Fara í efni
Pistlar

Galdrarnir eru enn í skóm Söndru María

Sandra María Jessen er komin á blað í Bestu deildinni; hún gerði þrjú mörk á Reyðarfirði í kvöld. Mynd: Ármann Hinrik

Sandra María Jessen, markadrotting Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í fyrra, minnti hressilega á sig í kvöld þegar Þór/KA sigraði lið FHL 5:2 í fimmtu umferð deildarinnar. Hún hafði ekki náð að skora í fjórum fyrstu leikjunum en gerði þrjú mörk á Reyðarfirði í kvöld. Hafi einhver haft áhyggjur af því að Sandra María væri búin að gleymi þeirri list að koma boltanum í netið sýndi hún fram á í kvöld að svo er ekki!

FHL er sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis og viðureignin fór fram í Fjarðabyggðahöllinni á Reyðarfirði.

Leikurinn var fjörugur í meira lagi. Austfirðingarnir byrjuðu betur og ekki voru nema fimm mínútur liðnar þegar Hope Santaniello fékk dauðafæri en Jessica Grace Berlin í marki Þórs/KA var ekki í neinum vandræðum með að verja ótrúlega lélegt skot.

Leikmenn FHL sköpuðu hættu í tvígang til viðbótar á fyrstu 12 mínútunum en síðan má segja að Stelpurnar okkar í Þór/KA hafi að mestu tekið völdin.

  • Sandra María Jessen braut ísinn á 15. mínútu – þegar 14 mínútur og sjö sekúndur voru liðnar. Hulda Björg Hannesdóttir átti þá langa sendingu inn á vítateig, Margrét Árnadóttir barðist um boltann við tvo varnarmenn, hann hrökk til Söndru sem var aðþrengd utarlega í vítateignum en náði að skora. Vel að verki staðið og ekki að undra að leikmenn Þórs/KA hafi fagnað fyrirliða sínum innilega fyrir að vera komin í blað.
  • Þór/KA komst í 2:0 aðeins einni og hálfri mínútu síðar. Eftir frábæran undirbúning vinstri bakvarðarins Bríetar Jóhannsdóttur potaði Sonja Björg Sigurðardóttir boltanum í markið úr markteignum. Þá voru 15 mín. og 35 sek. liðnar af leiknum. Þetta var fyrsta mark Sonju Bjargar í efstu deild Íslandsmótsins.
  • Karen María Sigurgeirsdóttir kom Þór/KA svo í kjörstöðu á 37. mínútu þegar hún bætti þriðja markinu við með laglegu bogaskoti frá vítateig. Boltinn fór í þverslána og þaðan inn fyrir marklínuna; aðstoðardómarinn var viss í sinni sök.

Karen María fór af velli fljótlega eftir markið vegna smávægilegra meiðsla og leysti Amalía Árnadóttir hana af hólmi.

  • Rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins lagaði Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir stöðuna fyrir lið FHL. Skot hennar utan teigs – sem líktist reyndar frekar fyrirgjöf en skoti – sveif yfir Jessicu Berlin markvörð og í netið.

Slapp með skrekkinn

Ótrúlegt atvik átti sér stað fáeinum andartökum áður en markaskorarinn fékk boltann; Hulda Björg, varnarmaður Þórs/KA, og Hope Santaniello áttust við inni í vítateig og sú síðarnefnda sló Huldu hressilega svo hún féll við. Hope var stálheppin að hvorki dómari ná aðstoðardómari sáu hvað gerðist.

  • Sandra María kom Þór/KA í 4:1 með með þrumuskoti úr vítateignum eftir góðan sprett, þegar klukkutími var liðinn af leiknum og nokkuð ljóst að Þór/KA færi á brott með öll þrjú stigin.
  • Þegar korter var eftir fengu heimamenn svo vítaspyrnu sem Aida Kardovic skoraði úr, minnkaði muninn í 4:2. Þetta var á 78. mínútu.

Bríet óheppin

Vítið var dæmt á Bríeti Jóhannsdóttur og hún fékk að líta rauða spjaldið að auki – var rekin af velli. Björg Gunnlaugsdóttir náði boltanum á eigin vallarhelmingi og tók á rás í átt að marki Þórs/KA, Bríet elti hana uppi og við vítateigslínuna datt Björg. Gunnar Oddur Hafliðason dómari var stutt frá atvikinu, dæmdi víti og dró upp rauða spjaldið, en á myndbandsupptöku er ekki að sjá að Bríet komi neitt við andstæðinginn. Og gott ef „brotið“ átti sér ekki stað rétt utan vítateigs.

  • Sandra María fullkomnaði þrennuna nokkrum mínútum fyrir leikslok. Eftir laglegan undirbúning Huldu Óskar og Amalíu á hægri kantinum sendi Hulda á Söndru sem þrumaði í netið af markteig.

Þór/KA vann fyrstu tvo leikina í deildinni en tapaði næstu tveimur. Eftir fimm umferðir er liðið nú með níu stig í fjórða sæti, einu stigi á undan Val sem tapaði fyrir Þrótti á heimavelli í kvöld.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45

Serie A

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 11:30

Uppá eldhússkápnum

Jóhann Árelíuz skrifar
04. maí 2025 | kl. 10:00

Heilbrigt vantraust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. maí 2025 | kl. 06:00

Njósnir í skólastofunni

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
03. maí 2025 | kl. 07:45