Fara í efni
Umræðan

Spilling eða góð og vönduð stjórnsýsla?

Í Fréttablaðinu í gær var birt frétt um hið svokallaða Tónatraðarmál. Í þeirri umfjöllun var m.a. vísað í undirritaða sem og formann skipulagsráðs, Þórhall Jónsson. Í lok umfjöllunarinnar var Þórhallur beðinn um viðbrögð við ásökunum um meinta spillingu sem fram kæmi í gagnrýni minni. Hann sá ekki ástæðu til þess að svara því sérstaklega og vísaði slíkum ásökunum til föðurhúsanna.

Svo því sé haldið til haga þá hef ég sjálf reyndar aldrei notað hugtakið spilling í þessu samhengi – a.m.k. ekki á opinberum vettvangi – en látum það liggja milli hluta. Ég hef hins vegar ítrekað bent á að úthlutunin hafi ekki verði í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og að hún gangi gegn lóðaúthlutunarreglum Akureyrarbæjar og þar virðumst við Þórhallur að einhverju leyti vera ósammála. Það er því ágætt að fara ítarlega í gegnum allt úthlutunarferlið með því að rýna í opinber gögn. Í framhaldinu getur þá hver og einn lagt mat á hvort afgreiðsluferlið hafi verið í samræmi við vandaða stjórnsýslu og samþykktir Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir eða hvort hugsanlega megi nota annað gildishlaðnara hugtak til þess að lýsa gjörningnum.

Í fundargerð skipulagsráðs, sem dagsett er 11. nóvember 2020, kemur fram að umræða hafi átt sér stað um hvort gera þurfi breytingar á deiliskipulagi við Tónatröð. Forsenda þeirrar umræðu virðist hafa verið sú að treglega hafi gengið að koma út þeim fimm einbýlishúsalóðum sem standa enn óbyggðar á svæðinu. Jafnframt er tekið fram í fundargerðinni að á svæðinu standi tvö hús sem megi rífa. Sú fullyrðing stenst reyndar ekki þar sem annað þessara tveggja húsa er byggt 1905 og fellur því undir aldursákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt þeirri lagagrein eru allar menningarminjar 100 ára og eldri sjálfkrafa friðaðar á grundvelli aldurs, en friðuðum menningarminjum má enginn raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Fullyrðing skipulagsráðs um að rífa megi bæði húsin vekur því furðu.

Tæplega mánuði eftir að umræðan um breytingu á deiliskipulagi á sér stað, er skipulagsráð búið að úthluta lóðunum til SS Byggis með fyrirvara um að lagðar yrðu fram nákvæmari tillögur að uppbyggingu á síðari stigum. Lóðunum er því úthlutað áður en farið er í breytingar á deiliskipulagi. Hægt er að nálgast umsókn SS Byggis í fundargerð skipulagsráðs frá 9. desember 2020. Þar kemur fram að verktakinn áformi að byggja fjögur til fimm fjölbýlishús á umræddum lóðum. Það fer augljóslega gegn gildandi deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir einbýlishúsum á umræddum lóðum, einbýlishúsum sem þurfa að uppfylla kröfu um að þau falli vel að núverandi byggð með tilliti til hlutfalla, stærðar og útlits. Skipulagsráði ætti því á þessu stigi málsins að hafa verið það fullljóst að með tillögum SS Byggis er gjörsamlega horfið frá gildandi deiliskipulagi, forsendum þess og markmið. Eins ætti þeim að hafa verið það ljóst að nýtt deiliskipulag, á grundvelli áforma um fjölbýli, væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, en slíkt er að sjálfsögðu óheimilt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.

Samkvæmt fundargerðum skipulagsráðs leggur SS Byggir fram nákvæmari tillögur að uppbyggingu reitsins þann 21. janúar 2021. Þar er jafnframt lögð fram beiðni um breytingu á deiliskipulagi í samræmi við tillöguna. Beiðnin var í tvígang tekin fyrir af skipulagsráði, fyrst þann 27. janúar og svo aftur 10. febrúar, en afgreiðslu málsins var í báðum skiptum frestað. Fljótlega eftir það ratar málið í fjölmiðla og í kjölfarið vakna spurningar um lögmæti úthlutunarinnar. Akureyrarbær bregst við þeirri gagnrýni með því að óska eftir lögfræðiáliti sem lagt er fram til kynningar í skipulagsráði þann 14. apríl. Þar kemur fram að óskað er eftir áliti á þremur skilgreindum álitaefnum; 1) málsmeðferð skipulagsráðs, ekki síst m.t.t. jafnræðissjónarmiða, 2) hlutverk formanns skipulagsráðs í ferlinu og 3) samspil lóðaúthlutana og mögulegra skipulagsbreytinga.

