Fara í efni
Pistlar

Orðið mitt 2023

Hvert viltu beina athyglinni á næsta ári? Er eitthvað sem vantar í lífið? Eða er kannski eitthvað sem er kominn tími til að sleppa tökunum af? Hvað kallar á þig?

Árið 2023 nálgast óðfluga. Áramót marka ákveðin skil. Ný hringrás er hafin. Oft tíðkast að nota þennan tímapunkt til að stíga á stokk og strengja áramótaheit. Markmið eru sett sem stundum virka vel en oft eru líka gleymd eftir nokkra daga eða vikur.

Ég hef gaman af að setja mér markmið og oft hefur það hjálpað mér að ná árangri að hafa skýra sýn hvert ég er að stefna. Með tímanum hafa þó áramótamarkmið vikið fyrir aðeins annarri nálgun, sem er að velja mér orð fyrir árið. Ég vel mér orð (eitt eða fleiri) sem að ná utan um þær áherslur sem ég vil hafa á komandi ári og gagnast sem leiðarljós í því hvernig ég nálgast þau verkefni sem eru framundan.

Stundum finn ég að mig langar í meiri virkni. Að búa til ný ævintýri, vera djörf og þora að láta vaða. Stundum kallar sálin á hvíld og stíga aðeins til baka. Einfalda lífið. Ég vel því orð í samræmi við hvar ég er stödd hverju sinni.

Sú aðferð að velja sér orð, frekar en að strengja áramótaheit, sem stundum eru ströng og ófrávíkjanleg, býður upp á meiri sjálfsmildi. Ferlið við að velja sér orð getur líka verið mjög skemmtilegt.

Ég byrjaði fyrst að velja mér orð þegar ég rakst á erlenda konu í netvafri, sem kynnti ákveðna aðferðafræði við að velja sér orð og deildi frítt með þeim sem vildu vera með í verkefninu. Ég nýtti mér þennan hóp í þrjú ár en svo kom að því að mig langaði frekar að velja mér orð á íslensku en ensku. Og þá kviknaði sú hugmynd að byggja á þessari aðferð, en búa til mínar eigin leiðbeiningar á íslensku. Mig langaði að vinna þetta í samfélagi með öðrum og brá því á það ráð að búa til lítið „mini“ námskeið sem er keyrt í gegn um Facebook hóp á vegum Transformia. Allt samt frítt og í raun opið öllum sem hafa áhuga. Það má segja að þetta sé svona smá jólagjöf litla fyrirtækisins míns sem ég sendi út í kosmóið á hverju ári og treysti á að þeir sem þurfi á því að halda rambi á hópinn.

Árið í ár er fimmta árið sem ég bý til hóp fyrir þá sem vilja finna „orðið sitt“ fyrir komandi ár. Um er að ræða fjórar æfingar, eina á dag, fjóra daga í röð, sem hver tekur innan við klukkutíma að vinna. Ef öllum skrefum er fylgt ættir þú að vera komin með orðið/orðin þín í lok fjórðu æfingarinnar.

Í ár langar mig að víkka út netið og stækka hópinn. Ég býð því öllum þeim sem lesa þennan pistil, og finnst þetta áhugavert verkefni, að kíkja á Facebook síðu Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð, og óska eftir inngöngu í hópinn (eða leita beint að hópnum þar undir heitinu: Orðið mitt 2023).

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
08. júní 2024 | kl. 14:50