Fara í efni
Umræðan

Áhugalausir þingmenn

Í viðtali við RÚV segir Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga að það sé mikið reiðarslag fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu að Vegagerðin hafi ákveðið að hætta flugi til Húsavíkur.

Aðalsteinn vekur í viðtalinu athygli á því að heimamenn hafi ítrekað reynt að ná sambandi við þingmenn norðausturkjördæmis og leita liðsinnis þeirra en án árangurs. Samkvæmt því sem fram kemur hjá Aðalsteini þá hafi þingmennirnir sýnt málinu lítinn áhuga og varla svarað erindum heimamanna vegna málsins. Það sé því ekki síst þeim að kenna að nú hafi flug til Húsavíkur verið lagt af. Þeir vörðu ekki hagsmuni íbúa svæðisins.

Nauðsynleg hagsmunagæsla

Það má vel taka undir athugasemdir Aðalsteins um almennt áhugaleysi þingmanna um málaefni kjördæmisins og er þar enginn flokkur undaskilinn. Þingmenn virðast nú orðið almennt séð láta sig litlu varða um málefni sem snúa beint að kjördæminu eða einstökum svæðum innan þess. Það er nánast eins og þeir líti ekki á það sem sérstakt hlutverk sitt að gæta hagsmuna íbúa kjördæmisins eða atvinnulífs. Þetta á ekki síst við um þingmenn stjórnarliðsins hverju sinni sem í dag eru 7 af 10 kjörnum þingmönnum norðausturkjördæmis. Kjördæmi með svo sterka stöðu innan þings og stjórnar hefði áður þótt vel í sveit sett að þessu leiti og íbúar hefðu ekki þurft að hafa áhyggjur af því að beinum hagsmunum þeirra hafi ekki verið sinnt með sómasamlegum hætti. En það er öðru nær í dag eins og Aðalsteinn Baldursson bendir réttilega á varðandi flugið og mun fleiri dæmi eru um á öðrum sviðum.

Hvað veldur?

Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna þingmenn eru svona slakir í hagsmunagæslu fyrir kjördæmið og virðast jafnvel líta svo á að það sé ekki lengur hlutverk þeirra að gæta beinna hagsmuna kjósenda sinna. Kannski vilja þeir ekki láta bendla sig við kjördæmapot eins og það hefur verið kallað þegar þingmenn hafa talað ákveðið fyrir málefnum kjördæma sinna? En það er þá gott að muna að það var ekki síst fyrir atbeina þingmanna að Háskólinn á Akureyri varð að veruleika á sínum tíma og vegasamgöngur kjördæmisins væru í skötulíki ef þingmenn hefðu ekki beitt sér af afli fyrir þeim þvert á flokka. Sama má segja um ýmiss atvinnumál, heilbrigðismál og menntamál í kjördæminu sem mörg hver voru lamin áfram af duglegum og ósérhlífnum þingmönnum sem sinntu kjördæminu sínu og gættu hagsmuna þess þegar á þurfti að halda.

Við þurfum duglegri þingmenn

Þingmenn þurfa ekki að skammast sín fyrir að taka afstöðu með málefnum kjördæmisins eða berjast fyrir hagsmunum íbúa þess. Það er beinlínis eitt af megin hlutverkum þeirra að greiða fyrir því að kjördæmið blómstri og dafni og sé í stöðugri sókn á öllum sviðum, samhliða öðrum málum sem þingið þarf að fást við hverju sinni. Það er bæði eðlileg og sanngjörn krafa að þingmenn tali máli kjördæmisins og bregðist af röggsemi við erindum þeirra sem eru að reyna að verjast á heimavelli líkt og Aðalsteinn Baldursson og fleiri eru að gera dag hvern.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15