Fara í efni
Pistlar

Þessi þjóð er farin í hundana

Gelt er frekar óþægilegt hljóð. Jafnvel á pari við hnegg, sem er eitt það allra mest hrollvekjandi sem fyrir hlustir ber. Reyndar getur gelt verið allt frá meinlausu bofsi sætra seppa upp í ógnandi hávaða frá stæðilegum varðhundum og þar á milli er óþolandi ískur og surg í kjölturökkum. En hver er að kvarta? Hundurinn er besti vinur mannsins og hefur fylgt honum frá örófi alda. Og nú eru hundar orðnir fleiri en börn í mörgum hverfum og mér sýnist líka sem kettirnir séu á undanhaldi þannig að sennilega er þetta hundaæði komið til að vera.

Við hjónin brugðum okkur austur á dögunum og hittum á stuttu ferðalagi þrjá vinalega og hljóðlausa hunda sem gáfu sig að okkur. Einn var í Sænautaseli, annar á Eiðum og sá þriðji á Teigi í Vopnafirði. Allt frekar stórir hundar en elskulegir og ráku ekki upp bofs. Þessi á Eiðum var á göngu með eiganda sínum og togaði í bandið því hann vildi gjarnan heilsa upp á okkur. Eigandinn sagði það óvenjulegt og kæmi örsjaldan fyrir en hundurinn virtist spotta hverjir væru líklegir hundavinir.

Gott og vel. Ég hef alltaf verið dýravinur hinn mesti en svo komum við heim aftur og smáhundarnir í hverfinu tjáðu óhamingju sína með hvellu gelti. Svo er einn sem fer sérstaklega í taugarnar á okkur því á klukkutíma fresti fer eigandinn út að reykja frá því fyrir sjö á morgnana og stundum fram yfir miðnætti og meðan hann er sjúga sígarettuna með andlitið ofan í símanum geltir rakkinn eins og vitlaus og aldrei virðist nein tilraun gerð til að þjálfa eða ala kvikindið upp. Þannig að... já, hundavinur en samt finnst mér að sumt fólk ætti bara ekkert að vera með hund á sínum snærum.

Svo eru það þeir sem fara út að ganga með barnið í vagninum og hundinn í bandi, höfuðtól á eyrunum og nefið ofan í símanum. Merkilegt atferli. Aðrir eru þó bara með hund en öfugt við það sem ég hef t.d. kynnst á Tenerife og Krít þá eru ca 67% hunda á Íslandi óstýrilátir á göngu og þarf að toga í þá til þess að þeir stökkvi ekki á vegfarendur sem þeir mæta á göngustígum. Hvað er þetta eiginlega? Er íslenska agaleysið líka ríkjandi í hundasamfélaginu?

Þessi þjóð er auðvitað stórundarleg. Mér skilst að stór hluti hundaeiganda flokkist undir afurð markaðssamfélagsins og þeir séu útsettir fyrir samanburði, tísku og snobbi og kaupi hunda sína dýrum dómum. Við erum jafnvel að tala um ungt fólk sem er að byrja að eignast börn og þá þarf allt í einu að fá hund til að leika við barnið eins og sjá má á öllum krúttlegu myndböndunum á YouTube. Svo gengur það ekki til lengdar og barnið vex frá þessu samlífi og þá er kannski keyptur annar hundur til að leika við hinn hundinn. Og eitthvað þarf þetta að kosta því ekki má maður vera ómerkilegri en Nonni í næsta húsi sem keypti sinn hvolp á 700 þúsund. Samanburður og samkeppni eru harðir húsbændur.

Svo langar mann að skreppa í sumarfrí. Æ og ó. Það sleppur að taka barnið með en hvað með hundinn? Og svo næsta frí, skrepp, fjarvera, heimsókn... hvað með hundinn? Já, góðir hálsar, hvað með hundinn? Getur verið að þessi þjóð hugsi dæmið ekki alltaf til enda?

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og kennari og dýravinur

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Reikningur vegna látins manns

Orri Páll Ormarsson skrifar
25. júlí 2025 | kl. 09:00

Sýprus

Sigurður Arnarson skrifar
23. júlí 2025 | kl. 09:00

Brilljantín

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. júlí 2025 | kl. 11:30

Garðsvík; gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
20. júlí 2025 | kl. 13:00

Uppgrip í Vaglaskógi

Jóhann Árelíuz skrifar
20. júlí 2025 | kl. 11:30