Fara í efni
Umræðan

Bréf til þingmanna í Norðausturkjördæmi

Formaður Hverfisráðs Hríseyjar, verkefnastýra Áfram Hrísey og fulltrúi Ferðamálafélags Hríseyjar sendu þingmönnum Norðausturkjördæmis eftirfarandi bréf á dögunum:

Nýlega auglýsti Vegagerðin útboð í rekstur Hríseyjarferjunnar sem rennur út 29. nóvember n.k.. Viljum við koma eftirfarandi á framfæri.

,,Ferjusiglingar til og frá Hrísey er grundvallarforsenda byggðar og framþróunar í Hrísey. Þar sem ferjan er þjóðvegur á sjó og í raun eina virka aðkomuleiðin til eyjarinnar er mikil áhersla lögð mjög hátt þjónustustig ferjunnar. Ferjan Sævar siglir á milli Hríseyjar og Árskógsstrandar og á 2 klst. fresti alla daga ársins. Fyrsta ferð frá Hrísey er kl. 7 á morgnana og síðasta ferð kl. 21 á veturna en kl. 23 á sumrin.“

Þannig er mikilvægi ferjusiglinga til og frá Hrísey lýst í deiliskipulagi fyrir hafnar- og miðsvæði Hríseyjar, sem unnið var af Akureyrarbæ og samþykkt af Skipulagsstofnun 2017. Í útboði fyrir rekstur Hríseyjarferjunnar 2023-2025 er boðuð fækkun á heildarfjölda ferða yfir árið auk þess sem Vegagerðin ,,áskilur sér rétt til að fjölga/fækka ferðum um +/- 20% á samningstíma“ sem og að stjórnvöldum er heimilt að ,,fækka eða fjölga ferðum eða segja upp einstaka leið með 6 mánaða fyrirvara“. Ferjuáætlun er ekki skilgreind í útboðsgögnum heldur skal hún unnin af rekstraraðila og samþykkt af Vegagerðinni. Þá kemur ekki fram í útboðsgögnum að ferjan er sjúkrabíll okkar Hríseyinga og því þarf áhöfnin að vera á bakvakt vegna sjúkraflutninga allan sólarhringinn.

Almenn sátt ríkir um núverandi ferjuáætlun og getur breyting á áætlun eða fækkun ferða haft veruleg áhrif á skilyrði til búsetu í Hrísey. Niðurfelling á ákveðnum ferðum getur haft þau áhrif að ómögulegt yrði fyrir íbúa að sækja atvinnu í landi ásamt takmörkun á möguleikum íbúa að stunda félagsstarf, íþróttastarf, sækja menningar- viðburði svo eitthvað sé nefnt. Teljum við fráleitt að það sé á valdi rekstraraðila að ákveða ferjuáætlun, hún ætti að vera föst í útboðsgögnum og breytingar á henni gerðar í samráði við íbúa og notendur þjónustunnar.

Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í Hrísey undanfarin ár eftir ýmis áföll sem samfélagið hefur orðið fyrir. Á árunum 2015-2019 var Hrísey í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir þar sem fyrsta megin starfsmarkmið var ,,Aðlaðandi og aðgengilegt eyjarsamfélag“. Í Framtíðarsýn 2018 kemur fram að ,,siglingar skapa sérstöðu eyjarsamfélagsins en tekist hefur að miða þær að þörfum notenda þannig að eyjan er hluti af sameiginlegu atvinnusvæði Eyjafjarðar.“ Skerðingu á þjónustu ferjunnar myndi kasta þessari framtíðarsýn á glæ.

Í kjölfar Brothættra byggða verkefnisins hafa Hríseyingar sótt um og fengið styrkveitingar frá ríkinu til að vinna að áframhaldandi uppbyggingu í eyjunni og einnig fengið stuðning frá Akureyrarbæ. Má þar nefna styrk frá Fjarskiptasjóði vegna lagningu stofnstrengs ljósleiðara, nýlegan styrk fyrir Áfram Hrísey verkefnið frá Innviðaráðuneytinu og styrki frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna verslunar í strjálbýli til Hríseyjarbúðarinnar. Ferðir ferjunnar eru grunnstoð samfélagsins og yrði minnkuð þjónusta ferjunnar aðeins til þess að ógna þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað, auka líkur á fólksfækkun og gera alla uppbyggingu erfiðari, hvort heldur sem hún snýr að íbúaþróun eða ferðamennsku.

Hverfisráð Hríseyjar bókaði um málið á fundi 1. nóvember s.l. og tók bæjarráð Akureyrar undir áhyggjur Hríseyinga af útboðinu á fundi 3. nóvember og fór fram á að ,,ferjuáætlun muni standa óbreytt með möguleika á upphringiferðum líkt og verið hefur og að réttur Vegagerðarinnar til að fækka ferðum um allt að 20% á samningstíma verði tekinn úr útboðinu.“ Var bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir. Fundur bæjarstjóra með Vegagerðinni virðist hafa litlu skilað og leitum við því til þingmanna kjördæmisins til að beita sér fyrir því að fallið verði frá fyrirhuguðum niðurskurði á þjónustu Hríseyjarferjunnar sem við teljum vera þvert gegn fyrri velvilja ríkisins varðandi uppbyggingu í Hrísey.

Ingólfur Sigfússon er formaður Hverfisráðs Hríseyjar, Ásrún Ýr Gestsdóttir er verkefnastýra Áfram Hrísey og Ingimar Ragnarsson skrifar fyrir hönd Ferðamálafélags Hríseyjar

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45