Fara í efni
Fréttir

Viðjulundur: Breytt útlit frá fyrri tillögu

Tvö fjölbýlishús, fimm og sex hæða, eins og þau birtast í nýjustu gögnum í meðferð skipulagsráðs og bæjarstjórnar. Hér er horft til suðurs eftir Skógarlundinum.

Bæjarstjórn samþykkti í vikunni með níu samhljóða atkvæðum, að tillögu skipulagsráðs, að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi í tengslum við áform um byggingu tveggja fjölbýlishúsa við Viðjulund 1.

Gera má ráð fyrir að þessi samþykkt bæjarstjórnar sé hluti af lokahnykknum í skipulagsþætti málsins og því styttist í framkvæmdahlutann.  Jón Hjaltason bæjarfulltrúi greiddi atkvæði á móti tillögunni og hefur meðal annars gagnrýnt hæð húsanna og breytt skilyrði varðandi fjölda íbúða. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Nær þriggja ára ferli og nýir eigendur

Málið hefur verið til meðferðar frá því í desember 2022 þegar fyrst var fjallað um umsókn Klettabjargar um breytingu á deiliskipulagi til að heimila byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðinni. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að málið var fyrst sett fram eru nýir framkvæmdaaðilar komnir að verkinu. Í febrúar á þessu ári var tilkynnt um kaup Skálabrúnar, dótturfélags KEA, og Húsheildar-Hyrnu á lóðinni af fyrri eigendum sem hófu undirbúning að byggingu fjölbýlishúsanna.

Í tilkynningu fyrirtækjanna í febrúar kom fram að hönnunarforsendur yrðu endurmetnar og að vonast væri til að hægt yrði að hefja framkvæmdir á lóðinni strax í sumar, ef öll undirbúningsvinna og hönnun gengi að óskum. Það hefur reyndar ekki gengið eftir, en nú hyllir undir lok skipulagsferlisins í tengslum við þessi byggingaráform. Í gögnum sem fylgja nýjustu tillögunni að breyttu deiliskipulagi er hins vegar unnið með gjörbreytt útlit bygginganna frá því sem fyrst var sett fram, eins og myndirnar hér að neðan sýna. 

Myndir úr nýjustu tillögunni að breyttu deiliskipulagi. Á myndinni til vinstri er horft til suðurs, en á myndinni til hægri er horft úr Hrísalundi til vesturs. Eins og sjá má er gert ráð fyrir aðkomu á bílastæði og í bílakjallara úr Skógarlundinum, gegnt Hrísalundi. Skjáskot úr skipulagsgögnum.

Á þessum myndum má sjá upphaflegu hugmyndirnar sem unnið var með og breytingar sem urðu á hæðum bygginganna og aðkomu að bílastæði og bílakjallara í skipulagsferlinu. Eins og sjá má á efri myndunum er nú unnið með gjörbreytt útlit, auk þess sem töluverð breyting hefur orðið á inn- og útkeyrsluleiðum á bílastæði og í kjallara. Skjáskot úr skipulagsgögnum.

Upphaflega var gert ráð fyrir aðkomu úr Furulundi inn á bílastæði við húsin, en úr Skógarlundi inn í bílakjallara. Í nýjustu tillögunni er hins vegar gerð sú breyting að inn- og útkeyrsla fyrir bæði bílastæði og bílakjallara verður úr Skógarlundinum, gegnt Hrísalundi. Þá eru gerðar breytingar til að bregðast við niðurstöðum vindgreiningar sem sýndu óæskileg áhrif á göngustíg norðan lóðarinnar, auk minniháttar breytinga á svölum og djúpgámum.

Frá því að auglýsingatíma síðustu tillögu lauk 2. október hafa verið gerðar breytingar varðandi ákvæði um fjölda íbúða. Fellt hefur verið út ákvæði um uppgefinn fjölda íbúða í hvoru húsi en þess í stað miðað við hámarksfermetrafjölda, og í stað uppgefins fjölda bílastæða verði miðað við þann fjölda bílastæða sem umfang húsanna krefjist miðað við þær forsendur að eitt bílastæði verði á hverja íbúð sem er allt að 75 fermetrar að grunnfleti, eitt og hálft bílastæði á hverja íbúð á bilinu 76-105 fermetrar og tvö stæði á hverja íbúð sem er 106 fermetrar eða stærri.

„Geta sett lepp fyrir bæði augu“

Jón Hjaltason (óflokksbundinn) gagnrýndi að í skipulagsferlinu hafi sú breyting orðið að fallið hafi verið frá ákvæði um hámarksfjölda íbúða í byggingunum, sem átti að vera 36 íbúðir, en upphaflega hafi hönnunarrök snúið að því að hámarksfjöldi íbúða myndi tryggja sem flestum íbúðum birtu úr þremur áttum. Jón nefndi í ræðu sinni á bæjarstjórnarfundinum að hvergi komi fram í gögnum málsins að þarna eigi að vera 51 íbúð. 

Jón hefur einnig bent á að þessar byggingar falli ekki vel að næsta umhverfi. „Menn geta svo sem sett lepp fyrir bæði augu og sagt: „Þetta fellur mjög vel að.“ En allir sem horfa á þetta af skynsamlegu viti sjá að fimm og sex hæða blokkir falla afskaplega illa að því umhverfi sem þarna er fyrir,“ sagði Jón meðal annars í umræðum um málið á fundi bæjarstjórnar og benti á að ekki aðeins væri um fimm og sex hæða hús að ræða heldur stæðu þau einnig hærra en þau fjölbýlishús sem standa handan Skógarlundarins.

Hér má sjá umræður og afgreiðslu bæjarstjórnar á málinu síðastliðinn þriðjudag:

Gamli bærinn víkur

Eins og áður hefur komið fram í umfjöllun akureyri.net fylgir þessari framkvæmd að gamli bærinn Lundur verður rifinn, sem samtökin Arfur Akureyrar hefur mótmælt ítrekað við meðferð málsins, án árangurs, að því er virðist. Fátt virðist nú standa í vegi þess að þarna rísi tvö fjölbýlishús í stað gamla bæjarins.