Fara í efni
Pistlar

Var að moka skít þegar ég heyrði pönk í fyrsta sinn

Helgi Þórsson í dyragættinni í Kristnesi. Myndir með viðtalinu: Rakel Hinriksdóttir

„Ég hef alltaf gaman af æskuminningum fólks,“ segir Helgi Þórsson, bóndi og tónlistarmaður í Kristnesi. „Mér finnst heillandi að hlusta á gamalt fólk lýsa æsku sinni, það er eitthvað sem gerir það að verkum að þetta er langoftast fallegar minningar og það er alveg sama hvort sá sem ritar er góður rithöfundur eða slæmur, þetta er góð og einlæg lesning.“ Hið ótrúlega er oft að þegar fólk rifjar upp æskuna, er gjarnan sól og gott veður, þó að við vitum hið sanna, að fólk bjó nú eftir sem áður á Íslandi. Í bernskuminningum Helga frá Kristnesi er ótvíræð sól í heiði.

„Það fór nú sennilega stundum einhver að grenja, kannski einhver lítill sem hljóp ekki nógu hratt, en heilt yfir var gaman. Það var magnað að vera hluti af svona krakkagengi.“

„Það sem er svo skemmtilegt, er að þó að ég alist upp á sveitabænum Kristnesi, þá er hér líka þorpið Kristnes,“ segir Helgi. „Það þýddi að hérna var lítið samfélag og á þessum tíma var haugur af börnum sem fylgdu gjarnan foreldrum sem voru á ferð og flugi í tengslum við spítalann. Hér var mikið líf og fjör.“ Helgi segir að þessi hópur hafi getað leikið sér tímunum saman. „Það fór nú sennilega stundum einhver að grenja, kannski einhver lítill sem hljóp ekki nógu hratt, en heilt yfir var gaman. Það var magnað að vera hluti af svona krakkagengi.“

„Þegar ég og þessir pjakkar sem voru á mínu reki fórum að nálgast unglingsárin, þurftu prakkarastrikin að verða svolítið karlmannlegri.“

Bræðurnir í Kristnesi. F.v. Aðalsteinn, Bergsveinn, Helgi og Ingólfur. Mynd: Facebook

„Hér giltu engar útivistarreglur,“ segir Helgi. „Ekki að við hefðum tekið sérstakt tillit til regluverks. Það þótti til dæmis ekki æskilegt að börn skyldu leika sér á lóðum spítalans. Hér var sérstakur ráðsmaður sem átti að passa upp á þetta og það gerðist nú oft að það hófst upp æsilegur flótti ef sást til ráðsmannsins á ferð, en hann átti það nú til að skammast töluvert í okkur og okkur þótti gaman að vaða svolítið uppi.“

„Þeir hörðustu slökktu á staurunum með því að skalla þá. Ég gat það einmitt, og hef varla borið mitt barr síðan,“

Helgi man ekki eftir stórum skemmdarverkum en ýmsu smávægilegu. „Þegar ég og þessir pjakkar sem voru á mínu reki fórum að nálgast unglingsárin, þurftu prakkarastrikin að verða svolítið karlmannlegri. Ég man að við tókum upp það sport að reyna að slökkva á ljósastaurunum í þorpinu. Það voru þróaðar allskyns aðferðir til þess, vinsælt að sparka í þá til dæmis. Þeir hörðustu slökktu á staurunum með því að skalla þá. Ég gat það einmitt, og hef varla borið mitt barr síðan,“ segir Helgi og hlær.

Bræðurnir orðnir eldri. Örlítið meiri gáski á andlitum yngri bræðranna. Mynd: Facebook.

