Fara í efni
Pistlar

Ómur þagnarinnar

Kammerkór Norðurlands hélt þrenna tónleika á Norðurlandi um helgina, söng í Þorgeirskirkju og í Bergi á Dalvík á laugardag og í Akureyrarkirkju síðdegis á sunnudag. Kórinn, sem þekktastur er fyrir að syngja íslenska tónlist og hefur gefið út þrjá hljómdiska, brá nú undir sig öðrum fæti og flutti eingöngu ameríska tónlist. Þar var ekki setið við einn keip heldur skrunað í gegnum tónlistarsöguna þarna vestur frá og litið inn hjá nokkrum megintónskáldum Bandaríkjanna auk þess að syngja sálma bandarískra blökkumanna og dægurtónlist tuttugustu aldar.

Margt af þessari tónlist hafði ég heyrt áður – en í talsvert einfaldari útsetningum en hér. Kórstjórinn Guðmundur Óli Gunnarsson hefur valið til meðferðar gríðarlega vandaðar og metnaðarfullar útsetningar, sem greinilega eru gerðar fyrir langt komna kóra. Og þegar um það bil tuttugu manna kammerkór syngur í átta og jafnvel 12 röddum er eins gott að allir viti hvar þeir eiga heima í munstrinu – og það kom vel til skila í Akureyrarkirkju, hún ómaði öll – og hljómurinn var ótrúlega breiður og þykkur, hvort sem sungið var lágt og mjúkt eða af krafti og festu.

Elst á efnisskránni má telja þjóðlagið Shenandoah og sálminn Deep River, sem var í útsetningu Normanns Luboff, miklu breiðari og hægari en ég hef áður heyrt. Það var gaman. Annars var tónlistin öll eftir núlifandi tónskáld, ef frá er talinn Stephen Paulus, höfundur Heimleiðarinnar, The Road Home, sem var upphafslag tónleikanna og endurtekið í blálokin. Og hvernig sem á því stendur heita þeir flestallir norrænum nöfnum, þetta eru allt karlar, Lauridsen, Runestad, Gjeilo og Clausen. Og þeir voru á mörgum slóðum – þarna voru sálmar og trúartónlist og alþýðleg verk til skiptis. Dægurlögin frá tuttugustu öldinni voru ekki síður en annað í margslungnum útsetningum. And So it Goes eftir hinn sjötíu og þriggja ára Billy Joel var í ákaflega hljómþýðri útsetningu Bobs Chilcott, en The Sound of Silence eftir aldursforsetann í tónskáldaröðinni, Paul Simon, 79 ára, var í viðhafnarútgáfu sem Alexander L‘Estrange gerði fyrir Voyces8, þann magnaða söngflokk.

Nú verður hver að dæma fyrir sig og engin umsögn er öðrum réttari. Ég segi bara það sem mér finnst. Og þetta voru einstaklega magnaðir tónleikar með einstaklega magnaðri tónlist sem kórstjórinn hefur tínt saman, enda veit hann hvað hann er með í höndunum, tuttugu og tveggja manna hóp söngvara með góða menntun og mikla reynslu. Þetta allt saman skapaði ógleymanlega stund. Og eins og alltaf þegar vel tekst vaknar spurningin – á ekki að flytja þetta oftar. Ég þykist vita að það sé á dagskrá.

Takk fyrir mig.

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 62

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45

Serie A

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 11:30

Uppá eldhússkápnum

Jóhann Árelíuz skrifar
04. maí 2025 | kl. 10:00