Fara í efni
Pistlar

Sniðgötubirkið

TRÉ VIKUNNAR - XIV

Sum af glæsilegustu trjám höfuðstaðar hins bjarta norðurs eru svo merkileg að þau hafa sérnafn. Tré vikunnar að þessu sinni er einmitt eitt þeirra. Það er birkitré, Betula pubescens, og er kallað Sniðgötubirkið. Það stendur í húsagarði í grónu hverfi og hangir limið í löngum slæðum úr víðri og glæsilegri krónu.

Óvenjuglæsilegt birki sem stendur við Sniðgötu á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Staðsetning

Eins og vænta má af birki sem kallast Sniðgötubirki stendur það þétt við samnefnda götu. Nánar tiltekið stendur það á lóð sem er á horni Sniðgötu og Munkaþverárstrætis. Sú lóð tilheyrir reyndar Munkaþverárstræti og er númer 26 við þá götu. Neðst á horni lóðarinnar stendur þessi glæsilega björk, þétt við Sniðgötu og krónan teygir sig yfir götuna.

Horft að hausti til trésins yfir lóðina við Munkaþverárstræti. Strangt til tekið stendur Sniðgötubirkið á lóð við Munkaþverárstræti 26. Mynd: Sig.A.

Lýsing

Birkið virðist vera af tegundinni ilmbjörk, Betula pubescens, nema hvað hinar slútandi greinar minna mun frekar á norrænt hengibirki. Það hefur ýmist verið skráð sem Betula pendula Roth., B. verrucosa Ehrh., eða jafnvel sem B. verrucosa var. lapponica Lindq. á latínu. Öll önnur einkenni, svo sem neðri hluti stofnsins, laufgerð, lykt og hæring á smágreinum bendir til ilmbjarkarinnar frekar en hengibjarkar.

Stofn trésins minnir meira á ilmbjörk en hengibirki. Mynd: Sig.A.

Þetta er ekki eina tréð í bænum sem hefur einhver einkenni beggja tegunda. Má nefna þetta dularfulla birki sem við fjölluðum um í ágúst 2022. Við frekari skoðun og athuganir teljum við fullvíst að það tré sé blendingur, enda hefur ekki tekist að staðfesta fræmyndun hjá trénu. Það er oft einkenni blendinga að vera ófrjóir. Má nefna múlasna sem dæmi. Þeir eru blendingar hesta og asna og eru alltaf ófrjóir. Aftur á móti er það ekki alltaf svo með plöntur. Blendingar plantna geta stundum verið frjóir.

Horft upp í krónuna. Smágreinarnar hanga niður. Sjá má skemmdir eftir birkiþélu á laufunum. Mynd: Sig.A.

Víða um bæinn eru bjarkir með vaxtarlag sem minnir á þetta birki. Þau hafa öll almenn einkenni ilmbjarka nema hvað greinarnar slúta eins og á hengibjörkum. Sem dæmi má nefna umfjöllun okkar frá árinu 2020 um tré sem stendur á Eiðsvelli við Grænugötu. Gömul tré með svipaða greinabyggingu má einnig sjá víðar við Munkaþverárstræti, Hamarsstíg og Þórunnarstræti svo dæmi séu tekin. Yngri tré má einnig finna í bænum, svo sem í Síðuhverfi og við Rauðumýri. Ekkert þessara trjáa hefur samt eins slútandi greinar og Sniðgötubirkið.

 

Vetrarmynd af garðinum við Munkaþverárstræti. Myndin tekin frá Sniðgötu. Mynd: Sig.A.

Saga

Á hverju ári útnefnir SKógræktarfélag Íslands tré ársins. Nokkur tré á Akureyri hafa fengið þennan heiður og árið 1998 varð Sniðgötubirkið fyrir valinu. Í tilefni þess skrifaði Vilhjálmur Lúðvíksson stutta grein um tréð í Ársrit Skógræktarfélags Íslands, enda mun það hafa verið að hans frumkvæði að tréð varð fyrir valinu. Í greininni bað hann um að fá frekari upplýsingar um tréð og sögu þess. Því var einboðið að hafa samband við Vilhjálm við gerð þessa pistils og kanna hvort honum hefði orðið ágengt í upplýsingaöflun sinni. Vilhjálmur varð góðfúslega við beiðni okkar. Hann sendi okkur allar þær upplýsingar um tréð sem hann býr yfir, ásamt hugleiðingum sínum um ræktun þess. Að mestu leyti er þessi grein byggð á þessum tölvusamskiptum og hinni stuttu grein í Ársritinu. Einnig var leitað upplýsinga á Facebooksíðu Garðyrkjufélags Akureyrar.

 

Mynd úr Ársritinu frá 1998 þegar okkar tré var valið tré ársins.

Skemmst er frá því að segja að ekki hefur tekist að fá áreiðanlegar upplýsingar um sögu þessa trés. Gamlar konur, sem voru látnar þegar tréð varð valið sem tré ársins, töldu það hafa komið frá ræktunarstöðinni á Hallormsstað með dönskum garðyrkjumanni á árunum í kringum 1920. Vilhjálmur hafði samband við vin sinn, Sigurð Blöndal, skógræktarstjóra, sem fullyrti að íslenskt birki með þetta vaxtarlag hafi ekki verið framleitt sérstaklega í Hallormsstað, svo eitthvað er þetta málum blandið.

