Styttist í jólabjórinn og jólahlaðborðin
Það styttist í árlegan annatíma á veitingastöðum landsins í aðdraganda jóla með jólabjór, jólahlaðborðum og jólaseðlum. Jólabjórinn ríður á vaðið með J-daginn á föstudag, en það er dagurinn sem sala hefst á jólabjór Tuborg á öldurhúsum landsins.
J-dagurinn kemur frá Danmörku og markar upphaf þess að jólabjór Tuborg fer í sölu. Talað er um að snjórinn falli þennan dag sem er tilvísun í hvítu bjórfroðuna. Hefðin hefur skilað sér til Íslands og á Akureyri klingja jólabjöllur á flestum öldurhúsum kl. 20.59 á föstudaginn, víða með tilheyrandi tilboðum. Sala á jólabjór hefst hins vegar degi fyrr í Vínbúðinni eða þann 6. nóvember.

Jólabjór Tuborg fer í sölu á öldurhúsum landsins föstudaginn 7. nóvember. Því verður m.a. fagnað á Centrum, Backpackers og Berlín. Þá verður Lyst með jólabjór og pitsur með tilheyrandi jólalögum í boði á föstudagskvöld. Mynd: Unsplash/Amie Johnson
Jólahlaðborð byrja um miðjan mánuðinn
Þá styttist líka í það að jólahlaðborðin byrji í bænum. Hið árlega jólahlaðboð Múlabergs byrjar 15. nóvember en það verður í boði alla föstu- og laugardaga fram til 13. desember. Á hlaðborðinu eru um 40 réttir og kostar það 15.990 kr. (börn 6-12 ára greiða 6490 kr.). Þá býður Múlaberg líka upp á jólahlaðborð í hádeginu dagana 11. og 19. desember. Hádegishlaðborðið er ekki eins umfangsmikið og aðal jólahlaðborðið og verðið er líka lægra eða 6490 kr.(börn 6-12 ára greiða 3490 kr.). Þá verður hin árlega fjölskyldujólahátíð á Múlabergi með sérstökum leynigestum, ísbar, krapvél og fleiru ásamt klassískum réttum af jólahlaðborðinu í boði þann 14. desember.
Aurora Restaurant á Berjayja-hótelinu byrjar sitt jólahlaðborð viku seinna en Múlaberg og verður það í gangi alla föstudaga og laugardaga frá 21. nóvember til 13. desember. Verð fyrir fullorðna er 15.200 kr. (7.600 kr. fyrir 6-12 ára). Guðrún Harpa Örvarsdóttir og Ármann Einarsson halda uppi stemningunni með lifandi tónlist frá kl. 17-19. Frá 29. nóvember til 23. desember býður Aurora einnig upp á jólabröns alla laugardaga og sunnudaga frá kl. 12 - 14. Verð fyrir brönsinn er 7.900 kr. á mann (börn 6-12 ára greiða 4.900 kr.).
Jólaball í íþróttahöllinni
Rub23 og Bautinn verða með jólahátíð í íþróttahöllinni 28. og 29. nóvember þar sem boðið verður upp á jólahlaðborð og ball. Þessi viðburður mæltist vel fyrir í fyrra og komust þá færri að en vildu, en í ár er enn til eitthvað af lausum borðum bæði kvöldin. Verð á viðburðinn er 16.900 kr. Þá verður Rub23 einnig með fjögurra rétta jólaseðil alla daga frá 13. nóvember. Verðið á jólaseðli Rub23 er 13.490 kr.
Strikið verður með jólabröns í boði allar helgar fram að jólum frá og með 15. nóvember. Verðið þar er 6.990 (hálft verð fyrir 12 ára og yngri). Þá býður Strikið líka upp á sérstakan jólaseðil frá 17. nóvember sem samanstendur af 4 réttum. Verðið fyrir jólaseðilinn er 11.990 kr. Mói Bistro verður með tvö jólahlaðborð í Hofi en það er fullbókað á þau bæði. Þá verður Eyja vínstofa með sérstakan fimm rétta jólaseðil frá 14. nóvember og fram að jólum. Þar er hægt að velja á milli tveggja seðla og er verðið 11.900 eða 15.900. Centrum kitchen & bar verður líka með jólaseðil í boði hjá sér frá 15. nóvember. Um er að ræða þriggja rétta seðill og er verðið á honum er 10.990 kr. Greifinnn býður upp á jólahlaðborð en eingöngu fyrir hópa og fyrirtæki, að lágmarki 30 manns. Verðið á jólahlaðborði þeirra er 13.990 kr. á manninn.
Jólahamborgarar víða
Að lokum er rétt að minna á að Verksmiðjan er komin með jólalegan „Grinch“ borgara í sölu hjá sér. Spretturinn mun einnig bjóða upp á jólahamborga með hreindýrakjöti og það sama á við um Greifann. Greifinn verður líka með jólapitsu með hamborgarahrygg ofan á, á matseðlinum hjá sér frá 20. nóvember og það sama á við um jólahamborgarann hann fer líka í sölu 20.nóvember. Það er því ljóst af framansögðu að Akureyringar og gestir hafa úr nógu að velja vilji þeir gera sér glaðan dag í mat og drykk í aðdraganda jólanna.
*Akureyri.net tekur enga ábyrgð á því að þessi listi sé tæmandi yfir jólahlaðborð eða jólaseðla í bænum, en upptalning er brot af því helsta.