Til varnar séra Friðriki

Nú um helgina, 25. maí, eru 157 ár liðin frá fæðingu séra Friðriks Friðrikssonar, mesta æskulýðsleiðtoga Íslands á 20. öld. Ég ásamt góðum hópi mætra manna; Júlíusi Kristjánssyni forstjóra Netagerðar Dalvíkur, séra Jóni Helga Þórarinssyni sóknarpresti á Dalvík, og Halldóri Blöndal samgönguráðherra og alþingismanni, stóðum að því að reisa minnisvarða um séra Friðrik á fæðingarstað hans, Hálsi í Svarfaðardal, sem var afhjúpaður 10. september 1995, og vildum með því heiðra minningu og ævistarf hans. Biskupshjónin séra Sigurbjörn Einarsson og Magnea Þorkelsdóttir voru viðstödd afhjúpun minnisvarðans.
Það hefur því verið þyngra en tárum taki að fylgjast með þeirri ófrægingarherferð gegn æru og heiðri séra Friðriks sem náði hámarki með þeirri lágkúrulegu ákvörðun borgaryfirvalda að fjarlægja styttu af honum í miðborg Reykjavíkur vegna aðdróttana sem fram komu í bók Guðmundar Magnússonar, enda eru slík vinnubrögð manns, sem kallar sig sagnfræðing, hvorki fagleg né hlutlaus þar sem hann hefur gróusögur sem heimildir. Í kjölfarið var æra séra Friðriks dæmd án dóms og laga, án þess að fram færi heiðvirð og eðlileg rannsókn frá báðum hliðum.
Jón Oddgeir Guðmundsson við minnisvarðann um séra Friðrik á fæðingarstað hans, Hálsi í Svarfaðardal.
Eftir áratugastarf mitt hjá KFUM og KFUK voru það mér afar mikil vonbrigði að félagið stæði ekki með stofnanda sínum, séra Friðrik, og brautryðjendastarfi hans í æskulýðsmálum og kristilegu starfi í þeirri orrahríð, og leyfðu honum ekki að njóta vafans þegar að honum var sótt með nafnlausum árásum huldufólks. Einnig var afar dapurlegt að Reykjavíkurborg skyldi strax fella dóma með því að fjarlægja styttuna og koma henni fyrir í geymslu. Það er aldrei gott þegar sagan er endurrituð með slíkum hætti.
Það hefur verið afar gagnlegt að lesa greinar manna sem bæði þekktu séra Friðrik og áttu samleið með honum jafnt í æskulýðsmálum og í kristilegu starfi, manna sem vilja standa vörð um minningu hans og tel ég afar mikilvægt að tjá mína skoðun hér með, og taka undir með þeim séra Valgeiri Ástráðssyni, séra Halldóri Gunnarssyni og Jóni Magnússyni, fyrrum alþingismanni, jafnt í greinaskrifum í Morgunblaðinu og í góðu viðtali við Jón í þættinum Spursmálum á mbl.is.
Fátt hefur valdið mér meiri vonbrigðum en afstaða stjórnar KFUM og KFUK í þessu máli. Að trúa frekar nafnlausum gróusögum en leita sannleikans í málinu. Samin er afar rýr skýrsla sem þó fæst ekki birt, henni var stungið undir stól. Félagið er á algjörum villigötum að mínu mati, og stendur ekki lengur jafn sterkt og það gerði allt frá stofnun undir forystu séra Friðriks. Það hefur tapað miklum trúverðugleika og veikst til muna að mínu áliti og fjölda annarra sem ég hef rætt við og starfað með um árabil í kristilegu starfi.
Von mín er sú að réttlætið sigri í þessu máli og styttunni af séra Friðrik verði aftur komið fyrir á sínum stað í miðborg Reykjavíkur. Við annað er ekki hægt að una. Látum ekki gróusögur huldufólks ráða för í þessu máli.
Jón Oddgeir Guðmundsson var í áratugi í stjórn KFUM á Akureyri og svo í stjórn KFUM og K eftir sameiningu félaganna á Akureyri og í stjórn landssambands KFUM og K um árabil


Tekin verði upp utanríkisstefna ESB

Sumarið sem kom á óvart

Að safna bílflökum

Fundur með eldri borgurum á Akureyri
