Segir gengið freklega gegn samþykktum

Sindri S. Kristjánsson, bæjarfulltrúi S-lista, gerir alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu í tengslum við fyrirhugaða byggingu jöfnunarstoppstöðvar og skipulagsbreytingar við Glerá vegna hennar og annarra framkvæmda. Sindri bendir á að nú þegar hafi bygging stöðvarinnar verið boðin út áður en bæjarstjórn hefur formlega samþykkt og auglýst breytingu á skipulagi.
Skipulagsráð tók í vikunni fyrir að nýju tillögu að breytingu á deiliskipulagi Glerár, frá stíflu til sjávar, að loknu lögbundnu auglýsingaferli. Breytingin sem tillagan felur í sér er að skilgreind er ný jöfnunarstoppstöð norðan Glerártorgs ásamt ýmsum breytingum á stígum, stofnstígum, göngum, brúm og fleiru.
Svæðið við Glerá þar sem fyrirhuguð jöfnunarstoppstöð á að rísa. Sindri S. Kristjánsson (S) gerir alvarlegar athugasemdir við að bygging stöðvarinnar hafi nú þegar verið boðin út, áður en bæjarstjórn hefur formlega samþykkt skipulagsbreytingar og auglýst þær.
Umhverfis- og mannvirkjasviðs, fyrir hönd Akureyrarbæjar, auglýsti eftir tilboðum í byggingu jöfnunarstoppstöðvarinnar í lok mars og rann tilbroðsfrestur út kl. 11 í gærmorgun, fimmtudaginn 15. maí.
Fjallað var um málið í skipulagsráði 9. apríl, en afgreiðslu frestað þar til fyrir lægi umsögn umhverfis- og mannvirkjasviðs um efni innkominna athugasemda og umsagna. Umsögn umhverfis- og mannvirkjaráðs var lög fram á fundi ráðsins á miðvikudag.
Gönguljós á Borgarbraut
Á meðal þess sem kemur fram í svörum umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar við innkomnum athugasemdum vegna breytinganna er eftirfarandi:
- Núverandi útskot vegna stoppstöðvar strætisvagna sunnan Borgarbrautar, við Glerártorg, verður áfram þar til hringtorg verður gert á gatnamótum Borgarbrautar, Glerárgötu og Tryggvabrautar.
- Gönguljós verða sett á gönguleið yfir Borgarbraut í framhaldi af fyrirhugaðri göngubrú á móts við jöfnunarstoppstöðina. Ljósin verða samtengd umferðarljósum við gatnamótin til að valda sem minnstri röskun á umferð og auka öryggi.
- Fallið verður frá núverandi útfærslu á sleppingarstæði vegna landsbyggðarstrætisvagna og hún endurskoðuð í samráði við Vegagerðina með tilliti til landsbyggðarstrætós og umferðaröryggis og lagt til að sú breyting verði tekin út úr deildiskipulagstillögunni svo hægt sé að finna það áfram með tilliti til athugasemda og að sú vinna tefji ekki aðra þætti verksins.
Gengið freklega gegn samþykktum og reglum
Sindri S. Kristjánsson (S) gerir alvarlega athugasemd við stjórnsýslu í tengslum við framgang málsins þar sem nú þegar hafi Akureyrarbær auglýst útboð á byggingu jöfnunarstoppstöðvarinnar áður en bæjarstjórn hefur samþykkt og auglýst breytt aðal- og deiliskipulag vegna framkvæmdanna. „Hér er gengið að mínu mati freklega gegn samþykktum bæjarins og öðrum reglum og viðteknum venjum um aðkomu kjörinna fulltrúa að ákvarðanatöku í stjórnum og ráðum bæjarins. Þá eru ítrekaðar fyrri efasemdir um þessi áform sem fulltrúi Samfylkingarinnar hefur þegar komið á framfæri við vinnslu þessa máls á fyrri stigum,“ segir meðal annars í bókun Sindra.