Roy Jacobsen: Velkomin til Barreyjar
AF BÓKUM – 52
Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _
Þann 19. október síðastliðinn lést norski rithöfundurinn Roy Jacobsen sjötugur að aldri. Roy var svokallaður „Íslandsvinur“ og ritstýrði meðal annars norrænni útgáfu á Íslendingasögunum og margir hérlendir höfundar og bókmenntamenn minntust hans með hlýju við fráfall hans.
Það er þó ekki Íslandstenging Jacobsens sem er mér hugleikin heldur sögur hans um fólkið á Barrey. Þær eru fjórar talsins: Hin ósýnilegu, Hvítt haf, Auga Rigels og Bara móðir. Fyrir fyrstu bókina, Hin ósýnilegu var Jacobesen tilnefndur til Booker verðlaunanna og sannarlega finnst mér það verðskuldað.
Bækurnar fjalla um líf og örlög fólks á einangraðri eyju í Norður Noregi á síðustu öld og í miðdepli er Inga, stúlka sem elst upp á Barrey í samfélagi þar sem líf og lifibrauð eru nátengd sjónum og árstíðunum. Frásögnin fylgir henni frá bernsku yfir í fullorðinsár og verður þannig eins konar saga þroska og sjálfsuppgötvunar – en hún er jafnframt saga þjóðfélags og tímabils þar sem fólk stóð á mörkum hefða og nýrra tíma. Daglegu lífi fólksins á Barrey er líka lýst á ógleymanlegan hátt. Vinnusemi og ábyrgðarkennd, þekkingu og reynslu sem erfist kynslóða á milli og samfélagi þar sem náttúran, árstíðirnar og hafið eru hluti heimilisfólksins.

Eyjan er ekki bara sögusvið heldur líka þátttakandi í sögunni. Veitir skjól og vernd, en er líka full af hættum og hafið sem umlykur allt er gjöfult en líka grimmt og miskunnarlaust og dauðinn er hversdagslegur og ávallt nálægur. Alveg eins og má ímynda sér að hafi verið tilfellið hjá sjósóknurum Íslandi á sama tíma.
Stíllinn er látlaus. Sá stíll sem stundum er kallaður knappur og kenndur við Íslendingasögurnar. Það sem er ósagt er mikilvægur hluti af frásögninni. Fas persónanna, viðbrögð þeirra, augngotur og svipbrigði segja sína sögu orðalaust.
Sögurnar fjalla um líf mannanna og það sem því fylgir. Gleði og sorgir, sjálfstæði og samhyggð. Inga er engin hetja í hefðbundnum skilningi; hún er manneskja sem lifir lífi sínu í raunverulegum aðstæðum – en það gerir hana sjálfa að hetju. Saga hennar minnir á hversu algild og endurtekin mannleg reynsla getur verið, jafnvel þegar hún á sér stað á litlum og afskekktum stað á heimskortinu.
Lestur bókanna um lífið á Barrey hefur svipuð áhrif og hafaldan sem mótar ströndina án þess að maður taki strax eftir því. Lesandinn upplifir að fegurðin og sársaukinn ganga hönd í hönd og virðing og reisn mannsins getur falist í hinu smáa og hversdagslega. Að þögnin getur borið dýpri merkingu en langar setningar og að saga sem virðist lítil í fyrstu getur vaxið og fyllt heilan heim.
Í síðasta pistli fjallaði ég um Náðarstund eftir Hönnu Kent. Eitt af því sem mér fannst svo magnað við hana var þýðing Jóns St. Kristjánssonar og „viti menn og dvergar“ hann þýðir Barreyjarbækurnar svo ekki þarf að fjölyrða um gæði íslenska textans. Velkomin til Barreyjar.