Bræðurnir í Kristnesi eru fjórir. „Við vorum eiginilega tvö pör af bræðrum,“ segir Helgi. „Ingólfur og Aðalsteinn eru eldri, fæddir ‘63 og ‘64. Ég og Beggi, Bergsveinn, komum seinna, ‘69 og ‘71. Við Beggi vorum eiginlega eins og tvíburar, alltaf í eins úlpum.“ Helgi kannast ekki við að þeir yngri hafi nokkuð farið í taugarnar á eldri bræðrum sínum, en segist svosem ekki geta svarað fyrir þá. „Við litum svolítið mikið upp til þeirra, þeir fóru til dæmis að hlusta á svona klassískt rokk eins og Led Zeppelin og voru síðhærðir. Þá var ég fimm ára og áttaði mig á því að svona líti alvöru karlmenn út og hef enn ekki farið ofan af því. Enda er ég síðhærður í dag.“

„Það var einhver undarleg harmonía í þessu, að vera þarna í þessu aldagamla hlutverki í fjárhúsinu og mæta splunkunýrri tónlist sem hefur svona áhrif á mann.“

Tónlistaráhuginn sem Helgi smitaðist af frá eldri bræðrum hefur litað allt líf hans síðan, en hann stígur enn í dag reglulega á svið í þröngum leðurbuxum með sitt síða rokkarahár og tryllir tónleikagesti með hljómsveitinni ‘Helgi og hljóðfæraleikararnir’. „Sem unglingar spiluðum við rokktónlist út í eitt. Og um tólf ára aldurinn heyrði ég fyrst í pönki,“ segir Helgi, en hann varð fyrir allt að því trúarlegri upplifun í fjárhúsunum einn daginn.

Helgi á tónleikum með hljómsveitinni 'Helgi og hljóðfæraleikararnir'. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Ég var að moka skít með Steina bróður þegar ég heyrði í Purrki Pillnikk í fyrsta sinn. Það var einhver undarleg harmonía í þessu, að vera þarna í þessu aldagamla hlutverki í fjárhúsinu og mæta splunkunýrri tónlist sem hefur svona áhrif á mann. Þetta var ógeðslega heillandi og skrítið, í gegnum frumleikann voru líka aðrir sterkir þræðir, kröftug laglína og algjört uppbrot á gömlum hefðum sem heillaði mig.“

Það eru ekki allir með diskókúlu í eldhúsinu.

„Í seinni tíð geri ég oftast textann fyrst. Hann kemur eiginilega til mín sem ljóð. Fæðist sem ein lína, hugmynd eða tilfinning.“

Bubbi hafði einnig mikil áhrif á Helga. „Allt í einu kom þarna maður sem söng um eitthvað dýpra en bara ‘I love you yeah yeah.’ Textasmíðarnar hittu mig á einhverjum mikilvægum stað.“ Helgi hefur samið megnið af textum hljómsveitar sinnar, og óhætt að segja að þeir séu mjög fjölbreyttir. Fyrir síðustu jól kom út bók sem inniheldur þessa texta. „Í seinni tíð geri ég oftast textann fyrst. Hann kemur eiginlega til mín sem ljóð. Fæðist sem ein lína, hugmynd eða tilfinning. Ég set svo kjöt á beinin og viðurkenni að ég er mun vandvirkari við þetta núna heldur en áður.

Helgi blaðar í bókinni með textum hljómsveitarinnar ‘Helgi og hljóðfæraleikararnir’

„Texti hefur oftast einhvern snertiflöt við raunveruleikann, en hann lifir sínu eigin lífi og þarf ekki að vera sannur í hinum ytri veruleika. Hann er samt ávallt sannur í sínum eigin veruleika.“ Dæmi um lagaheiti hjá Helga og hljóðfæraleikunum eru t.d. Heróín fyrir ömmu, Þú sem klýfur atómið, Karamellustelpa, Gröfin bíður og margt fleira. Hvert og eitt lag er lítil saga í sjálfu sér. „Lagið ‘Bréf til Stínu’, af samnefndri plötu er til dæmis raunverulegt bréf til fiðluleikarans okkar sem var erlendis þegar lagið var samið,“ segir Helgi og les textann upphátt.

Bréf til Stínu

Reykurinn fyllir stofuna
ég sit við borðið, totta pípu.
Úti gnauðar vindur en í skini lampans sé ég brosið þitt á myndinni.

Skrifa þér línu, nefni ágæta kartöfluuppskeru
og að göngur séu á næsta leyti.

Það er bara einhver uggur,
einhver vægðarlaus geigur
í hvíslandi gnauði þessara haustvinda.
Og presturinn er skilinn.

Mér er sagt að mannlífið sé fagurt í Danmörku,
en dauðinn, er hann jafn tilkomumikill og hér?

Jæja Stína. Gott á fiðlan að eiga þig að.

