Fara í efni
Umræðan

Átta kosta átta hundruð!

Ónefndur Akureyringur sendi Akureyri.net þessa grein til birtingar. Undantekning er gerð og nafn höfundar ekki birt að þessu sinni, en gera má ráð fyrir að bæjarbúar sem komnir eru til vits og ára átti sig á því hver skrifar! Þótt nafn sé ekki birt vildi viðkomandi kynna sig með þessum hætti: Greinarhöfundur er fyrrverandi handknattleiksstjarna, og líklega umdeildasta poppgoð sem fæðst hefur við Pollinn.

- - - - -

Fyrstu skrefin sem launamaður steig ég árið 1977, fjórtán ára gamall. Við vinirnir fengum vinnu hjá Sigurði Svanbergssyni, sem þá var vatnsveitustjóri á Akureyri. Framan af sumri var puðað við að moka skurði með haka og skóflu frá átta á morgnana til sjö á kvöldin. Ég hafði þó ekki unnið nema í örfáar vikur þegar við Sigurður urðum ekki sammála um hvernig vinnu fyrirkomulagi skyldi háttað. Einhver misskilningur átti sér stað og ljóst var að annar hvor þyrfti að víkja. Það „debat“ endaði með því að ég var rekinn, ótrúlegt. Það kom þó ekki að sök því nokkrum dögum seinna fékk ég vinnu hjá Miðfelli, sem var á þessum tíma að leggja hitaveitulögn frá Brúnalaug og alla leið upp í Þórunnarstræti. Þar margfaldaði ég launin mín miðað við þau hjá Sigurði.

Sumarið á eftir krækti ég mér í vinnu hjá Marra Gísla, hann stjórnaði á þeim tíma bæjarvinnunni af mikilli röggsemi. Marri gekk oft undir nafninu „fjórir sjö“, allir sem unnu hjá bænum í þá daga muna eftir þegar kallað var í talstöðina, „áhaldahús, áhaldahús, fjórir sjö kallar".

Margir eftirminnilegir karakterar störfuðu hjá bænum á þessum tíma. Má þar nefna menn eins og Óla „belju“, en hann var að eigin sögn með launahæstu bæjarstarfsmönnum. Þegar hann var spurður um hvað hann væri með á tímann, svaraði hann ávallt keikur, „tvöþúsund og fimmtánhundruð“. Jói í Fíladelfíu og Jörri sáu um stíflulosun, óku um bæinn með sérhannaðar fjaðrir sem þræddar voru upp holræsarörin þar til stíflan brast, stundum stóðu þeir upp undir handarkrika í sullinu að verki loknu. Svo voru þarna kauðar eins og Alli „múffa“, Indriði „hurðalausi“, Pétur „púðurhaus“ og Lúlli „límonaði“ en það viðurnefni fékk Lúlli vegna taumlausrar drykkju á Egils appelsíni.

Ég held að Hilmari hafi litist vel á mig þegar ég mætti til vinnu hjá bænum, stóran strák og hraustan eftir aldri. Hann setti mig því umsvifalaust í „öskuna“ eins og það kallaðist í þá daga, sorphreinsun á nútímamáli. Þar hitti ég fyrir magnaða vinnufélaga; „kola Manga“ sem var bílstjóri, líklega fengið nafnið vegna þess að hann reykti þetta á bilinu þrjá til fjóra pakka af Viceroy á dag, Ella „færeying“, Sigga Draumland og ekki má gleyma Aðalsteini Júlíusi, „tóbaks-Steina“. Flestir sem eru komnir til vits og ára ættu að muna eftir Steina, enda samdi ein ástsælasta hljómsveit Íslands lag um hann á sínum tíma. Hver man ekki eftir: „honum líður nokkuð vel, stígvél"?

