Fara í efni
Mannlíf

VMA orðið leikhús og mikil Grís-stemning

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, og Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar, voru í Grís-stuði í gær!

Óhefðbundið andrúmsloft var í Verkmenntaskólanum á Akureyri í gær og minnti að ákveðnu leyti á stemninguna í Rydel High skólanum í Kaliforníu árið 1959! Haldinn var Grísdagur, í tilefni þess að söngleikurinn Grís verður frumsýndur í næstu viku. Leikhópurinn steig á svið og skemmti viðstöddum með sýnishorni úr verkinu. Söngleikurinn Grease var frumsýndur 1971 en sjö árum síðar var gerð kvikmynd, byggð á söngleiknum, þar sem John Travolta og Olivia Newton-John fóru með aðalhlutverk - og eru mörgum enn í fersku minni. 

„Við ákváðum að taka forskot á sæluna og hvetja alla til að mæta í búningum. Kennarar og aðrir starfsmenn tóku þátt og einhverjir nemendur. Svo sýndum við atriði úr sýningunni fyrir nemendur og starfsfólk,“ segir Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri skólans, sem leikstýrir sýninguni.

„Þetta er líka gert þar sem sýningin verður í skólanum eftir margra ára hlé og hefur skapast mikil stemning við að breyta skólanum í leikhús. Það er unnið nánast dag og nótt enda hvergi slegið af kröfunum,“ segir Pétur.

Leikhópurinn hóf æfingar á fjarfundum fyrir áramót en hefðbundnar æfingar fóru í gang af fullum krafti 3. janúar. Frumsýning er eftir viku, föstudaginn 19. febrúar, og er uppselt á þá sýningu. „Það er greinilega kominn tími á að setja upp þennan vinsæla söngeik því viðtökur eru góðar eftir að miðasala fór í gang í þessari viku,“ segir Pétur. 

Leikarar í Grís sýndu samnemendum sínum og starfsfólki brot úr söngleiknum í skólanum í gær.

Rósa Margrét Húnadóttir klæddi sig upp á í tilefni Grís-dagsins. Rósa Margrét er þjóðfræðingur og starfar á skrifstofu VMA.