Fara í efni
Umræðan

Björgunarklasi á norðurslóðum

Björgunarklasi á norðurslóðum

Þessar vikurnar ræðir Alþingi stefnumörkun landsins í málefnum norðurslóða. Kveðið er á um að Íslandi muni sem friðsamt smáríki, miðja vegu milli norðurskautsríkja í austri og vestri taka virkan þátt og styðja við alþjóðlegu samvinnu um málefni norðurslóða sem fest hefur sig farsællega í sessi.

Þingsályktunardrög um norðurslóðastefnu sem Alþingi nú ræðir byggjast á niðurstöðum þverpólitísks starfshóps, sem ég sat og skilaði nýverið tillögum meðal annars um eflingu Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi.

Lykilatriði stefnunnar er um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða á grundvelli gilda sem höfð hafa verið að leiðarljósi í íslenskri utanríkisstefnu um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Ísland mun áfram styðja Norðurskautsráðið og efla það sem mikilvægasta vettvang til samráðs og samstarfs um málefni svæðisins. Þar sitjum við sama borð og hin norðurskautsríkin sjö, auk fulltrúa frumbyggja, sem hafa tekið mjög virkan þátt í starfi ráðsins.

Alþjóðasamningur um leit og björgun á norðurslóðum

Í þremur tilvikum hafa aðildarríki gert með sér lögbundna samninga um sameiginleg hagsmunamál. Það er samningur um leit og björgun á norðurslóðum frá 2011, samningur um viðbrögð við olíumengun í norðurhöfum frá 2013 og samningur um vísindasamstarf á norðurslóðum frá 2017. Að auki hefur vinna ráðsins mótað regluverk alþjóðastofnanna til að mynda svonefndan pólkóða innan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, þar sem eru sérstakar reglur um öryggi og umhverfisvernd vegna skipasiglinga á hafsvæðum heimskautasvæða.

Sjálfbærni byggðalaga

Sjálfbærni er annað leiðarljós þeirrar norðurslóðastefnu sem Alþingi ræðir. Stefnunni er ætlað að taka mið af Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt þeim er hvatt til jákvæðra efnahags-, félags- og umhverfislegra tengsla milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

Þannig eru lífsgæði, byggðafesta, samfélagslegt jafnræði og framþróun atvinnulífs órjúfanlega tengd sjálfbærni. Að sama marki miðar sú byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir árin 2018-2024, að jafna beri tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, lífskjarajöfnun og stuðla beri að sjálfbærri þróun byggðalaga um allt land.

Leit og björgun á Norðurslóð

Mikilvægt atriði í Norðurslóðastefnunni er að byggja upp og styrkja viðbragðsgetu varðandi leit og björgun, auk viðbragða við mengunarslysum, með uppbyggingu innlends björgunarklasa og alþjóðlegs samstarfs. Björgunarklasann þarf að byggja í samráði við Landhelgisgæsluna og aðra viðbragðsaðila.

Á Akureyri, þar sem Norðurheimskautsbaugur liggur í gegnum nyrsta byggðakjarna, Grímsey, verður Norðurslóðamiðstöð Íslands. Þar hefur í hartnær aldafjórðung byggst upp sterkur þekkingarklasi um Norðurslóðamál sem samanstendur af skrifstofum á vegum Norðurskautsráðsins, stofnunum og fyrirtækjum. Þær búa yfir mikilli sérhæfingu í málefnum norðurslóða, í innlendu og alþjóðlegu samhengi.

Björgunarklasi og Norðurslóðamiðstöð Íslands

Staðsetja ætti þennan innlenda björgunarklasa á Akureyri. Styrkja þarf og byggja upp leitargetu og björgun á norðurslóð meðal annars í alþjóðlegu samstarfi, en ekki síst á þeirri innlendu þekkingu sem fyrir er. Það fer vel á að slíkt starf sé byggt upp samhliða sterkum norðurslóðaklasa sem fyrir er við Eyjafjörð. Björgunarklasann skyldi byggja samhliða þeirri miðstöð læknisfræðilegar þjónustu sjúkraflugs í landinu sem fyrir er við sjúkrahúsið á Akureyri. Það fellur einnig vel að þeim metnaði forystumanna sjúkrahússins að verða í fararbroddi við þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu. Það fer vel saman við þá menntun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem nú er rekin við sjúkrahúsið hjá Sjúkraflutningaskólanum.

Fyrir björgunarklasann mæla einnig mörg rök einnig fyrir fastri staðsetningu þyrlu á Akureyri. Auk þess að vera miðsvæðis í landinu, er augljós tenging við sjúkraflug sem staðsett er í bænum og læknar á Akureyri gætu mannað hluta þyrluáhafnar. Ólíkt borgaryfirvöldum, sem hafa staðið gegn framþróun Reykjavíkurflugvallar, yrði leyfi til byggingar flugskýlis auðsótt á Akureyri.

Það er því skynsamlegt og í anda opinberrar stefnumörkunar, sjálfbærni og byggðafestu að byggja upp leitargetu og björgun á norðurslóð við Eyjafjörð.

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00