Fara í efni
Fréttir

Sveitarstjórn lýsir harmi vegna heimilis

Richardshús á Hjalteyri, þar sem hjónin Einar og Beverly ráku vistheimili á áttunda áratug síðustu a…
Richardshús á Hjalteyri, þar sem hjónin Einar og Beverly ráku vistheimili á áttunda áratug síðustu aldar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sveitarstjórn Hörgársveitar vill að fram fari opinber rannsókn á starfsemi vistheimilis fyrir börn sem rekið var á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar. Vísir greindi fyrst frá málinu um helgina og hefur áfram fjallað ítarlega um það síðan.

„Kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi tíðkaðist árum saman gagnvart börnum sem dvöldu hjá hjónum sem ráku barnaheimili á Hjalteyri í Hörgársveit á áttunda áratug síðustu aldar. Fólk sem þar var sem börn hefur ítrekað, án árangurs, reynt að ná eyrum yfirvalda til að fá heimilið rannsakað,“ sagði í fyrstu frétt Vísis um málið. 

Það voru hjónin Einar og Beverly Gíslason sem ráku umrætt heimili.

Sveitarstjórn Hörgársveitar sendi frá sér svohljóðandi yfirlýsingu síðdegis:

Sveitarstjórn Hörgársveitar lýsir yfir harmi sínum vegna þeirra átakanlegu lýsinga á málefnum barna sem fram hafa komið í fjölmiðlum undanfarna daga varðandi rekstur vistheimilis á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar.

Sveitarstjórnin tekur undir að fram þarf að fara opinber rannsókn á þessu heimili að frumkvæði ríkisins í samræmi við aðrar sambærilegar rannsóknir á öðrum heimilum þar sem börn voru vistuð.

Sveitarstjórnin mun leggja slíkri rannsókn lið eins og hægt er, fari hún fram.

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun Vísis um málið.