Fara í efni
Fréttir

Rúmlega 200 íbúða hverfi í landi Kropps

Nýja hverfið, Ölduhverfi, rís í landi Kropps, norðan og ofan við Jólagarðinn. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Í undirbúningi er nýtt íbúðahverfi, Ölduhverfi, sem mun rísa í landi Kropps í Eyjafjarðarsveit. Þar er gert ráð fyrir allt að 212 íbúðum og vonir standa til að fyrstu íbúar hverfisins geti flutt inn 2023.

Fyrirhugað deiliskipulagssvæði afmarkast af Eyjafjarðarbraut vestri til austurs, Jólagarðinum og Grísará til suðurs, jaðri skógræktar til vesturs og lækjarfarvegi til norðurs. Nýja hverfið verður hluti af þéttbýlinu við Hrafnagil.

Félag, í eigu Harðar Snorrasonar og Helgu Hallgrímsdóttur, sem reka búskap í Hvammi í Eyjafjarðarsveit, keypti Kropp í árslok 2017. Í framhaldinu var ákveðið að þróa áfram hugmyndir sem höfðu áður verið í farvatninu um íbúðabyggð á Kroppi, nú á um 10 hekturum lands. Þróunarfélagið Ölduhverfi ehf. á nú þennan hluta Kropps og vinnur að skipulagsbreytingum í samvinnu við sveitarstjórn. Það er gert til þess að uppbygging falli sem best að markmiðum og framtíðarsýn sveitarfélagsins.

Samkomulag um rekstur og viðhald innviða

Páll Snorrason, fulltrúi eigenda Ölduhverfis ehf., sagði í viðtali við Akureyri.net að samningur sé í farvatninu milli Eyjafjarðarsveitar og Ölduhverfis. Þrátt fyrir að einkaaðili muni bera ábyrgð á framkvæmdum og fjármagna gerð innviða muni samkomulagið fela í sér að Eyjafjarðarsveit eignast opin svæði, lóðir, götur og gangstíga og annast viðhald þeirra og rekstur. Páll segir að þegar einkaaðili fer út í framkvæmdir sem þessar eru innviðir ekki á forræði viðkomandi sveitarfélags. Eyjafjarðarsveit er hins vegar tilbúin til að taka yfir eignarhald og rekstur þegar framkvæmdum lýkur. Stefnt er að undirskrift þessa samnings í lok mánaðar.

Lág en þétt byggð

Gert er ráð fyrir lágri, en þéttri byggð í Ölduhverfi sem fellur vel að landslagi. Ráðgert er að byggðin verði samsett af eins og tveggja hæða húsum; einbýlis-, raðhúsum, og minni fjölbýlishúsum, þ.e. fjórbýli, sexbýli og áttbýli. Einnig er gert ráð fyrir rúmgóðu leiksvæði fyrir miðju byggðarinnar. Í skipulagslýsingu Ölduhverfis kemur fram að unnið verði að sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum í innviðum hverfisins. Landhalli er nýttur þannig að allar íbúðir ættu að hafa gott útsýni og ekki er hætta á að síðar verði byggt fyrir það. Gatnakerfið er einfalt og auðvelt að rata um hverfið.

Umhverfi og innviðir

Jörðin Kroppur liggur að þéttbýliskjarna sem fyrir er við Hrafnagil, þar sem alla helstu þjónustu sveitarfélagsins er að finna s.s. leik- og grunnskóla, sundlaug, íþróttahús og skrifstofu sveitarfélagsins. Þá er umhverfið skógi vaxið og vel fallið til margskonar útivistar að ógleymdum göngu- og hjólastígnum milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar. Þarna verður þess vegna góð aðstaða fyrir þá sem vilja búa í rólegu og fallegu umhverfi í nánd við góða aðstöðu til útivistar, segir Páll. Fyrir fólk með börn er hverfið tilvalið þar sem þjónusta sveitarfélagsins er eins og best getur verið, segir hann.

Eyjafjarðarbraut færð niður að ánni

Áformað er að færa stofnbrautina Eyjafjarðarbraut niður fyrir byggðina, meðfram Eyjafjarðaránni, en sú gamla mun þjóna sem tengibraut innan hverfisins Í skipulagi er gert ráð fyrir að nýr vegur verði lagður frá tengibrautinni inn í hverfið til móts við núverandi íbúðarhús á Kroppi; mun norðar en nú er. Þá verði núverandi innkeyrslu að svæðinu breytt í stíg, sem þó verður aksturfær og getur nýst sem varaleið frá svæðinu.

Frestur til athugasemda vegna auglýsingar um breytingu á aðalskipulagi vegna aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar þ.e. að heimila allt að 212 íbúðir rann út 12. ágúst 2021. Engar athugasemdir bárust. Gert er ráð fyrir að skipulagsvinnu verði lokið um næstu áramót.

Að sögn Páls er áætlað að hefja framkvæmdir við uppbyggingu innviða næsta sumar og í framhaldinu verði hægt að hefja byggingu fyrstu íbúðanna, haustið 2022 eða vorið 2023. Vonast er eftir að fyrstu íbúarnir geti flutt inn á árinu 2023.

Hluti túnsins, þar sem nýja byggðin rís, er lengst til vinstri, beint fyrir ofan Jólagarðinn. Hluti Hrafnagilshverfis sést hægra megin. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Hluti Hrafnagilshverfis í Eyjafjarðarsveit. Horft til norðurs. Nýja byggðin verður á túninu efst fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Bræðurnir Hörður og Páll Snorrasynir þar sem nýja byggðin rís á túninu ofan við bæinn Kropp. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.