann aftur sömu einkennin. Aftur var farið niður á sjúkrahús og fyrir einhverja tilviljun var sama fólkið á vakt. Hann ber upp erindið við hjúkrunarkonuna og hún kallar um hæl til læknisins sem var bakatil: ,,Hann er kominn aftur; maðurinn úr kirkjugarðinum.“

Þau hvíla nú bæðu, blessuð sé minning þeirra, í kirkjugarðinum í Munkaþverá meðan yngri kynslóðir sjá um umhirðu hans og um leið umgjörð þeirra sem gengnir eru á vit feðra sinna.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson er bóndi á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit og fyrrverandi alþingismaður

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00