Fara í efni
Menning

Efniskostnaður í búninga álfa og huldufólks

SÖFNIN OKKAR – 105

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Skjal dagsins kemur úr skjalasafni Íþróttafélagsins Þórs sem Héraðsskjalasafnið varðveitir. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. er þar að finna þetta blað.

Á blaðið hefur verið skrifað: 

Kostnaður við Álfadansinn

Efni í slag • 6.65 – 3.90 m. á 1/85

Efni í kirtil • 6.48 – 3.50 -″ 1/85

Vinsli • 0.75 – 3 stk. ″ 0/25

Efni í kirtil • 9.00 – 5 m. ″ 1/85

Garn í sokka • 1.80 – 1 hespa 0/85

Prjóna á sokkum • 1.00

Hvítt vatt • 0.75 – ½ pk. ″ 0/75

Krókapör • 2.00

Saumaskapur • 15.00

Lín • 0.80

Gylltur pappír • 0.45

Glerhnappar • 3.76 – 25 stk. ″ 0/15

Millifóður • 0.68 -

Svört leggingarbönd 1.94

Samt. kr. 51.05 – 51.05

Blaðið er óárssett en meðliggjandi skjöl eru frá árunum 1939-1941 svo leiða má líkum að því að þetta blað sé frá svipuðum tíma. Allt bendir til að hér um að ræða efniskostnað í búninga þeirra sem léku álfa og huldufólk á álfadansinum.

Í Degi 10. janúar 1946 segir stuttlega frá álfadansi Þórs það árið:

Álfadans og brennu hafði Íþróttafélagið Þór á leikvelli félagsins þrettándakvöld jóla. –

Veður var hagstætt, svo að þátttakendur og áhorfendur gátu vel notði sín, enda þyrptist mesti sægur af fólki út á leikvanginn. Var þetta sérstæð og góð skemmtun, sem minnti á þjóðsögur og æfintýri.

Brennan var stór og tilkomumikil, en athygli manna beindist þó einkum að álfunum, sem liðu um hjarnið léttir í spori með leiftrandi jólablys.

Álfakóngi og drottningu var búið veglegt hásæti og kringum það skipuðu sér 13 ljósálfar og héldu kyndlunum hátt. Álfameyjar og álfasveinar, 38 samtals, slógu svo hring um ljósálfana og hófu dansinn. Nokkrir lúðrar voru þeyttir og konungur flutti ávarp á undan dansinum. Voru þarna sýndir margir, skipulega æfðir söngdansar, flestir þeirra íslenzkir vikivakar. Höfðu fimleikafl. Þórs æft þá í Íþróttahúsinu í vetur.

Formaður félagsins, Jónas Jónsson, var stjórnandi þessarar álfasveitar, og á hann og allir hans álfar þakkir skilið fyrir hressandi, fagra og þjóðlega skemmtun.

Næst þegar álfarnir koma fram á sjónarsviðið, mætti þó gjarna vera enn meira líf og fjör í söng þeirra og dansi. Ennfremur þyrfti áhorfendasvæðið að skipuleggjast betur, því að ýmsir gátur ekki séð vel það sem fram fór að þessu sinni.

Við lauslega athugun á timarit.is er að sjá sem Íþróttafélagið Þór hafi fyrst haldið álfadans árið 1925 en einhverjar heimildir eru fyrir árinu 1915. Eftir 1925 var álfadans/þrettándagleði haldinn af og til en 1943-1970 var haldinn álfadans/þrettándagleði á tveggja ára fresti. Frá 1971 var þrettándagleðin haldin nánast árlega allt fram til 2021 og 2022, þegar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 voru í gildi.

Dagur - 2. tölublað (10.01.1946) - Tímarit.is hlekkur á greinina í Degi.