Fara í efni
Umræðan

Eining-Iðja fær hæstu einkunn í nýrri Gallup-könnun

Tilgangur Einingar-Iðju er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félaga sinna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.

Til þess að ná þessum markmiðum er mikilvægt að starfsemin sé öflug, svo og allir innviðir félagsins. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að félagsmenn taki virkan þátt í starfseminni.

Ný Gallup-könnun leiðir í ljós mikla ánægju félagsmanna með starfsemi og þjónustu félagsins.

Gott dæmi um samstöðuna er undirbúningur að gerð lífskjarasamninganna. Undirbúningurinn var hnitmiðaðri en áður, félagið virkjaði grasrótina betur og vinnubrögðin voru agaðri og markvissari á flestum sviðum.

Mikil ánægja félagsmanna staðfest

Eining-Iðja lætur Gallup gera viðamikla könnun á hverju ári meðal félagsmanna sinna, markmiðið er meðal annars að kanna kjör og viðhorf þeirra til ýmissa þátta.

Slík könnun var gerð í haust, upplýsingar sem slíkar kannanir gefa skipta miklu máli og getur félagið stuðst við niðurstöðurnar á mörgum sviðum.

Óhætt er að segja að mikil ánægja sé með þjónustu Einingar-Iðju og félagið sjálft, samkvæmt þessari nýju könnun.

Rúmlega 98% svarenda sögðust vera sáttir eða hvorki né, er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju. Hlutfallið var hið sama þegar spurt var um þjónustu félagsins þegar á heildina væri litið. Þetta eru svipaðar niðurstöður og á síðustu árum.

Það er afar ánægjulegt að félagsmenn gefi starfseminni og þjónustunni hæstu einkunn. Með slíkan vitnisburð er samstaðan staðfest og að innviðir félagsins séu traustir.

Erfiðir tímar

Niðurstaða þessarar könnunar er enn jákvæðari þegar tekið er tillit til þeirra aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu, og að opnunartími á skrifstofum okkar hefur verið takmarkaður þrjá mánuði á árinu. Það hefur verið áhyggjuefni hvernig best væri að veita þjónustu. Það er með ólíkindum hvað félagsmenn hafa aðlagað sig að breyttum aðstæðum.

Vonandi eru betri tímar í vændum með vorinu þegar búið verður að bólusetja sem flesta og þannig hemja veiruna. Mikill vandi steðjar að mörgum félagsmönnum svo sem atvinnuleysi eða minni vinna og þar með lægri tekjur. Við verðum að trúa því að nú á vordögum hefjist viðsnúningur og þá verði aukin vinna og störfum fjölgi.

Það er komin þreyta í okkur öll, en við verðum að halda þetta út!

Gleðileg jól

Fyrir hönd Einingar-Iðju sendi ég félagsmönnum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári, með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Björn Snæbjörnsson er formaður verkalýðsfélagsins Einingar Iðju.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45