Hringtorg við Lónsá tekur á sig mynd

Síðastliðið vor hófust framkvæmdir við gerð hringtorgs á þjóðvegi 1 við gatnamótin hjá Lónsvegi norðan Akureyrar. Framkvæmdir hafa gengið vel, þrátt fyrir mikinn umferðarþunga, og verklok eru áætluð í lok október.
Það eru Nesbræður ehf. á Akureyri sem sjá um framkvæmdina, sem felst ekki bara í gerð hringtorgsins sjálfs og vegtenginga. Til dæmis þurfti að gera nýtt ræsi fyrir Lónsá undir þjóðveginn, beint undir nýja hringtorginu. Ásamt þessu var unnið að gerð nýrra göngustíga sem og nýrra tenginga við atvinnulóðir við hringtorgið.
Í frétt Vegagerðarinnar um framkvæmdina kemur einnig fram að breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sé stór þáttur í framkvæmdinni - meðal annars færsla og nýlagnir hitaveitu, auk strengja vegna götu- og stigalýsingar. Ásamt jarðvinnu vegna ídráttarröra rafveitu- og fjarskiptalagna.
Mikill umferðarþungi er á þessum vegarkafla og vegna framkvæmdanna í sumar hefur reynt á þolinmæði og tillitssemi ökumanna.
Eins og gefur að skilja er mikil bílaumferð um þjóðveginn, ekki síst yfir hásumarið. Samkvæmt Vegagerðinni má reikna með að um 7-8 þúsund bílar fari þarna um daglega og er vegurinn einn sá umferðarþyngsti norðanlands. Vegna framkvæmdanna hafa Nesbræður þurft að útbúa ýmiss konar hjáleiðir fyrir umferðina, auk þess sem umferðarhraði var lækkaður niður í 30 km/klst.
Að sögn Nesbræðra hefur umferðin á svæðinu heilt yfir gengið vel og ökumenn flestir sýnt tillitssemi og virt hraðatakmarkanir. Þó ekki allir og hjá einhverjum hefur vantað upp á þolinmæðina þegar vélar verktakans hafa verið að athafna sig. „Framúrakstur er því miður tíður á svæðinu, vélunum okkar er ekki gefinn séns og margir gefa í til þess eins að hleypa okkur ekki inn í umferðina og eða yfir veginn,“ sögðu Nesbræður á Facebook-síðu sinni fyrr í sumar.
Unnið er að lokafrágangi við nýja hringtorgið, vegtengingar og gönguleiðir.
En nú sér fyrir endann á verkinu, umferð verður brátt hleypt á fullgert hringtorgið og lokafrágangur kringum það á að klárast fyrir októberlok. Þar með verða þessi fjölförnu gatnamót orðin mun öruggari, ekki síst fyrir ört stækkandi íbúabyggð í Hörgársveit.
- Frétt akureyri.net frá því í maí, þegar framkvæmdir hófust: