Fara í efni
Umræðan

Áskorun vegna menntastefnu Akureyrarbæjar

Nýr stýrihópur hefur tekið til starfa við endurskoðun Menntastefnu Akureyrarbæjar. Ég óska honum góðs gengis en vona um leið að ný stefna verði ekki aðeins til á blaði, heldur leiðarljós í verki. Menntastefnan 2020–2025 er aðgengileg á heimasíðu Akureyrarbæjar og þar ber ýmislegt á góma. Á gildistíma hennar hafa kjörnir fulltrúar bæjarstjórnar tekið stórar ákvarðanir í skólamálum sem hvorki vísa í stefnuna né byggjast á skýrum markmiðum.

Þrjú dæmi sýna þetta skýrt:

1. Skólaleikur aflagður 

Án rökstuðnings var hætt við tilraunaverkefnið Skólaleik, úrræði sem undirbjó börn sem útskrifuð voru úr leikskóla fyrir grunnskólagöngu sína. Börn gátu komið í tvær vikur í ágúst, kynnst skólaumhverfinu, starfsfólki og hvert öðru með það markmið að mýkja stökkið á milli skólastiga. Það hverfur einfaldlega úr kerfinu í byrjun árs 2020 að því virðist, án skýringa. Engar opinberar upplýsingar um málið eru aðgengilegar, og fundargerðir Fræðsluráðs á heimasíðu Akureyrarbæjar ná aðeins þrjú ár aftur í tímann.

2. Gjaldfrjálsir leikskólar milli 8–14 („Kópavogsmódelið“) 

Ákvarðanataka um þessa breytingu fór fram á örfáum vikum síðla árs 2023. Á kynningarfundi með foreldrum gátu kjörnir fulltrúar hvorki skýrt markmið breytingarinnar né hvernig árangur yrði metinn – enda hafði hann ekki verið skilgreindur. Þrátt fyrir að leikskólastjórar væru jákvæðir í könnun sem kom út árið 2025, er óljóst hvort um faglegt mat eða lausn á bráðavanda var að ræða er beinist í raun að hag barna eða fjölskyldna þeirra. Leikskólastjórar fengu þessa lausn til að mæta bráðavanda sem þeim var skyndilega fenginn í hendur, að manna leikskólana vegna styttingar vinnuvikunnar.

3. Breytingar á FélAk 

Vorið 2025 voru gerðar róttækar breytingar á félagsmiðstöðvastarfi grunnskólanna, án nægilegs undirbúnings og tók gildi samstundis. Nýtt fyrirkomulag hefur áhrif á núverandi skólaár og þurftu stjórnendur og kennarar að hefja sitt starf í haust með þennan málaflokk í óvissuástandi. Félagsmiðstöðvarstarf er enn ómannað í nokkrum skólum. Félagslegur stuðningur barna er lífsnauðsyn og hafa tómstunda-og félagsmálafulltrúar um land allt bent á neikvæðar hliðar þess að leggja faglegt starf niður með þeim hætti sem var gert. Það má vel vera að breytinga hafi verið þörf, en það þarf að vera með fyrirsjáanleika og í samráði við fagfólk.

 

Þessi þrjú dæmi eru ekki litlar lagfæringar, heldur grundvallarbreytingar á skólastarfi bæjarins. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar án tilliti til opinberrar stefnu, án gagnsæis og án skilgreindra mælikvarða, stendur almenningur eftir eins ég hef upplifað sjálfan mig sem foreldri síðustu ár; ringluð og gaslýst.

Ný menntastefna verður að vera meira en viljayfirlýsing. Hún þarf að vera skýr, mælanleg og raunhæf og hún þarf að vera raunverulegt innlegg inn í stefnumótun til framtíðar. Ný bæjarstjórn á að geta unnið eftir henni með ábyrgð, þannig að börn og foreldrar þurfi ekki að sitja eftir með sárt ennið vegna forsendubrests. Í því felst áskorunin.

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir er móðir ungra barna og leiðbeinandi í grunnskóla á lokaári í kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri.

Vinstra vor í Akureyrarbæ

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
18. september 2025 | kl. 21:00

Hugleiðingar um skólamál á Akureyri og spurningar til Sjálfstæðisflokksins

Inga Huld Sigurðardóttir skrifar
18. september 2025 | kl. 08:30

Hin gáttin

Þórhallur Jónsson skrifar
16. september 2025 | kl. 15:00

Samgöngufélagið Þjóðbraut

Jens Garðar Helgason skrifar
16. september 2025 | kl. 11:20

Stöndum með Háskólanum á Akureyri

Jón Bjarnason skrifar
15. september 2025 | kl. 22:00

Sterkt skólasamfélag á Akureyri, sameiginleg ábyrgð og framtíðarsýn

Heimir Örn Árnason skrifar
13. september 2025 | kl. 12:00