Í lögfræðiálitinu er vísað til reglna Akureyrarbæjar um lóðúthlutanir. Þar kemur fram sú meginregla að auglýsa skuli lóðir, en undantekningartilfelli heimili þó að lóðum sé útdeilt án auglýsingar að fengnu samþykki bæjarstjórnar. Er það þó mat þess sem skrifar lögfræðiálitið að þessi undantekningartilfelli eigi eingöngu við í þeim tilfellum þar sem lóð hefur aldrei hefur verið auglýst áður. Það á ekki við um lóðirnar við Tónatröð þar sem þær höfðu svo sannarlega áður verið auglýstar, en þá eingöngu sem einbýlishúsalóðir, ekki sem fjölbýlishúsalóðir. Líkt og fram kemur í álitinu er úthlutun lóða á breyttum forsendum frá því sem auglýst var, ígildi úthlutunar án auglýsingar. Því er það niðurstaða lögfræðingsins að vinnubrögð skipulagsráðs hafi hvorki verið í samræmi við reglur Akureyrarbæjar um úthlutun lóða né þeim almennum meginreglum um jafnræði sem þær hvíla á. Sem útgönguleið úr klúðrinu leggur lögfræðingurinn til að lóðúthlutuninni sé vísað til bæjarstjórnar. Með öðrum orðum að ólögmætt afgreiðsluferli skipulagsráðs verði gert lögmætt með samþykki bæjarstjórnar – eftir á.

Á fundi skipulagsráð þann 28. apríl er lögð fram tillaga um að vísa umsókn SS Byggis til bæjarstjórnar. Tveir fulltrúar ráðsins virðast á þessum tímapunkti hafa áttað sig á að afgreiðsluferlið hefði ekki verið í samræmi við góða stjórnsýslu og leggja því í fundargerðinni fram bókanir um að heppilegra hefði verið að vinna að breytingu að deiliskipulagi fyrst og auglýsa svo lóðirnar á breyttum forsendum. Engu að síður samþykkir meirihluti ráðsins að vísa úthlutuninni til bæjarstjórnar og er hún tekin fyrir þar þann 4. maí. Í umræðum á þeim fundi kemur fram að aðdragandi málsins hafi verið sá, að í desember 2020 hafi SS Byggir sótt um lóðir við Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80. Umsókn SS Byggis var hafnað og verktakanum Luxor ehf. úthlutað lóðunum, sem þótti umdeilt. Í kjölfarið virðist SS Byggi hafa verið beint í Tónatröðina „og gefnar þar ákveðnar vonir og væntingar“. Af þessu má ráða að SS Byggir hafi því fengið lóðirnar við Tónatröð sem sárabætur fyrir lóðirnar sem verktakinn fór á mis við í miðbænum.

Sex bæjarfulltrúar ákváðu að greiða atkvæði með því að heimila SS Byggi að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins til samræmis við fyrirliggjandi umsókn um fjölbýli á lóðunum. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með tillögunni voru Þórhallur Jónsson og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, en þeir sitja einnig í skipulagsráði og voru þar af leiðandi að greiða atkvæði um lögmæti eigin afgreiðslu. Fimm bæjarfulltrúar greiddu atkvæði gegn tillögunni og lögðu fram bókun um að afgreiðsla skipulagsráðs væri ekki í anda góðarar stjórnsýslu og jafnræðis. Eins manns meirihluti dugði þó til þess að heimila SS Byggi að vinna að áfram að skipulagstillögu fyrir svæðið og var endanleg tillaga lögð fyrir skipulagsráð þann 10. nóvember. Þar var tekið jákvætt í erindið og skipulagsstjóra falið að hefa vinnu við aðalskipulagsbreytingar í samræmi við tillögur SS Byggis og er málið nú statt á því stigi.

Samkvæmt því sem hef rakið hér að ofan er nokkuð ljóst að úthlutun skipulagsráðs á lóðunum við Tónatröð var ekki í samræmi við vandaða stjórnsýslu né samþykktir Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir. Þannig að hvað sem Þórhalli kann að finnast þá er það ekki í lagi að afhenda einum útvöldum verkaka lóðir á gjörbreyttum forsendum, jafnvel þó það hafi verið gert af góðum hug og í þeim tilgangi að bæta viðkomandi upp fyrir að hafa orðið af lóðum á öðrum stað. Hvort slíkur gjörningur falli undir spillingu eða eitthvað annað verður hver að dæma fyrir sig.

Hildur Friðriksdóttir er íbúi við Spítalaveg.

Áskorun vegna breytinga á geðþjónustu

Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar skrifar
10. júlí 2024 | kl. 18:08

Nýja viðbyggingin við SAk

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 17:45

KS og Kjarnafæði Norðlenska

Gísli Sigurgeirsson skrifar
09. júlí 2024 | kl. 14:05

Ályktun Geðhjálpar vegna breytinga á þjónustu

Stjórn Geðhjálpar skrifar
06. júlí 2024 | kl. 06:00

Yfirlýsing varðandi breytingar á leikskólagjöldum

Anna Júlíusdóttir skrifar
05. júlí 2024 | kl. 11:45

Opið bréf til forseta Íslands

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. júlí 2024 | kl. 11:00