 

Mynd úr greininni frá 1998 eftir Vilhjálm Lúðvíksson.

Slútbjörk

Ástæða þess að Vilhjálmur Lúðvíksson stakk upp á að þetta tré yrði útnefnt tré ársins árið 1998 er áhugi hans á slútandi vaxtarformi birkisins sem víða má sjá á Norðurlandi. Hann nefnir sem dæmi tré á bökkum Laxár í Laxárdal í Mývatnssveit, t.d. við veiðistaðinn Æsufit. Seinna sá hann þetta form á einstökum trjám í Vaglaskógi, Fossselsskógi og Þórðarstaðaskógi. Fór hann þá að kalla þett form slútbjörk af tegundinni ilmbjörk. Hann gerði sér auðvitað ljóst að þetta er ekki sama birkið og við köllum hengibjörk.

 

Frægt birki með slútvöxt við Gróðrarstöðina á Vöglum. Ætli Sniðgötubirkið sé ættað úr Vaglaskógi? Mynd: Sig.A.

Vilhjálmur fór, ásamt félögum sínum í svokölluðu Gróðurbótarfélagi, að skoða þann möguleika að framleiða birki með þessu vaxtarlagi. Hann, Pétur N. Ólason og Þröstur Eysteinsson, fóru í ferð um Fossselsskóg og Þórðarstaðaskóg til að safna efni. Síðar var einnig safnað af Sniðgötutrénu og glæsilegu birki sem stendur við Gróðrarstöðina á Vöglum. Tilraunir þessar fóru fram sunnan heiða þar sem efniviðurinn var græddur á annað birki. Vandinn var sá að fyrir sunnan fengu plönturnar ekki þetta eftirsóknarverða, slútandi form. Að auki er vöxturinn lítill og lélegur. Þetta er reyndar sama sagan með annað birki sem flutt hefur verið af Norðurlandi og suður. Það kemur einhver kyrkingur í trén. Svipaður vandi er einnig þekktur í birkirækt í útlöndum. Ef birki er fært suður eða norður frá upprunalegum vaxtarstöðum, þótt ekki sé nema um eina eða tvær breiddargráður, getur vöxturinn orðið lélegur. Markverð undantekning frá þessu er birki sem ættað er úr Bæjarstaðaskógi. Það þrífst allstaðar vel á Íslandi.

 

Haustmynd úr Leyningshólum. Birki þaðan þrífst illa sunnan heiða. Þótt slútvöxt megi finna víða í birki á Norðurlandi vottar ekki fyrir honum í Leyningshólum. Mynd: Sig.A.

Vilhjálmur á enn tvö ágrædd tré af Sniðgötubirkinu. Hvorugt hefur sýnt þetta vaxtarform með afgerandi hætti, þótt greinabyggingin sé önnur en á hefðbundnu birki.

 

Sniðgötubirkið er óneitanlega glæsilegt tré. Mynd: Sig.A.

Vel má vera að hægt væri að endurtaka þessar tilraunir norðan heiða og kanna hvort við gætum búið til norðlenskt slútbirki fyrir garða og skóga um norðanvert landið. Hér er tilvalið verkefni fyrir áhugasama ræktendur. Gallinn við slík verkefni er að oft kemur slútvöxturinn ekki í ljós fyrr en tréð hefur náð fullorðinsaldri. Svona þróunarvinna er því mjög tímafrek.

Genaflæði

Þetta tré hefur öll einkenni ilmbjarkar, nema þessar hangandi greinar. Slíkt er þó ekki einsdæmi eins og að framan greinir. Vel má vera að hér sé að sjá áhrif genaflæðis milli hengibjarka og ilmbjarka. Að vísu dregur það úr líkum á genaflæði að ilmbjörkin er ferlitna en hengibjörkin tvílitna. Samt eru blendingar þessara tegunda til og þeir eru ekki alltaf ófrjóir. Frjó hengibjarka geta vel borist með sterkum vindum til Íslandsstranda frá Skandinavíu. Það má meðal annars sjá í Ársskýrslu NÍ árið 2006, bls. 21. Vilhjálmur hefur sagt undirrituðum frá því að Þorsteinn Tómasson hefur velt fyrirbærinu mikið fyrir sér og skoðað rannsóknir Margrétar Hallsdóttur á birkifrjói. (Vilhjálmur 2023). Ekki verður birkifrjóið greint til tegundanna í greiningum Margrétar og líklegt að frjósúpan sé einhver blanda.

 
Mynd úr skýrslu NÍ sem sýnir ferðalag loftmassa frá Rússlandi til Íslands og tengsl hans við frjómælingar í Reykjavík. Veðurstofan reiknaði uppruna evrópska loftmassans sex daga aftur í tímann. Þær upplýsingar eru á myndinni tengdar frjómælingum Margrétar Hallsdóttur hjá NÍ. Þorsteinn Tómasson telur að þetta sýni að genaflæðið milli ólíkra tegunda af birkiættkvíslinni er veðurfarslega hugsanlegt ef „gangmál“ birkis hér og á meginlandinu fara saman.
 

Smellið hér til að lesa allan pistilinn

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30