Fara í efni
Umræðan

Að ná eyrum bæjarfulltrúa í umhverfismálum

Oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, birti pistil á þessum miðli fyrir skömmu undir titlinum Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki. Pistlinum fylgdi hún eftir með ræðu á bæjarstjórnarfundi þann 21. júní, sem lauk með samþykkt bókunar um að bæta skuli kafla um umgengi og þrifnað utanhúss í nýsamþykkta umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar, auk þess sem óskað er eftir að upplýsingum verði aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins.

Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga bæjarfulltrúa á umhverfismálum bæjarins, og mætti segja að kveði við nýjan tón í einhverjum flokkum. Það er auk þess erfitt að vera annað en sammála titli pistils Sunnu Hlínar; auðvitað ætti það að vera sameiginlegt markmið bæjarbúa og þar með talið kjörinna fulltrúa, bæjarstarfsmanna og embættisfólks að stuðla að snyrtilegum bæ.

Ég get þó ekki annað en svarað þeim dylgjum sem koma fram í skrifum Sunnu Hlínar, sem í besta falli byggjast á misskilningi á starfssviði og heimildum Heilbrigðiseftirlitsins, í versta falli eru þær tilraun til að varpa ábyrgð þangað sem hún á ekki heima.

Í pistli og ræðu Sunnu Hlínar er ýjað að því að rót vandans sé að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra (HNE) hafi skort þor til að fylgja samþykkt embættisins um umgengni og þrifnað utanhúss á starfsvæði sínu. Í ræðu sinni hjá bæjarstjórn leggur hún áherslu á að HNE starfi eftir lögum, reglum og samþykktum og gerir því skóna að það hafi embættið ekki gert hingað til. Sunna Hlín kveðst bera vonir til að þetta muni breytast með fyrirhuguðum mannaskiptum hjá heilbrigðiseftirlitinu, en undirritaður lætur bráðlega af störfum sem framkvæmdastjóri HNE og siglir inn í eftirlaunaárin.

Hvað gerir heilbrigðiseftirlitið eiginlega?

Heilbrigðiseftirlitið starfar fyrst og síðast eftir lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfinu liggja ennfremur til grundvallar nokkrar mengunarvarnareglugerðir og hollustuháttareglugerð og á þeim eru svo byggðar samþykktir sem unnar eru á grundvelli sveitarfélaganna og heilbrigðisnefndar. Allur þessi bálkur er hafður til leiðbeininga í daglegum störfum heilbrigðiseftirlitsins og starfsmenn þess fylgja honum svo sannarlega.

Verkaskipting milli heilbrigðiseftirlits og sveitarfélaga þegar kemur að hreinsun bílhræja og lausadrasls er skýr. Setjum sem svo að heilbrigðiseftirliti berist kvörtun vegna númerslauss bílhræs í íbúðahverfi. Í honum eru brotnar rúður sem eru varasamar vegfarendum og málið varðar þar með almannaheill. Þá lekur úr honum olía og þar með er bíllinn orðinn að umhverfisvandamáli. Eftirlitið límir á bílinn tilkynningu þar sem eiganda hans er gert að fjarlægja bílinn innan tiltekins tíma, ellegar verði það gert á kostnað viðkomandi. Þegar fresturinn er runninn út er verkbeiðni send á verktaka og viðkomandi sveitarfélag sem ábyrgist aðgerðina. Bíllinn fer þá í geymslu og ef eigandi vitjar ekki bílsins innan tiltekins tíma er honum fargað. Ef eigandi finnst er gerð á hann krafa um að greiða fyrir aðgerðina. Stundum finnast þeir ekki, og í öðrum tilfellum eru eigendur hreinlega ekki borgunarfólk og þá fellur kostnaðurinn við hreinsun óhjákvæmilega á sveitarfélagið.

Líkt og greint var frá í dæminu að framan þá getur heilbrigðisfulltrúi beitt álímingarmiðum vegna númerslausra bifreiða og lausadóts sem er til ama, og látið fjarlægja á kostnað eigenda. Það er þó ekki þannig að heilbrigðisfulltrúi mæti sjálfur á svæðið á dráttarbíl, heldur leggur heilbrigðisnefnd og starfsfólk heilbrigðisnefndar fram verkbeiðni til viðkomandi sveitarfélags um að láta fjarlægja það sem til ama er. Á þeim enda þarf einhver að taka við boltanum.

Að taka til í sveitarfélagi er þannig samvinnuverkefni heilbrigðiseftirlits og sveitarfélaga og báðir aðilar þurfa að sinna sínum hlutverkum til að bæir og ból verði snyrtileg. Það er alveg ljóst að ef viðkomandi sveitarfélag gerir ekki ráð fyrir kostnaði vegna umhverfismála og hreinsana á götum, lóðum og lendum í sinni fjárhagsáætlun, þá stöðvast þessir ferlar; engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Nokkrar tillögur til nýrra bæjarfulltrúa að lokum

Nú þegar augu bæjarfulltrúa eru á málaflokknum ætla ég að leyfa mér að koma með nokkrar tillögur sem nýkjörnir fulltrúar geta litið til, þegar leitast er við að bæta verkferla sveitarfélagsins á sviði umhverfismála:

  • Akureyrarbær gæti snúið frá því verklagi að rukka hússtjórnir vegna dráttar- og geymslugjalda vegna númerslausra bíla sem eru skildir eftir á stæðum við fjölbýlishús í óþökk húsfélaga. Í viðleitni sinni til að draga úr kostnaði Akureyrarbæjar við drátt og geymslu bíla var ákveðið að hússtjórnir sem tilkynna númerslausa bíla á bílastæðum sínum skuli bera kostnaðinn ef ekki næst á eiganda braksins. Þetta er letjandi og verður til þess að hússtjórnir láta frekar bílhræ standa á bílastæðum en að fá þau fjarlægð.
  • Akureyrarbær gæti stækkað geymsluport sitt þannig að hægt verði að taka við stærri bílum, vinnuvélum og ýmisskonar lausadót og drasl til geymslu.
  • Akureyrarbær gæti gert átak í að framfylgja reglugerð um stöðuleyfi fyrir gáma í langtímastöðu og fjarlægt óleyfisgáma.
  • Akureyrarbær gæti sett kröfur á verktaka- og þjónustufyrirtæki um að þau framvísi öllum tilskyldum leyfum áður en gerður er samningur um vöru- eða þjónustukaup og að viðkomandi fyrirtæki sýni fram á að þau fylgi virkri umhverfisstefnu í störfum sínum.
  • Akureyrarbær gæti sýnt fyrirtækjum aðhald hvað varðar umhverfismál með því að setja inn skilyrði fyrir lóðaúthlutun og komið á viðbragðsáætlun til að taka á fyrirtækjum sem virða ekki lóðasamninga við bæinn og stunda óleyfisstarfsemi, þrátt fyrir útrunna lóðarsamninga.

Allt eru þetta atriði sem ýmist hafa komið fram í bókunum heilbrigðisnefndar, eða verið nefndir á ýmsum fundum með embættisfólki og kjörnum fulltrúum. Því miður er oft talað fyrir daufum eyrum.

Alfreð Schiöth er framkvæmdarstjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15