Fara í efni
Umræðan

Skammsýni í skipulagsmálum – Akureyrarbær fórnar grænu svæði á móts við Laxdalshús

Fjárhagsstaða Akureyrarbæjar hefur verið þung síðustu ár, og svo virðist sem skipulagsmálin líði sérstaklega undir fjárhagserfiðleikum bæjarins. Skammsýnin er ríkjandi í skipulagsráði og bæjarstjórn, og hefur það leitt til illa undirbúinna og óvandaðra tillagna að breytingum á annars ágætu skipulagi Akureyrar 2018-2030.

Þrengt að Leiruvelli – eina leiksvæðinu í Innbænum

Fyrst voru settar fram áætlanir um mikið skipulagsslys á Oddeyri, sem á endanum var slegið af borðinu vegna mótmæla bæjarbúa. Þá var röðin komin að Tónatröð við Spítalaveg, þar sem hugmyndin var að byggja fimm fjölbýlishús. Þeim var síðar fækkað um eitt, aftur vegna mótmæla bæjarbúa. Þrátt fyrir andstöðuna hefur bærinn þó enn hug á því að byggð verði fjögur fjölbýlishús á staðnum, en þau verða algjörlega úr öllu samhengi við umhverfi sitt. Verkefni af þessu tagi skila bænum töluverðum tekjum af fasteignaskatti og gatnagerðargjöldum, en þau voru einmitt hækkuð umtalsvert í byrjun júní 2021.

Nýjasta skipulagsmálið í Innbænum er á minni skala en þar er um að ræða tillögur að skipulagsbreytingum vegna stækkunar búsetukjarna fyrir fatlað fólk að Hafnarstræti 16. Breytingin þrengir verulega að mikilvægu grænu svæði í Innbænum og eina skipulagða leiksvæðinu fyrir börnin í hverfinu, Leiruvelli. Verði hugmyndirnar að veruleika minnkar græna svæðið á móts við elsta hús bæjarins, Laxdalshús, um rúma 530 fermetra.

Og hvernig snýr málið að fjárhag bæjarins? Jú, ástæðan fyrir skipulagsbreytingunum er sú að breyta á húsinu við Hafnarstræti 16 úr herbergjasambýli í sjálfstæðar íbúðareiningar fyrir fatlað fólk. Í stað þess að byggja nýtt húsnæði sem svarar öllum kröfum nútímans telur bærinn sig geta sparað á framkvæmdunum með því að byggja við þrjátíu ára gamalt hús sem var hannað á allt öðrum forsendum. Og fórna þar með græna svæðinu.

Lítill metnaður og óheiðarleg framsetning

Þegar íbúar Innbæjarins gerðu vart við óánægju sína með breytingarnar breyttist lýsing Akureyjarbæjar á þeim. Í tillögum að breyttu deiliskipulagi var nú talað um að gert væri ráð fyrir „lítilsháttar stækkun“ á lóðinni að Hafnarstræti 16 og jafnframt „stækkun og endurbótum á leiksvæði.“ Staðreyndin er hins vegar sú að verið er að minnka Leiruvöllinn og grænt útivistarsvæði sem þarna hefur verið um áratuga skeið.

Undanfarin ár hefur metnaður bæjarins fyrir svæðinu verið lítill og því illa sinnt. Árið 2013 teiknaði Hermann Georg Gunnarsson landslagsarkitekt tillögur að skemmtilegu útivistar- og leiksvæði á Leiruvelli fyrir Akureyrarbæ, þar sem gert var ráð fyrir boltagerði og fjölda leiktækja. Verkefnið var komið á framkvæmdaáætlun en aldrei varð neitt úr.

Þess í stað hefur leiksvæðið minnkað frá því sem áður var, skítugum snjó er rutt þangað á vetrum og viðhaldi hefur verið ábótavant. Þá tók steininn úr þegar bærinn setti fram hugmyndir um að koma fyrir ruslagámum í stað græna svæðisins, rétt við umræddan búsetukjarna. Frá því var horfið vegna mótmæla íbúa. Það hefur því lengi verið ljóst að Akureyrarbær hefur haft önnur markmið en að hlúa vel að svæðinu.

Háleit markmið í orði en ekki á borði

Í Aðalskipulagi Akureyrar kemur fram að byggðin í Innbænum sé meðal helstu sérkenna Akureyrar og að því skuli halda yfirbragði Innbæjarins. Þá er lögð áhersla á mikilvægi þess á að takmarka röskun grænna svæða í hverfum bæjarins. Einnig hefur bæjarfélagið hreykt sér af því að vera fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi samkvæmt stöðlum UNICEF. Erfitt er að sjá hvernig fyrirhugaðar breytingar í Innbænum samræmast þessum göfugu markmiðum.

Akureyrarbær hefur þar að auki gengið algjörlega á bak orða sinna um íbúafund um málið, þrátt fyrir ítrekaðar óskir íbúa. Á fundinum ætlaði hópur íbúa í Innbænum að kynna niðurstöður kannana um gildi græna svæðisins og Leiruvallarins fyrir hverfið og íbúana. Kannanirnar voru framkvæmdar af umhverfissálfræðingnum Páli Jakobi Líndal frá ráðgjafafyrirtækinu Envalys. Ekkert samráð hefur því verið haft við íbúana, þrátt fyrir þróttmiklar yfirlýsingar bæjarstjórnar nýverið um mikilvægi þess að efla íbúasamráð.

Ég hvet Akureyrarbæ til að fylgja yfirlýstum markmiðum sínum, hverfa frá breytingunum og hlúa þess í stað að Leiruvelli og græna svæðinu á móts við Laxdalshús af metnaði og í samræmi við fyrri fyrirheit. Í stað viðbyggingar við Hafnarstræti 16 hvet ég bæjarfélagið til að byggja nýtt húsnæði fyrir fatlað fólk sem svarar nútímakröfum.

  • Frestur til að skila athugasemdum við skipulagsbreytingarnar rennur út mánudaginn 28. nóvember. Athugasemdir má senda bréfleiðis eða á netfangið skipulag@akureyri.is

Með kveðju úr Innbænum

Sigurbjörg Pálsdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03