Fara í efni
Umræðan

Þingmál um hjartaþræðingar á Akureyri

Í dag lagði ég fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að Sjúkrahúsinu á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar. Það er ánægjulegt að fjölmargir meðflutningsmenn úr öllum flokkum eru á tillögunni, þ.m.t. allir þingmenn Norðausturkjördæmis. Sú breidd ætti að auka líkur á að greiða fyrir málinu.

Eitt af markmiðum í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri til ársins 2021 var að taka upp hjartaþræðingar við sjúkrahúsið. Árið 2018 var sjúkrahúsinu færður styrkur til þess að kanna fýsileika þessa og ári síðar voru niðurstöður fýsileikakönnunarinnar gefnar út í skýrslu sem unnin var af sænska heilbrigðisráðgjafafyrirtækinu Sirona Health Solutions. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru að ákjósanlegt væri að taka upp hjartaþræðingar við sjúkrahúsið.

Það myndi auka jöfnuð og aðgengi að meðferðum við hjartasjúkdómum á Íslandi og styrkja heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi en nauðsynlegt væri að tryggja samstarf við Landspítala og erlent hátæknisjúkrahús til að tryggja gæði meðferðar. Aðstaða til hjartaþræðinga á sjúkrahúsinu myndi jafnframt auka getu þess sem varasjúkrahúss á Íslandi. Skýrslan var kynnt fyrir ráðuneytinu haustið 2019 en engin formleg viðbrögð bárust við skýrslunni frá ráðuneytinu. Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru var verkefnið lagt til hliðar, þrátt fyrir margvísleg rök fyrir því að taka upp hjartaþræðingar á sjúkrahúsinu.

Verði hjartaþræðingar teknar upp á Sjúkrahúsinu á Akureyri má leiða líkur að því að þörf fyrir sjúkraflug minnki talsvert sem og sá kostnaður sem fellur til vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklings og aðstandenda sem í mörgum tilvikum fellur a.m.k. að hluta til á einstaklingana sjálfa. Leiða má líkur að því að íbúar á upptökusvæðinu kæmust mun fyrr í hjartaþræðingu sem auka mun batalíkur til muna og lífsgæði sjúklinga og þannig mætti lækka afleiddan kostnað einstaklinga og ríkis í kjölfar hjartaáfalls. Þá eru aðgerðir af þessu tagi sem fram fara utan Reykjavíkur liður í að auka lífsgæði fleiri landsmanna og færa heilbrigðisþjónustuna nær því að jafna aðstöðu allra landsmanna, líkt og kveður á um í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.

Það er nauðsynlegt að hefja undirbúning að því að gera Sjúkrahúsinu á Akureyri kleift að framkvæma hjartaþræðingar.

Logi Einarsson er þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Er ofbeldi gagnvart eldri borgurum vandamál á Íslandi?

Björn Snæbjörnsson og Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifa
23. október 2025 | kl. 14:00

Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast

Heiðrún Hafdal skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

„Í augsýn er nú frelsi …

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
23. október 2025 | kl. 10:00

Krónan býr sig ekki til sjálf

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
21. október 2025 | kl. 22:30

Laugaskóli í Þingeyjarsýslu 100 ára

Benedikt Sigurðarson skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Hafa foreldrar skoðun á leikskólagjöldum og skráningardögum?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
14. október 2025 | kl. 15:30