Fara í efni
Fréttir

Próf eru ekki sama og nám og menntun

Nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri myndaðir að brautskráningu lokinni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 141. sinn í Íþróttahöllinni 17. júní. Takmarkaður fjöldi foreldra og aðstandenda var í Höllinni í aðskildum sóttvarnahólfum. Alls voru 130 stúdentar brautskráðir. Meðaleinkunn hópsins á stúdentsprófi, það er meðaleinkunn allra einkunna öll þrjú námsárin, var há eða 7,8. Til gamans má geta þess að í hópnum var níuþúsundasti stúdentinn sem brautskráist frá Menntaskólanum á Akureyri, Húsvíkingurinn Páll Hlíðar Svavarsson.

Dúx skólans er Trausti Lúkas Adamsson með 9,57 og Margrét Unnur Ólafsdóttir er semidúx með 9,44. Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.

Nýstúdentarnir Eik Haraldsdóttir, Eva Líney Reykdal, Íris Orradóttir og Styrmir Þeyr Traustason fluttu tónlistaratriði í athöfninni.

Í ræðu sinni fjallaði Jón Már Héðinsson, skólameistari, um áhrif þessara sérstöku tíma á skólahald og félagslíf nemenda. Hann beindi orðum að nýstúdentum og sagði að ástandið hefði vissulega sett svip á rúmt ár af þriggja ára skólagöngu ykkar en nám og kennsla hélt áfram, það var erfiðara fyrir suma en léttara fyrir aðra, bæði nemendur og kennara. Stúdentsprófið ykkar er áfram mjög gott og góður vitnisburður um starf ykkar í MA.“

Stefnt að þriggja anna kerfi

Skólameistari sagði að stefnt væri að því að breyta skipulagi skólans í þriggja anna kerfi, í þrjár 60 daga annir með 4-5 námsgreinum hverri svo nemendur gætu betur einbeitt sér að færri viðfangsefnum í einu. Hann sagðist hafa trú á að þetta gerði skólann meira aðlaðandi fyrir nemendur. Hann ræddi líka um breytingar á skipulagi náms á liðinni vorönn, í ljósi óvissu með ýmist fjarnámi eða staðnámi á önnunum á undan, hefði verið ákveðið að ljúka vorönn með verkefnamiðuðu mati í stað prófa. Símatið hafi tvímælalaust aukið fyrirsjáanleika í námi, kennslu og námsmati og það hefði verið mun meiri ró yfir annarlokum í vor en áður. Þetta hafi þó ekki verið eins mikil breyting og virtist í fyrstu, af því símat í skólanum hafi fyrir verið mjög mikið og farið vaxandi á undanförnum árum.

Próf „þægilegt guðlegt tæki“

Skólameistari minnti á að próf hefðu í raun og veru ekki haft neitt með nám og menntun að gera heldur væru þau þægilegt guðlegt tæki til að flokka og útdeila gæðum. Það þarf ekki að fara langt aftur í tíma til að sjá að þetta tæki sendi alla með lesörðugleika burt, alla með of ríka athygli burt, og svo mætti lengi telja. Sumir segja að það sé eðli sumra greina að hafa lokapróf, ég sé enga námsgrein sem hefur það í sér að vera sérstakt verkfæri þessarar flokkunar. Við í MA höfum í nokkurn tíma stefnt frá flokkun af þessu tagi t.d. með öflugri fagstjórn, samstarfi og samþættingu greina, aukinni námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu en fyrst og fremst með því að treysta starfsfólki og nemendum til þess að vilja gera eins vel og mögulegt er.“

Spurningin mikilvægari en svarið?

Skólameistari hvatti einnig ráðuneyti menntamála til að tryggja að allir nemendur geti átt aðgang að upplesnu námsefni. Í dag þarf nemandi að fá greiningu, vera flokkaður frá, til að fá aðgang að upplesnu efni. Nánast allt bóklegt námsmat byggist á lestri, en lestur er bara ein aðferð til að nálgast hugsun annarra en alls ekki eina aðferðin. Það er mjög þægileg leið að flokka nemendur með atkvæðum á mínútu og fjölda stafsetningavillna. Það hins vegar hefur ekkert með málskilning að gera og það er málskilningur sem skiptir máli í hugsun og námi. Við í Menntaskólanum á Akureyri höfum áræðni til að bregðast við. Við erum ekki gamaldags flokkunarkerfi fyrir úrelt embættismannakerfi því starfsfólk og nemendur eru áræðnir og spurulir.