Það er oft gríðarleg orka sem leysist úr læðingi á tónleikum Helga og hljóðfæraleikaranna. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Frægðin náði ekki langt út fyrir níunda bekk í Hrafnagilsskóla. Mig minnir að nafn bandsins hafi þá verið ‘Refsararnir’ eða eitthvað í þeim dúr.“

Uppruni hljómsveitarinnar á sér rætur í unglingaskóla Hrafnagils. „Beggi Þórsson, næstum því tvíburabróðir minn, Brynjólfur Brynjólfsson ‘Bobbi’, frændi minn úr Reykhúsum og Atli Már Rúnarsson bekkjarbróðir þeirra, stofnuðu skólahljómsveit þegar þeir voru svona fjórtan eða fimmtán ára,“ segir Helgi. „Þeir spiluðu eitthvað af frumsömdum lögum í bland við Bubbalög og fleira. Frægðin náði ekki langt út fyrir níunda bekk í Hrafnagilsskóla. Mig minnir að nafn bandsins hafi þá verið ‘Refsararnir’ eða eitthvað í þeim dúr. Þeir óskuðu sér að fá hæfileikaríkan söngvara og réðu mig til starfa, sem var tveimur árum eldri en þeir.“

„Fyrir utan þessa textabók núna, erum við að gefa út tvöfaldan vínyl með tónleikaupptökum.“

Eitthvað hefur hljómsveitin starfað með hléum síðan. Nafn bandsins tók líka breytingum á fyrstu stigum, en Helgi rifjar upp nöfnin ‘Attack’ og hið þjóðlega ‘Múspellssynir’. „Það er úr Snorra-Eddu og það skildi enginn nafnið né gat borið það fram. Þá fæddist nafnið Helgi og hljóðfæraleikararnir, sem átti fyrst að vera grín en það festist við okkur.“ Helgi viðurkennir að oft á tíðum hafi honum þótt nafnið óþægilegt, að fólk haldi gjarnan að bandið samanstandi af honum og bara einhverjum gæjum með. Þegar sannleikurinn er náttúrulega sá að hljóðfæraleikararnir komu nú á undan. „Ég á ekki þessa hljómsveit. En þetta hefur vanist ágætlega og við höfum verið duglegir. Fyrir utan þessa textabók núna, erum við að gefa út tvöfaldan vínyl með tónleikaupptökum. Hjálmar Brynjólfsson, bróðir Bobba, er með okkur í bandinu og er mikill galdramaður á hin ýmsu hljóðfæri og fleira. Hann hefur haft frumkvæðið að þessum útgáfuævintýrum sem við erum í núna.“

„Ég geri ráð fyrir að við höldum upp á þetta með einhverjum tónleikum. Spurningin er bara hvar, hvernig og hvenær.“

Platan kemur út í lok febrúar og segir Helgi að þeir félagar muni auglýsa það eins og þeir nenni á samfélagsmiðlum og öðrum veitum. „Ég geri ráð fyrir að við höldum upp á þetta með einhverjum tónleikum. Spurningin er bara hvar, hvernig og hvenær.“ Aðspurður um það hvar muni vera hægt að versla plötu drengjanna segir Helgi að söludeildin sé einmitt að rannsaka það mál. Sennilega er best að fylgjast með hljómsveitinni á Facebook HÉR

Að lokum hefur Helgi orð á því að sköpunarþörfin leiði sig oft í ólíkar áttir. Fyrir utan leiklist, tónlist og innanhússhönnun er öll ræktun Kristneshjónanna enn óupptalin. Það væri sannarlega hægt að skrifa sér grein um það, en sköpunarkraftur og hugmyndaauðgi einkenna búskap þeirra. Mjólkurkýr, nautgripir, kindur, hestar, hænur, endur, epli, alls kyns ber, laukar, rótargrænmeti, salat, ertur, kúmen og fleira og fleira. Hugmyndabrunnurinn er ótæmandi.

„Ég held að það næsta sem ég tek mér fyrir hendur verði af frumlegu tagi,“ segir Helgi hugsi. Blaðamaður getur ekki varist því að brosa og velta því fyrir sér hvort Helga þyki hann ekki hafa verið frumlegur hingað til.

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00