Um mannanöfn – Úr fórum Gísla Jónssonar

SÖFNIN OKKAR – 92
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Úr fórum Gísla Jónssonar menntaskólakennara
Safngripur vikunnar að þessu sinni er úr spjaldskrá Gísla Jónssonar um íslensk mannanöfn en sagt var hann var hafi verið manna fróðastur um það efni.
Allir sem þekktu Gísla minnast hans af hlýju og þakklæti og margir skrifuðu minningarorð um hann þegar hann lést. Einn þeirra var Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, en hann skrifaði m.a.:
Á Amtsbókasafninu á Akureyri er svolítið herbergi sem áður var skrifstofa héraðsskjalavarðar en var hin seinni ár ýmist kallað ,,Smugan” eða ,,Cubiculum magistrorum” þegar mikið var haft við. Þar átti Gísli Jónsson sæti sitt um langt árabil og þar var hann dag hvern að undanskildum tveimur eða þremur dögum á ári um jól og páska. Þar skrifaði hann pistla sína um íslenskt mál og vann að öðru því sem hugur hans stóð til. Þar voru þykkar bækur um nafnafræði og sú ómetanlega spjaldskrá hans um mannanöfn sem hann gaf Héraðsskjalasafninu og Amtsbókasafninu um áramótin síðustu. Einnig voru þar ritvélin Kristjana og tölvan Raflína.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skrifaði Gísli ýmsan fróðleik um nöfn í spjaldskrána, þar á meðal merkinguna og tíðni í manntölum 1703, 1801, 1816, 1845 og 1855.
Gísli var lítið fyrir afmælistilstand en hann fæddist 14. september 1925 á Hofi í Svarfaðardal eða fyrir um 100 árum síðan. Hann lést 26. nóvember 2001.
Þess má geta að ,,Smugan” var á milli kaffistofu starfsfólks og geymsluherbergis sem gekk undir nafninu Barentshaf. Smugan og Barentshaf hurfu í því umróti sem fylgdi stækkun húsakynna Amtsbóksafnsins og Héraðsskjalasafnsins í upphafi aldarinnar.
- Vert er að benda á að akureyri.net minntist Gísla Jónssonar 14. september síðastliðinn – sjá hér: