Wok to walk – nýr staður á Glerártorgi
Um síðustu helgi opnaði veitingastaðurinn Wok to Walk í Iðunni mathöll á Glerártorgi. Viðtökurnar hafa farið langt fram úr væntingum eiganda og færri komist að en hafa viljað. „Þetta hefur gengið rosalega vel, mun betur en við áttum von á. Við höfum meira að segja þurft að loka staðnum yfir miðjan daginn til að geta undirbúið meira hráefni,“ segir Atli Snær Rafnsson, rekstrarstjóri Wok to walk á Íslandi.

Margir þekkja veitingahúsakeðjuna Wok to walk frá ferðalögum sínum erlendis. Áherslan á veitingastaðnum á Akureyri verður til að byrja með fyrst og fremst á pantanir á staðnum á meðan verið er að slípa starfsfólk til. Síðan munu pantanir á netinu bætast við, sem og heimsending í gegnum Wolt.
Ferskir og fljótlegir asískir wok réttir
Wok to Walk er alþjóðleg keðja sem á uppruna sinn í Amsterdam en á veitingastöðum keðjunnar er áhersla lögð á ferskan, fljóteldaðan asískan mat sem eldaður er beint fyrir framan viðskiptavininn. Wok to walk veitingastaði má finna víða um heim, meðal annars í Barcelona og Las Vegas. Á höfuðborgarsvæðinu eru þrír Wok to walk staðir en hinn nýopnaði veitingastaður á Akureyri er sá fyrsti á landsbyggðinni. „Við erum fyrst og fremst með ferska asíska wok-rétti sem fólk setur saman sjálft. Það velur grænmeti, prótein og sósu eftir eigin smekk,“ segir Atli Snær. Fólk þarf þó ekki endilega að velja sjálft í sinn rétt því á matseðlinum sé líka að finna ýmsa klassíska asíska rétti á borð við Pad Thai, Yakisoba og Drunken Noodles.
Atli Snær telur að hinar góðu móttökur sem staðurinn hefur fengið á Akureyri megi meðal annars rekja til þess að margir þekki staðinn nú þegar, hvort sem er frá Reykjavík eða frá ferðalögum erlendis. „Fólk kannast við hugmyndina og veit hvað það fær,“ segir Atli Snær og bætir við að það hafi greinilega verið gat á markaðnum fyrir asískan mat á Akureyri, a.m.k eins og hann er framreiddur hjá Wok to walk. „ Akureyri er með flotta veitingaflóru og við erum bara stolt að fá að bæta við hana.“

Maturinn á Wok to walk hefur rokið út og staðurinn hefur þessa fyrstu daga þurft að loka yfir miðjan daginn þar sem allt hefur klárast. Wok to walk er til húsa þar sem veitingastaðurinn Fuego var áður. Mynd: SNÆ