Fara í efni
Umræðan

Bæjarfulltrúar verða að sætta sig við eðlilegar spurningar

I - 
Talsmenn bæjarstjórnar Akureyrar hafa að beiðni ritstjóra Akureyri.net brugðist við grein minni um uppsögn þeirra á samningi bæjarins um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Undirtónninn í viðbrögðum þeirra er því miður litaður af persónu minni og fyrri störfum í stjórnmálum og jafnframt gefið í skyn að annarlegar hvatir séu að baki greinaskrifum mínum. Þannig nefna þau VG alls sex sinnum í þessum stutta pistli sínum í þeim tilgangi að gera skrif mín tortryggileg og gefa þannig í skyn að þau eigi sér pólitískar rætur. Þetta þykir mér miður. Ég geng ekki erinda nokkurs stjórnmálaflokks og hef ekki hagsmuni af málefnum ÖA umfram aðra íbúa bæjarins. Ég geri enga sérstaka kröfu til þess að bæjarfulltrúar bregðist við skoðunum mínum á málefnum ÖA eða á öðru sem ég kann að setja fram. Geri þeir það hins vegar bið ég um að þeir geri þannig að sem flestir geti haft af því gagn.

II
Í svari bæjarfulltrúanna þriggja kemur fram að þau viti ekkert um nýjan samning Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og einkafyrirtækisins Heilsuverndar um rekstur ÖA og því sé til lítils að spyrja þau um innihald hans. Þessu á ég bágt með að trúa en sé þetta virkilega þannig er að mínu mati um ákveðið sinnuleysi að ræða af hálfu bæjarstjórnar. Akureyrarbær hefur enn ýmsa félagslega þjónustu við eldri bæjarbúa á sinni könnu sem áfram þarf að sinna. Bærinn hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir því í rekstri sínum á næstu árum að sú þjónusta kunni að aukast í framhaldi af yfirtöku einkafyrirækis á rekstri ÖA. Það verður varla gert nema að hafa upplýsingar um samning SÍ og nýs rekstraraðilans til hliðsjónar. Það heyrir upp á bæjarfulltrúa að upplýsa okkur hin og ekki síst eldra fólk um þær breytingar sem kunna að verða á rekstri ÖA og þá einnig hvort og þá hvaða breytingar gætu orðið á þeirri þjónustu sem bærinn veitir nú þegar og verði væntanlega áfram. Ég geri ráð fyrir að bæjarfulltrúar hafi rætt þessi mál áður en samningnum um rekstur ÖA var sagt upp. Öldungaráð bæjarins gæti verið ágætur vettvangur fyrir slíka upplýsingagjöf og umræðu til að byrja með.

III
Ef marka má upplýsingar af vef Hagstofunnar hefur íbúum á Akureyri fjölgað um 28% frá árinu 1997. Á sama tíma hefur íbúum eldri en 67 ára fjölgað um 71%. Við vitum öll að hlutfall eldra fólks mun aukast hratt á næstu árum og þjónusta við þessa íbúa vonandi í samræmi við það. Málefni eldra fólks munu því fá aukið vægi í nánustu framtíð og þar mun þjónusta Akureyrarbæjar skipta verulegu máli. Uppsögn bæjarins á samningi um rekstur ÖA er ein stærsta ákvörðun sem tekin hefur verið um langan tíma í bæjarstjórn Akureyrar og mun hafa veruleg og varanleg áhrif. Viðbrögð forystufólks bæjarstjórnar við grein minni benda til þess að þau líti ekki lengur svo á að bærinn sé málsvari eldra fólks í málefnum hjúkrunarheimila heldur skuli nú leita beint til ríkisins með öll slík mál. Sé það raunin er það mikið áhyggjuefni en undirstrikar vel hversu stór ákvörðun það var hjá bæjarstjórn að segja samningnum upp. Við skulum ekki ætla annað en að fyrr eða síðar muni rísa ágreiningur á milli nýs rekstraraðila og ríkisins um mál tengd rekstri ÖA. Eldra fólk verður þá að geta treyst því að bæjarstjórn gæti hagsmuna þeirra hverju sinni og sé jafnframt málsvari þess þegar á þarf að halda.

IV
Akureyrarbær greiddi ríflega 1,7 milljarða króna með rekstri ÖA frá árinu 2012 til 2020. Þeir fjármunir fóru úr sjóðum bæjarins en hefðu annars verið nýttir til annarra verkefna og þjónustu við bæjarbúa. Þetta eru háar fjárhæðir og eðlilegt að spurt sé hvernig þetta gat gerst og hvers vegna ekki var fyrr gripið inn í. Eins og ég hef áður nefnt finnast mér svör bæjarfulltrúa ekki fullnægjandi hvað þetta varðar. Ég vil ekki ganga svo langt að telja að rannsaka þurfi hvernig á því stóð að öllum þessum fjármunum var ráðstafað úr sjóðum bæjarins í hallarekstur ÖA en spyr hvort ekki sé ráð að láta óháðan aðila gera sérstaka úttekt á rekstrinum á undanförnum árum til að leiða hið rétta í ljós. Hér er ekki gefið í skyn að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað í rekstri ÖA heldur hitt að reynt sé að draga upp skýrari mynd af ástæðum þessa mikla hallareksturs.

V
Komið hefur fram að rekstur margra hjúkrunarheimila hefur verið sveitarfélögum þungur og mörg þeirra hafa þurft að greiða með þeim úr eigin sjóðum, þó ekki öll og einhverjum hefur gengið vel með sinn rekstur. Þá er einnig rétt að rifja upp að Garðabær sótti á ríkið með hallarekstur á hjúkrunarheimilum bæjarins en tapaði því máli fyrir Hæstarétti. Í kjölfarið hætti Akureyrarbær við að sækja sambærilegt mál enda einsýnt að það myndi tapast. Niðurstaða Hæstaréttar bendir hins vegar til að málum sé blandið og ekki sé eingöngu við annan aðilann að sakast varðandi hallareksturinn; ríkið eða sveitarfélögin.

VI
Ég efast ekki um góðan vilja bæjarfulltrúa á Akureyri nú sem fyrr til að þjónusta eldri íbúa bæjarins með sem bestum hætti. Ég er einnig viss um að mörgum bæjarfulltrúum hefur þótt sárt að segja upp samningi bæjarins við ríkið um rekstur ÖA en ekki talið sig eiga annarra kosta völ. Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila er flókinn að mörgu leyti og kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga oft óljós og umdeilanleg eins og dæmin sanna. Það er sjaldan þannig að einn eigi sök þá tveir deila og að mínu mati bera báðir aðilar sína ábyrgð í þessu máli, ríkið og Akureyrarbær. Hvorugir hafa uppfyllt þá skyldu sína að semja um reksturinn á ÖA og tryggja þeim sem á þeirri þjónustu þurfa að halda öruggt skjól.

VII
Að lokum: Það var núverandi bæjarstjórn sem sagði sig frá rekstri ÖA. Sitjandi bæjarfulltrúar tóku þá ákvörðun á sinni vakt og bera á því ábyrgð gagnvart bæjarbúum, ekki síst eldra fólki. Þeir verða því að sætta sig við að fullkomlega eðlilegra og málefnalegra spurninga sé spurt um svo mikilvæg mál, svara leitað við því sem úrskeiðis kann að hafa farið og ekki síst að upplýsa bæjarbúa um stöðu öldrunarmála á Akureyri eftir að hafa sagt sig frá rekstri ÖA með þeim afleiðingum sem nú blasa við.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15