Fara í efni
Fréttir

VG: Ekki víst að Bjarkey þiggi sæti á listanum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður og formaður þingflokks VG, sem varð í öðru sæti forvals flokksins vegna alþingiskosninganna í haust, segist vera að velta framhaldinu fyrir sér. Hún er ekki ákveðin í því hvort hún þiggi annað sæti á listanum eða dragi sig í hlé.

„Þetta eru mér ákveðin vonbrigði, það er það fyrsta sem ég get sagt,“ sagði hún við Akureyri.net. „Kjörskráin bólgnaði dálítið, þannig að drjúg smölun hefur verið í gangi hjá fólki en þetta er eitthvað sem maður verður að horfast í augu við; maður á ekki neitt í pólitík,“ sagði Bjarkey, spurð hvort hún kynni einhverjar skýringar á úrslitunum.

Spurð um framhaldið svarar Bjarkey: „Ég velti fyrir mér framhaldinu, þetta var bara að gerast þannig að ég þarf að hugsa minn gang.“

Hún svarar því játandi þegar spurt er hvort hún velti því fyrir sér að þiggja ekki sæti á listanum. „Já, ég er að velta því fyrir mér. En þegar maður er svekktur er alltaf gott að anda aðeins í kviðinn og ræða við sitt fólk í rólegheitum.“