Að öllum öðrum ólöstuðum stendur Steini uppúr í minningunni. Hann var frekar hægur í hreyfingum, en röggsamur og gekk fumlaust til verka. Steini var fámáll, með hrjúfa rödd, þannig að í þau fáu skipti sem hann tók til máls rumdi í kallinum. Hann hafði mjög einfaldan smekk þegar kom að klæðaburði, blár samfestingur með svart belti um sig miðjan og fótabúnaður svartir gúmmískór með rönd.

Eins og nafnið gefur til kynna þótti Steina gott að taka í nefið og hans uppáhalds drykkur var Thule lageröl. Það var oftar en ekki þegar var búið að borga út á föstudögum að Steini lagði leið sína til Gvendar Gorra í Bílaþjónustuna við Tryggvabraut eða Olís við sömu götu til að fá sér öl. Hann hafði þann háttinn á að panta átta Thule í einu og bað afgreiðslustúlkuna um að taka þær allar upp. Svo stóð hann við borðið, sötraði ölið og tók í nefið eins og enginn væri morgundagurinn. Þegar þrjár flöskur voru eftir bað hann um átta til viðbótar og lét sig ekki muna um að stinga úr þessu á mettíma.

Líklega var skólaganga Steina ekki merkileg á nútíma mælikvarða, frekar en flestra sem voru af hans kynslóð. Ég veit ekki um móðurmálskunnáttu hans en stærðfræði var honum ekki í blóð borin. Því til staðfestingar get ég sagt ykkur tvær litlar sögur af Steina:

Eitt sinn var Steini að þjóra Thule í Olís-sjoppunni við Tryggvabraut þegar hinn geðþekki stærðfræðikennari í Iðnskólanum, Kalli „bros“, kom inn í sjoppuna, eftir að hafa fyllt jeppann sinn af eldsneyti. Þegar hann sá Steina með ókjör af öli fyrir framan sig spurði hann kallinn hvað ein flaska af Thule kostaði. Þá rumdi í Steina: „Það veit ég ekki“. En bætti svo við: „Eitt veit ég þó, að átta kosta átta hundruð, og reiknaðu nú“.

Svo var það þegar spurðist út á Akureyri að Steini ætlaði að selja bílinn sinn. Hann átti Willys-jeppa með tréhúsi, líklegt smíðaár um miðja síðustu öld. Fréttin fór um bæinn eins og eldur í sinu. Einn seinnipartinn þegar sá gamli var að sjóða súpukjöt var bankað á útihurðina. Steini fór til dyra og fyrir utan stóðu þrír jakkaklæddir menn. Hann spurði þá um erindi og þeir sögðust hafa áhuga á að kaupa Willysinn og hvort hann væri til sölu. Steini svaraði að allt væri til sölu fyrir rétt verð og hvaða verðhugmyndir þeir hefðu. Sá sem hafði orð fyrir tríóinu svaraði, við vorum að hugsa um áttatíuþúsundkall. Gamli öskukallinn klóraði sér í hausnum í dágóða stund og svaraði svo. „Nei strákar mínir, ég læt hann ekki fyrir minna en sextíu!"

Blessuð sé minning Steina.

Gleðileg jól, Akureyringar og nærsveitamenn!

Málverk Steingríms St. Th. Sigurðssonar af Akureyri. Myndin er í eigu greinarhöfundar.

Þegar bakarinn er hengdur fyrir smiðinn

Hlín Bolladóttir skrifar
08. desember 2023 | kl. 19:45

Heilbrigðisstofnanir í úlfakreppu

Logi Einarsson skrifar
08. desember 2023 | kl. 13:55

Kaupmenn! Látið verðið sjást á vörunum

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
08. desember 2023 | kl. 10:00

Kynferðisofbeldi gagnvart stúlkum í grunnskólum: staðan virðist vera verri á Akureyri

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. desember 2023 | kl. 06:00

PISA „ríður húsum“

Benedikt Sigurðarson skrifar
07. desember 2023 | kl. 16:10

Skelfilegar niðurstöður Pisa koma ekki á óvart

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar
07. desember 2023 | kl. 16:00