Fara í efni
Fréttir

Ferliverkasamningum ekki sagt upp strax

Mynd: Þorgeir Baldursson

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) lagði í vikunni fram tillögu til Jóhanns Páls Jóhannssonar, setts heilbrigðisráðherra, um að fresta tímabundið uppsögnum ferliverkasamninga sérgreinalækna við sjúkrahúsið. Ráðherra féllst á þessa tillögu og þar með skapast svigrúm fyrir SAk til að vinna að lausn til framtíðar.

Eins og fram hefur komið í fréttum voru ferliverkasamningarnir metnir ólöglegir, því þeir hefðu á sér mynd gerviverktöku, og þeim þyrfti að segja upp.

  • Gerviverktaka er í einföldu máli þegar verktaki vinnur með nær alveg sama hætti og launþegi, fyrir einn og sama vinnuveitandann, og nýtur góðs af því sem fylgir verktakastöðunni án þess að bera ábyrgð sem slíkur.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið sendi dreifibréf á alla forstjóra ríkisstofnana, til að reyna að uppræta þessa gerviverktöku. Eiginmaður Ölmu Möller heilbrigðisráðherra er læknir á SAk og þess vegna sagði hún sig frá þessu máli og Jóhann Páll var settur heilbrigðisráðherra í staðinn.

Uppsögn myndi skapa mikið óhagræði og kostnað

Fram hafa komið áhyggjur af fyrirsjáanlegri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni, verði þessum samningum sagt upp, og í kjölfarið þyrftu sjúklingar að leita í auknum mæli til Reykjavíkur. Slíkt hefði bæði mikið óhagræði og kostnað í för með sér og því hefur SAk lagt áherslu á að finna viðunandi lausnir áður en samningunum verði sagt upp.

Í þessari tillögu SAk er byggt á því að þörf sé á meiri tíma til að vinna að varanlegri lausn sem styðji við áframhaldandi uppbyggingu þjónustu á svæðinu og settur ráðherra féllst á þau sjónarmið. Nú er gert ráð fyrir að ferliverkasamningarnir falli úr gildi eftir mitt næsta ár og tíminn þangað til verði nýttur til að vinna að lausn sem renni stoðum undir áframhaldandi þjónustu og einnig verði leitað leiða til að tryggja frekari mönnun við sjúkrahúsið og styrkja stöðu hans sem aðlaðandi vinnustaðar. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, mun á næstunni skipa starfshóp sem mun vinna að mótun framtíðarlausna.