Fara í efni
Pistlar

Framtakssemin og einkaframtakið

Marga dreymir um að vera sjálfs sín herra í lífinu. Við sjáum þennan vilja oft snemma hjá börnunum okkar og m.a. í því að alltof snemma að okkar mati vilja þau ráða ýmsu í umhverfi sínu og eru uppátækjasöm.

Ég á dóttur sem er einstaklega sjálfstæð og framtakssöm. Um daginn var ég búin að kaupa suðusúkkulaði og rjóma því ég átti von á vinkonu í kaffi. Ætlaði að baka vöfflur, þeyta rjóma og hita te. Þetta yrði notaleg stund sem ég hlakkaði til. Þegar ég kom heim úr vinnunni þennan dag mætti ég dóttur minni í dyrunum. Hún sagði mér að það væri súkkulaðimús fyrir mig í ísskápnum – hún hefði græjað hana fyrir okkur, hvort ég ætti ekki von á heimsókn? „Nú, nú, takk fyrir“ sagði ég annars hugar en svo rann upp fyrir mér ljós. „Notaðirðu suðusúkkulaðið og rjómann sem ég keypti í gær?“ „Já, ætlaðirðu að nota það í eitthvað annað?“ spurði unga daman. „Uuuu ... já, ég býð ekki upp á súkkulaðimús með miðdagsteinu! Súkkulaðimús er eftirréttur!“ Það var ekki hennar vandamál, hún dreif sig á æfingu eftir að hafa fengið óþarflega langa lesningu um vandann sem hún var búin að koma mér í, því ekki hafði ég tíma til að fara í búðina enda vinkonan rétt ókomin.

Með einmitt svona framtakssemi láta margir drauma sína rætast og ráðast í að stofna fyrirtæki út frá áhugasviði sínu og tækifærum í umhverfinu. Þeir horfa á hráefnin í eldhússkápnum og sjá eitthvað sem aðrir sjá ekki. Þeir sem fara þessa leið í lífinu vita sem er að þeir geta þurft að leggja mikið á sig til að tryggja afkomu sína. Langir vinnudagar, lítill veikindaréttur, lág laun til að byrja með o.s.frv. En á móti kemur sveigjanleikinn og oft er hægt að umbuna sér ef vel gengur – sumir ganga lengra í þeim efnum en aðrir og eru gagnrýndir fyrir.

Einkaframtakið birtist okkur mjög skýrt í hótel- og veitingageiranum sem og verslunargeiranum. Sum fyrirtæki þar spretta vissulega frá stórum fyrirtækjum en mörg eru lítil fjölskyldufyrirtæki til að byrja með. Nú um stundir horfum við á þessi fyrirtæki berjast við að halda lífi. Fólk missir vinnuna og álag eykst á eigendur. En það er ekki allt slæmt því þeir sem virkilega eru í þessum rekstri af áhuga og vilja til að vera áfram eigin herrar virkja hugmyndaflugið, framtakssemina og nýsköpunina. Þeir laga sig að aðstæðum og bjóða upp á nýjungar vegna þess að það er nauðsynlegt til að lifa af. Þeir eiga hrós skilið því afraksturinn er að við hin getum áfram gert okkur dagamun þrátt fyrir strangar samkomureglur og tilbreytingarleysi þessa dagana. Fengið heimsendar vörur og mat sem ýmist er tilbúinn eða hálftilbúinn. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá samstöðuna í síðustu viku þegar veitingamenn tóku upp á að mæla hver með öðrum og hvetja fólk til að eiga viðskipti við samkeppnisaðilana. Það fannst mér til fyrirmyndar.

Að lokum vil ég segja þetta. Við megum ekki slá á puttana á börnunum okkar þó það sé ekki alltaf hentugt fyrir okkur þegar þau sýna frumkvæði og framtakssemi. Með því skemmum við frumkvöðla framtíðarinnar.

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni!“

Luton Town – af upprisu

Arnar Már Arngrímsson skrifar
29. maí 2023 | kl. 12:00

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Hús dagsins: Grundarkirkja

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 19:00

Skógar og ásýnd lands

Sigurður Arnarson skrifar
27. maí 2023 | kl. 16:00

Ýviður Taxus baccata, L.

Sigurður Arnarson skrifar
24. maí 2023 | kl. 19:00

Vélmennin

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 15:00