„Sortans!“ – Ef þú færð góða hugmynd...

AF BÓKUM – 33
Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _
Mig minnir að það hafi verið á fyrirlestri Andra Snæs Magnasonar hér á Akureyri í kringum 2006, þar sem ég heyrði þessa setningu: „Ef þú færð góða hugmynd, þá geturðu verið viss um að einhvers staðar í heiminum sé annar aðili að fá sömu hugmynd.“
Ég bið Andra afsökunar ef tilvitnunin er ekki hundrað prósent rétt en ég hef oft hugsað um þetta síðan. Nú síðast þegar ég las bókina Hrím eftir Hildi Knútsdóttur.
Sjálfur hef ég haft gaman af því að skrifa, hef gefið út tvær bækur og á svo í kringum 15-20 bækur óútgefnar í tölvunni. Sumar hafa birst á rafrænu formi á netinu ... og í kringum Covid tímabilið, seint á árinu 2020, fékk ég stórkostlega hugmynd: að skrifa fantasíu um leifar af Íslandi þar sem meðal annars hefðu myndast skrítnar skepnur og ég hafði meira að segja beðið næstelstu dóttur mína um að teikna myndir. Ein tegundin voru svokallaðir „stórlaxar“ sem áttu það til að ráðast á fólk.
Þessi hugmynd, þessi „sköpun“ mín á stórlaxi er alls ekki ný eða sérstök, en mér finnst stórkostlega gaman að lesa ákveðna senu í bókinni hennar Hildar þar sem stór lax kemur fram! Svo skemmtileg fannst mér lýsingin að ég fór að efast um að ég ætti að halda áfram með mitt verk, en ... sjáum til hvort ég nái því ekki fyrir sextugsafmælið 2031.
Kápa Hríms og sögusvið bókarinnar.
Hrím kom mér á óvart. Samstarfskona á Amtsbókasafninu hafði mælt með henni vegna þess að sögusvið hennar er það svæði sem ég leiðsegi mest á þegar ég sinni leiðsögumannsstarfi mínu. Þetta er fantasía, einhvers konar draumkennd útgáfa af landinu mínu ástsæla þar sem fólkið býr í mismunandi skörum og búseta þeirra er árstíðabundin. Engin tækni eða vélar, bara gamaldags samfélög þar sem fólk reiðir sig á hvert annað og allir hafa hlutverkum að gegna.
En þau búa í heimi með risadýrum, ekki bara stórum og grimmum löxum heldur líka haðnautum, stórum refum og hinum hræðilegu hrímsvelgum, ásamt mörgum öðrum spennandi verum (ég horfi öðruvísi á uglur núna).
Aðalpersónan er hin unga Jófríður, dóttir kennimannsins Karka og foringjans Jóru. Þau eru hluti af Mývatnsskaranum. Í þeim skara eru bestu vinir hennar Eirfinna og Bresi. Í Ljósavatnsskaranum er hinn rosalega sæti („... Nú var hann beinlínis orðinn fallegur.“) Suðri. Bresi hefur áhuga á einhverju meira en vinskap við Jófríði, en hún hefur tilfinningar gagnvart þeim báðum. Þessi hluti bókarinnar finnst mér sístur, en það er samt eitthvað svo rómantískt að heyra um ástarfundi í rjóðri rétt við Botnsvatn fyrir ofan Húsavík!
Gamaldags íslenska er notuð af mikilli snilld í bókinni og nöfnin á persónum bera þess merki. Þessi tilbúni heimur í alvöru heimi er eitthvað svo kunnuglegur en samt svolítið framandi. Ég sá svo margt ljóslifandi fyrir mér þegar ég las bókina og dáðist að hörku og hæfni margra persónanna. Gallar þeirra koma líka vel fram, sem getur verið gaman að lesa. En þetta eru einfaldlega heilsteyptar persónur í virkilega vel skrifuðum heimi þar sem baráttan við risadýrin og náttúruna stjórna daglegu lífi þeirra. Senan þar sem Jófríður brýtur sennilega nokkur rifbein er til dæmis frábær!
Lífsbaráttan er hörð fyrir Jófríði og fólkið hennar, sem og alla skarana. Þetta er að stærstum hluta þroskasaga þessarar ungu konu sem hefur vonir og þrár en þarf óvænt að sinna mikilli ábyrgð vegna veikinda í fjölskyldunni.
Mig langar að enda þessi orð mín á bölvi sem kemur nokkrum sinnum fyrir í bókinni, hefur ekkert með skoðun mína á henni að gera ... bara eitt lítið dæmi um svo skemmtilega orðanotkun Hildar ... og ég ætla að fara að nota þetta sjálfur: Sortans!