Fara í efni
Fréttir

Ráðherra fundar með stjórnendum SAk

Ingibjörg Isaksen, þingkona Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, Alma Möller heilbrigðisráðherra og Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.

Alma Möller heilbrigðisráðherra ætlar að sækja Sjúkrahúsið á Akureyri heim á morgun, þriðjudag, ásamt ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins og sérfræðingum í kjarasamningum lækna, til að ræða við stjórnendur sjúkrahússins um þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin þar vegna uppsagna lækna við stofnunina.

Ráðherrann upplýsti þetta á Alþingi síðdegis í dag í svari við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen, þingkonu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Ingibjörg sagði í ræðu sinni í fyrirspurnatímanum á Alþingi að því miður stefndi í að versta sviðsmyndin í málinu myndi raungerast. Hún benti á að Læknafélagið hafi sent út neyðarkall til stofnana í landinu til þess að bregðast við svo hægt væri að halda úti grunnþjónustu. Þá sagði hún skýrt að ábyrgðin á þessari stöðu lægi ekki hjá stjórn Sjúkrahússins á Akureyri eða starfsfólkinu þar, sem hefði í raun unnið þrekvirki við þessar aðstæður. 

„En í lögum um Sjúkrahúsið á Akureyri er hlutverk sjúkrahússins skýrt afmarkað. Það á að veita almenna og sérhæfða þjónustu í nær öllum sérgreinalækningum og líka að vera varasjúkrahús landsmanna. Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi og samkvæmt lögum eitt af grundvallar öryggistækjum í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Ingibjörg Isaksen.

Þrír sögðu upp vegna álags

Vísir sagði frá því síðastliðinn föstudag að þrír sérgreinalæknar hefðu sagt upp störfum á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna álags og að óbreyttu yrði enginn lyflæknir á vakt þar eftir 22. desember. Í frétt Vísis var vitnað í Steinunni Þórðardóttur, formann Læknafélagsins, en fulltrúar félagsins funduðu með læknum og yfirstjórn sjúkrahússins á fimmtudag vegna málsins.

Steinunn segir félagið hafa fylgst lengi með ástandinu á Akureyri. Það hafi verið erfitt, meðal annars með mönnun lækna og yfirvofandi uppsögn ferliverka. Hún sagði hljóðið í læknum mjög þungt. „Enda eru þessir hópar búnir að standa undir mjög viðamikilli þjónustu í mikilli manneklu mjög lengi og það eru margir þarna sem eru á krónískri vakt, það er alltaf hringt í viðkomandi, allan sólarhringinn, allt árið í raun,“ sagði Steinunn í viðtalinu við Vísi. Veita þurfi sjúkrahúsinu heimild til að fjölga læknum. Ekki gangi að þar sé einn læknir í hverri sérgrein og enginn til að leysa af. 

Þjónustufall í skugga uppsagna

Daginn áður höfðu tveir læknar á sjúkrahúsinu, Helga Björk Heiðarsdóttir og Guðjón Kristjánsson, ritað harðorða grein á akureyri.net þar sem þau greindu frá alvarlegum og margþættum vanda á sjúkrahúsinu með yfirvofandi þjónustufalli á landsbyggðinni í skugga uppsagna ferliverkasamninga og spurðu hvað þyrfti til svo yfirvöld myndu bregðast við.

Helga Björk og Guðjón lögðu áherslu á að vandinn væri víðtækari og ekki aðeins tengdur þessum samningum og uppsögnum þeirra. „Víðtækur, kerfislegur og alvarlegur vandi í lengri tíma en uppsagnir ferliverkasamninga án annarra raunhæfra lausna fylltu mælinn. Manneklan og lítil endurnýjun í sérgreininni fyrir norðan ofan á aukna eftirspurn gera aðstæður sjúkrahússins erfiða,“ rituðu þau Helga Björk og Guðjón á fimmtudag.

Alma Möller vanhæf í ferliverkamálinu

Rétt er að halda til haga að Jóhann Páll Jóhannsson, settur heilbrigðisráðherra í málinu, samþykkti í lok október tillögu framkvæmdastjórnar SAk um að fresta tímabundið uppsögnum ferliverkasamninga sérgreinalækna við sjúkrahúsið, eins og akureyri.net greindi frá á þeim tíma. Jóhann Páll höndlar með þetta mál þar sem Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur lýst sig vanhæfa til lausnar á því vegna skyldleika við einn þeirra sem starfa samkvæmt þessum samningum. Ferliverkasamningarnir ná til 13 sérgreinalækna í hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingarfæra- og lyflækningum.