Fara í efni
Umræðan

Akureyrarbær stendur við sitt

Formaður Einingar-Iðju ber fram alvarlegar ávirðingar á hendur stjórnendum Akureyrarbæjar í grein sem birtist á Akureyri.net í gær. Þar er sveitarfélagið sakað um svik og árás á kaupmátt fólks - en því miður á röngum forsendum.

Margt í greininni byggir á minnisblaði frá því í ágúst þegar unnið var að drögum að fjárhagsáætlun en eins og gengur og gerist þá hefur æði margt breyst frá þeim tíma þar til áætlunin var samþykkt í bæjarstjórn 29. október sl. og vísað til síðari umræðu. Í fundargerð á heimasíðu Akureyrarbæjar má sjá áætlunina í heild sinni sem og glærukynningu þar sem þær forsendur sem áætlunin byggir á eru dregnar saman.

Í tengslum við gerð kjarasamninga síðasta vor skuldbundu sveitarfélög í landinu sig til að hækka gjaldskrár ekki umfram 3,5% árið 2024 svo tryggja mætti stöðugleika í landinu. Einnig voru gefin fyrirheit um að endurskoða gjaldskrár ef hækkun hefði verið meiri en sem því nemur. Mælst var til þess að sérstaklega yrði horft til þess að auka ekki álögur á barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.

Akureyrarbær stóð að sjálfsögðu við sitt og lækkaði þær gjaldskrár sem stefndi í að hækkuðu umfram 3,5%. Þær breytingar voru einfaldlega dregnar til baka. Gjaldskrár sem snerta viðkvæma hópa hækka ekki meira en gert er ráð fyrir í kjarasamningum. Sveitarfélagið stendur því algjörlega við skuldbindingar sínar í tengslum við kjarasamninga.

Í minnisblaðinu frá því í ágúst, sem nefnt er hér að framan, kemur skýrt fram að áætluð hækkun skatttekna sveitarfélagsins frá útkomuspá ársins 2024 sé 3,7%. Það samsvarar 8,87% hækkun frá upphaflegri áætlun ársins.

Útkomuspá skatttekna þýðir að búið er að leggja mat á áhrif þeirra kjarahækkana sem orðið hafa árið 2024 og er alls ekki það sama og upphafleg áætlun skatttekna fyrir árið 2024. Upphafleg áætlun var unnin á haustmánuðum 2023 og á þeim tíma lágu hvorki fyrir kjarasamningar á almennum né opinberum markaði og ákvörðun var tekin um að spá ekki fyrir um kjarahækkanir í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og þannig senda út óskýr skilaboð inn í kjaraviðræður sem voru að hefjast.

Hvað varðar hækkun á sorphirðugjöldum og gjaldskrá Norðurorku er algjört lykilatriði að það komi skýrt fram að skuldbindingar sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga fyrir árið 2024 náðu ekki yfir þær gjaldskrár.

Engu að síður vil ég gera alvarlega athugasemd við þá staðhæfingu formanns Einingar-Iðju að sorphirðugjöld hækki um 57,4% því þar er um að ræða furðulega einföldun sem líkast til er fyrst og fremst ætluð til þess að skjóta fólki skelk í bringu. Því staðreyndin er sú að Akureyrarbæ, eins og öðrum sveitarfélögum á Íslandi, er skylt samkvæmt lögum að innleiða fjórflokkun úrgangs við heimahús og það kallar á verulegar breytingar á gjaldskrá. Fram að þessu hefur jafnhátt sorphirðugjald verið lagt á allar íbúðir óháð kostnaði við hirðingu en eftir breytingarnar verður gjaldskráin að mínu mati réttlátari. Þá mun fólk sem býr í sérbýli yfirleitt greiða hærra gjald en áður enda er kostnaður við hirðingu við sérbýli meiri en við fjölbýli þar sem gjöldin verða lægri. Einnig getur samsetning sorpíláta við heimili og hirðutíðni haft hér áhrif til hækkunar eða lækkunar. Hækkunin nær því fyrst og fremst til sérbýla.

Ég læt stjórnendum Norðurorku eftir að svara fyrir breytingar á gjaldskrám fyrirtækisins en vil þó að það komi fram að það kostar heilmikið að leita eftir heitu vatni sem er nauðsynlegt til að viðhalda þeim lífsgæðum sem við búum við í ört stækkandi samfélagi hér í Eyjafirði.

Formaður Einingar-Iðju segist vera tilbúinn til uppbyggilegs samtals og það erum við hjá Akureyrarbæ líka. Tölum þá saman af sanngirni og höfum staðreyndir ávallt að leiðarljósi.

Að lokum þetta: Það er góðra gjalda vert að benda á það sem betur má fara en það verður þá að vera gert á réttum forsendum. Síðasta vor og nú nýlega samdi stór hluti vinnandi fólks um mjög hóflegar launahækkanir til að stemma stigu við verðbólgu í þágu okkar allra og árangurinn er smám saman að koma í ljós. Akureyrarbær lét ekki sitt eftir liggja og stendur algjörlega við allt það sem lofað var í tengslum við gerð kjarasamninga. Annað hefði að sjálfsögðu aldrei komið til greina.

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15