Skólameistari nefndi einnig að í opinberum könnunum komi fram að sífellt stækkandi hópur framhaldsskólanema sjái lítinn tilgang með framhaldsskólanámi sínu. Hann sagðist hafa velt því fyrir sér hvort það geti stafað af því að „skólar eru að kenna svör en nemendur vilja spyrja spurninga nemendur séu kannski að segja okkur skólafólki að spurningin sé mikilvægari en svarið?

Þykir vænt um skólann sinn

Það er hefð að fulltrúar afmælisárganga komi að brautskráningu og ávarpi skólann og nýstúdenta, og flestir færa þeir skólanum framlag í Uglusjóð, hollvinasjóð MA. Fulltrúi 70 ára stúdenta, Anna María Þórisdóttir, sendi kveðju og stutt ávarp, en við skólaslitin fluttu kveðju fulltrúi 60 ára stúdenta Einar Gunnar Pétursson, fulltrúi 50 ára stúdenta Ingunn Svavarsdóttir, fulltrúi 40 ára stúdenta Alma D. Möller, fulltrúi 25 ára stúdenta Arna Guðrún Jónsdóttir og fulltrúi 10 ára stúdenta Inga Bryndís Árnadóttir. Skólameistari sagði lán að MA-stúdentum þætti vænt um skólann sinn, ræktuðu sambandið og ætluðust til að hann sé í fremstu röð. Ína Soffía Hólmgrímsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta, hún var forseti skólafélagsins Hugins sem stýrði félagslífi nemenda í vetur við erfiðar aðstæður.

Tveir starfsmenn voru sérstaklega kvaddir við brautskráningu: Hrefna Gunnhildur Torfadóttir enskukennari til tuttugu ára í MA og Snorri Kristinsson húsvörður sem hættir í vor eftir 25 ára starf við MA. Honum var veitt gullugla skólans eins og öðrum sem hafa starfað við skólann í aldarfjórðung eða meira.

Hamingjan kemur til ykkar

Skólameistari kvaddi loks nýstúdentana og þakkaði þeim samstarfið. Nú erum við á sérstökum tímamótum tregablandinnar gleði, kveðjustunda, þær stundir eru færri þetta vorið en við hefðum viljað. Maður saknar þess sem skiptir máli, það finn ég þegar þið eruð að fara. Þið nýstúdentar hafið verið að þroskast og mótað mannorð ykkar í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk og mannorðið mun fylgja ykkur eins og skólinn. Ég trúi því að einkunnarorð skólans hafi mótað ykkur og að þið ræktið þau áfram með ykkur og hafið eflt með ykkur kjark til að velja og hafna. Menntaskólinn sendir ykkur frá sér tilbúin út í lífið, til að takast á við það og háskólanám af hvaða tagi sem er. En munið að þið getið ekki keypt ykkur hamingju. Hún kemur til ykkar þegar þið eruð að strita að því litla fyrir það mikla.“

Athöfninni lauk á því að Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri var sunginn. Að því loknu gengu nýstúdentar í fylkingu að útisvæðinu sunnan Skólatorgs þar sem teknar voru myndir. Því næst marseruðu þeir um Lystigarðinn og dönsuðu hringdansa á gamla grasvelli skólans vestan Lystigarðs, en það var gert í stað þess að fara úr Höllinni, þar sem engin hátíð er nú að kvöldi vegna Kóvíðsins, niður í bæ, þar sem engin útisamkoma er að þessu sinni af sömu sökum. Annars konar skólaslit annað árið í röð, en allir vona að ástandinu muni brátt ljúka.

  • Myndir að ofan: Jón Már Héðinsson, skólameistari –  Trausti Lúkas Adamsson, dúx skólans.

Eik Haraldsdóttir og Styrmir Þeyr Traustason voru meðal þeirra sem fluttu tónlist við athöfnina.

Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, við brautskráninguna.

Alma D. Möller, landlæknir, var einn júbílantanna sem ávarpaði samkomuna. Alma talaði fyrir hönd 40 ára stúdenta.

Gengið úr Íþróttahöllinni að athöfn lokinni, til myndatöku á lóð skólans. Jón Már Héðinsson, skólameistari, og Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistari, í broddi fylkingar.

Stúdentarnir dönsuðu hringdansa á gamla grasvelli skólans vestan Lystigarðsins, eftir brautskráningu, myndatökur og marseringu í gegnum Lystigarðinn.

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.