Fara í efni
Menning

Skúlptúrar Margrétar, Guðrún og Matthías

Guðrún Runólfsdóttir - skúlptúr Margrétar Jónsdóttur.

SÖFNIN OKKAR – 106

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Margrét Jónsdóttir
Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson
2025
Tveir skúlptúrar úr steinleir

Margrét Jónsdóttir leirlistakona er fædd á Akureyri árið 1961. Hún fór ung til Danmerkur og lærði leirlist í listiðnaðarskólanum í Kolding, en eftir námið sneri hún aftur heim og stofnaði sitt eigið leirverkstæði í bílskúrnum hjá ömmu sinni í Hamragerði. Viðfangsefni Margrétar hafa verið margvísleg í gegnum tíðina og hún hefur unnið jöfnum höndum að gerð nytjalistar, stærri listmuna og listskreytinga. Í meira en tvo áratugi hefur hún starfrækt vinnustofu að Gránufélagsgötu 48 á Akureyri þar sem hún bæði vinnur að listsköpun sinni og selur muni í gallerýi sem þar er jafnframt að finna. Margrét hefur haldið fjölda einkasýninga og einnig tekið þátt í allmörgum samsýningum hér heima og erlendis.

Matthías Jochumsson - skúlptúr Margrétar Jónsdóttur.

Margrét fagnaði fjörutíu ára starfsferli á árinu 2025 og var með einkasýningar bæði í Listasafninu á Akureyri og í Flóru menningarhúsi í Sigurhæðum. Sýningin í Listasafninu samanstóð af ólíkum verkum sem fengin voru að láni víðs vegar að, fundin í krókum og kimum, spönnuðu fjörutíu ára starfsferil listakonunnar og voru framsett með hljóði og innsetningu vídeoverks. Saman birtust þau gestum sem ein stór innsetning.

Fyrir sýninguna í Sigurhæðum vann Margrét aftur á móti ný verk sérstaklega inn í sýningarrýmið og sótti innblástur í fjölskyldumyndirnar sem hanga þar á veggjum. Á meðal þeirra fyrrum ábúenda í Sigurhæðum sem eignuðust nýtt líf í keramikverkum Margrétar voru hjónin Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson og samþykkti Listasafnsráð kaup á þeim tveimur að sýningartíma liðnum og eru þau því orðin hluti af safneign Listasafnsins á Akureyri, sem er mikið fagnaðarefni.

Þess má geta að húsið Sigurhæðir er í dag í eigu Akureyrarbæjar, en þar er rekið menningarhús undir stjórn Kristínar Þóru Kjartansdóttur þar sem stuðlað er að listsköpun og menningarstarfi. Á Sigurhæðum er andrúmslofti menningarheimilis áratugina í kringum 1900 miðlað á aðlaðandi hátt og menningarsögu landsins mótunaráratugina þegar sú listasena og það velferðarsamfélag sem við lifum í í dag er að mótast og þróast. Verk Margrétar tengja á fínlegan hátt við þessa fjölþættu sögu landsmanna og sérstæða þætti í heimilisbrag eins fyrsta listamannaheimilis okkar Akureyringa.

Daníel Starrason tók myndirnar.